Fara í efni
Hjólreiðar

Akureyri vettvangur fyrir stórt hjólreiðamót

Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf hefur í hyggju að gera Akureyri að vettvangi alþjóðlegra fjallahjólreiða með því að skipuleggja fimm daga mót síðsumars á næsta ári, í lok ágúst. Skipuleggjendur gera ráð fyrir 150 keppendum á næsta ári og tvöföldum þeim fjölda sumarið 2026. Mótið verður haldið undir heitinu Rift MTB. Unnið er að undirbúningi og hafa þeir rætt við ýmsa aðila á Akureyri með samstarf í huga, endurbætur á brautum og fleira.

Upplýst var um þessi áform í hlaðvarpsþættinum Hjólavarpinu. Benedikt Skúlason, stofnafndi Laufs, og Bergur Benediktsson, sem einnig er starfsmaður Laufs, fóru þar yfir þessi áform. „Við erum spennt yfir þessu. Akureyri er fullkomin staðsetning, með stórkostlegum fjöllum og frábærum aðstæðum,“ sagði Benedikt. Þeir eru engir nýgræðingar í skipulagningu hjólreiðakeppna, en Lauf hefur meðal annars staðið að malarhjólakeppninni Rift sem fram fer á Hvolsvelli þar sem um 800 tóku þátt nú í sumar. 

Bergur tók í sama streng og segir Akureyri bjóða upp á einstaka möguleika fyrir alþjóðlega hjólaviðburði, svæðið sé spennandi og ekki mörg önnur svæði á Íslandi sem bjóða upp á jafn fjölbreyttar leiðir og góðan aðgang að fjöllum.

Kynna nýtt fjallahjól og rafmagnsútgáfa væntanleg

Keppnin er að hluta hugsuð í kynningarskyni fyrir nýja fjallahjólið Elju, sem er fyrsta fjallahjólið sem Lauf framleiðir. Benedikt lýsir því að hönnun hjólsins falli vel að aðstæðum í og við Akureyri og hefur gefið til kynna að þeir hyggist einnig þróa nýja rafmagnsútgáfu fjallahjólsins. Segir augljóst að þegar nýtt fjallahjól er þróað verði að sjálfsögðu mögulegt að þróa það einnig áfram sem rafmagnshjól.

Hlaðvarpsþátturinn á Spotify