Fara í efni
Hjólreiðar

Vel heppnuð Stelpugleði Akureyrardætra

Stelpugleði Akureyrardætra og Greifans heppnaðist vel og gleðin við völd, eins og sjá má á myndunum með umfjölluninni. Ljósmynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson

Akureyrardætur héldu í lok ágúst í fjórða skipti skemmtilegan hjólaviðburð fyrir konur í samstarfi við Greifann undir heitinu Stelpugleði Akureyrardætra og Greifans. Í ár mættu 52 konur og hjóluðu sér til skemmtunar, en í boði var bæði að skrá sig í keppnisflokk fyrir vanar og í byrjendaflokk, auk skemmtiflokks án tímatöku. Flestar af þeim sem mættu skráðu sig í skemmtiflokkinn.

Heppnaðist vel með góðum stuðningi

Að sögn Þórdísar Rósu Sigurðardóttur, einnar Akureyrardætra, tókst viðburðurinn gríðarlega vel og var mikil gleði við völd. Með aðstoð og stuðningi frá fjölmörgum fyrirtækjum og einstaklingum gátu Akureyrardætur gert viðburðinn enn glæsilegri með flottum útdráttarverðlaunum sem vöktu mikla ánægju meðal þátttakenda.

Greifinn var stærsti styrktaraðilinn með frábærum veitingum eftir að hjólað var, auk þess sem þátttakendur fengu frítt í sund í Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar.

Þau fyrirtæki sem gáfu vinninga voru gríðarlega mörg og erum við mjög þakklátar þeim fyrir að aðstoða okkur við að gera þennan einstaka hjólaviðburð að þessari miklu stelpuhjólagleði, segir Þórdís Rósa, en á Facebook-síðu Akureyrardætra má sjá bæði myndir frá viðburðinum og upplýsingar um þau fyrirtæki sem styrktu viðburðinn.

Ljósmynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson

Tilgangurinn að efla heilsu kvenna

Hjóluð var 30 km löng leið frá Laugarborg að Smámunasafninu með tveimur drykkjarstöðvum á leiðinni sem vöktu mikla gleði og var mikið lagt upp úr að gefa sér góðan tíma á stöðvunum.

Þórdís Rósa segir tilgang hjólaviðburðarins vera að fá fleiri konur til að hjóla, efla þær sem eru að hjóla nú þegar og allt með það að markmiði að efla heilsu kvenna. Akureyrardætur hafa einnig alltaf haft það markmið að safna fé til að láta gott af sér leiða á sama tíma og að efla hjólreiðar meðal kvenna, segir Þórdís Rósa.

Styrkja góð málefni

Eins og áður hefur komið fram á Akureyri.net héldu Akureyrardætur styrktarsamhjól þar sem safnað var fyrir landsliðskonurnar úr Hjólreiðafélagi Akureyrar þegar þær fóru á HM í hjólreiðum í byrjun ágúst. Akureyrardætur afhentu þeim 250 þúsund krónur og Sprettur-Inn bætti við 100 þúsund krónum í þann sjóð. 

Undanfarin ár hafa Akureyrardætur safnað og afhent Hjartavernd Norðurlands rúmlega 400 þúsund krónur. Ástæða þess að valið var að styrkja þær Hafdísi og Silju í þetta skipti var að þær þurfa að greiða kostnað við þátttökuna á HM að verulegu leyti úr eigin vasa. Í ár var líka ákveðið að hækka þátttökugjaldið til að gera viðburðinn enn glæsilegri, en einnig til að eiga möguleika á að styrkja gott málefni. Þórdís Rósa segir það sannarlega hafa náðst.