Fara í efni
Hjólreiðar

Hafdís tilnefnd til Gullhjálmsins 2024

Hafdís Sigurðardóttir er ein þeirra sem tilnefnd er fyrir verðlaunin Gullhjálminn 2024.

Hafdís Sigurðardóttir, hjólreiðakona úr Hjólreiðafélagi Akureyrar og margfaldur Íslandsmeistari, er á meðal þeirra sem tilnefnd eru til Gullhjálmsins 2024, verðlauna á vegum Hjólreiðasambands Íslands og Hjólavarpsins.

Innsendar tilnefningar voru rúmlega 50 og var litið til fjölda tilnefninga við val á þeim sem eru síðan í kjöri í kosningunni. Öllum er frjálst að kjósa, en frestur til þess rennur út þriðjudaginn 31. desember. Helsta markmið Gullhjálmsins er að beina sjónum að þeim fjölmörgu sem leggja sitt af mörkum við uppbyggingu hjólreiðasamfélagsins á Íslandi.

Um Hafdísi er eftirfarandi umsögn á vef Hjólreiðasambandsins þar sem einnig má sjá umsagnir um önnur þau sem tilnefnd eru. Þar er einnig krækja fyrir þau sem vilja taka þátt í kjörinu.

Hafdís Sigurðardóttir er tilnefnd til Gullhjálmsins, hún er einstök fyrirmynd og hefur haft mikil jákvæð áhrif á þróun íþróttarinnar. Með dugnaði, fórnfýsi og óbilandi eldmóði hefur hún ekki aðeins náð miklum árangri í eigin ferli sem hjólreiðakona heldur einnig verið óþreytandi í að hvetja og koma öðrum af stað í hjólerí. Hafdís er lifandi sönnun þess að aldrei er of seint að elta draumana sína og hefur með því orðið fyrirmynd fyrir bæði hjólreiðafólk og annað íþróttafólk.

Hún hefur verið drifkrafturinn að baki aukinni og bættri hjólreiðamenningu á Akureyri með stofnun Akureyrardætra, þar sem hún hefur kynnt og eflt hjólreiðar meðal kvenna. Með ástríðu sinni hefur hún sett hjólagleði í hjörtu fjölmargra. Hafdís er ljós í hjólreiðasamfélaginu og er vel að þessari tilnefningu komin.

Auk Hafdísar eru Birgir Birgisson, Erlendur S. Þorsteinsson, Jón Gunnar Kristinsson og saman þau Magne Kvam og Ásta Briem tilnefnd.