Hafdís og Silja í 23. og 25. sæti í tímatökunni
Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir kepptu í tímatöku á Evrópumótinu í götuhjólreiðum í Belgíu í dag. Hafdís endaði í 23. sæti og Silja í 25. sæti. Hafdís hjólaði 31,3 km á 45:55,598 mínútum, sem er tæpum sex mínútum lakari tími en hjá sigurvegaranum. Tími Silju var um 38 sekúndum lakari en hjá Hafdísi. Hver þjóð fær tvö sæti í Elite-flokknum í tímatökunni og komu sæti Íslands í kvennaflokknum bæði í hlut keppenda frá Hjólreiðafélagi Akureryar.
Keppnin fer þannig fram að keppendur eru ræstir með tveggja mínútna millibili og hjóla 31,3 km vegalengd. Hjólað var frá Heusden-Zolder til Hasselt, þar sem höfuðstöðvar mótsins eru að þessu sinni.
Götuhjólreiðar á laugardag
Næsta verkefni verður öllu erfiðara hjá þessum fulltrúum Hjólreiðafélags Akureyrar á EM, en þær taka þátt í götuhjólreiðakeppninni sem fram fer á laugardag. Vegalengdin sem þá er farin er 162 km. Þar er enginn miskunn ef keppendur dragast aftur úr því þegar munurinn nær ákveðnum mínútufjölda í fremsta keppanda fær viðkomandi ekki að halda áfram keppni. Þess má geta að þriðja konan sem keppir fyrir Íslands hönd í götuhjólreiðunum á laugardag, Bríet Kristý Gunnarsdóttir, er einnig að norðan þó hún keppi um þessar mundir fyrir Tind.
Silja Úlfarsdóttir fjallaði um Evrópumótið í hlaðvarpinu Klefanum fyrr í vikunni og þar má meðal annars fræðast meira um keppnisfyrirkomulagið í götuhjólreiðunum. Þar er að ýmsu að hyggja fyrir liðsstjóra og viðgerðarmann á þjónustubílunum sem fylgja hópnum. Fróðlegt spjall - sjá hér.