Hafdís tvöfaldur Íslandsmeistari
Hafdís Sigurðardóttir, Hjólreiðafélagi Akureyrar (HFA), varð Íslandsmeistari í götuhjólreiðum í gær, aðeins tveimur dögum eftir að hún fagnaði Íslandsmeistaratitli í tímatöku.
HFA hélt Íslandsmótið í götuhjólreiðum við Mývatn og nágrenni í gær. Keppt var við heldur kaldranalegar aðstæður en hitastigið var litlu yfir frostmarki á köflum þegar fjöldi þátttakenda þeystist um í léttum keppnisfatnaði hring um Mývatn og Laxárvirkjun.
Keppnin virtist ætla að verða nokkuð jöfn framan af en mikill mótvindur var fyrstu 60 km, fremstu keppendur héldu sig saman og skiptust á að kljúfa vindinn en þegar stelpurnar hjóluðu aftur í átt að Mývatni og hófu að klifra upp brekkurnar tók Hafdís Sigurðardóttir sig til og hreinlega stakk hinar af, bætti jafnt og þétt við forskotið og kom í mark 4 mínútum og 36 sekúndum á undan Ágústu Edda Björnsdóttur úr Tindi sem varð önnur. Silja Rúnarsdóttir úr HFA kom í mark skömmu á eftir Ágústu Eddu.
Það sem af er sumri hafa konurnar reynt með sér á fjórum götuhjólamótum og þrívegis í tímatöku og hefur Hafdís sigrað í öll skiptin nema á einu götuhjólamótanna þar sem liðsfélagi hennar Silja Rúnarsdóttir varð hlutskörpust.
Íslandsmeistari í karlaflokki í gær varð Ingvar Ómarsson úr Breiðabliki en hann sigraði með nokkrum yfirburðum eins og Hafdís. Á eftir Ingvari kom Hafsteinn Ægir Geirsson og í þriðja sæti varð Akureyringurinn Þorbergur Ingi Jónsson úr HFA.
Mörgum að óvörum skráði sá síðastnefndi, Tobbi ofurhlaupari, sig til leiks í flokki þeirra bestu. Hann gerði sér lítið fyrir og skákaði mörgum af sterkustu götuhjólurum landsins og endaði í þriðja sæti, aðeins örfáum sekúndum á eftir Hafsteini Ægi.
Spennandi verður að sjá hvort framhald verði á keppnisferli Þorbergs í hjólreiðum en það er ljóst hann er ekki síður öflugur hjólari en fjallahlaupari!
Úrslit dagsins í A-flokkunum urðu þessi:
A-flokkur kvenna – 98 km
- Hafdís Sigurðardóttir, Hjólreiðafélagi Akureyrar
- Ágústa Edda Björnsdóttir, Tindi
- Silja Rúnarsdóttir, Hjólreiðafélagi Akureyrar
A-flokkur karla – 138 km
- Ingvar Ómarsson, Breiðabliki
- Hafsteinn Ægir Geirsson, Tindi
- Þorbergur Ingi Jónsson, Hjólreiðafélagi Akureyrar
Hafdís Íslandsmeistari í tímatöku
Íslandsmót í tímatöku – MYNDIR
Hafdís Sigurðardóttir á fleygiferð í keppni gærdagsins.
Þrír efstu í A-flokki karla, frá vinstri: Hafsteinn Ægir Geirsson (2), Ingvar Ómarsson Íslandsmeistari og Þorbergur Ingi Jónsson (3).
Ingvar Ómarsson hjólar í gær. Myndin sýnir vel veðrið sem keppendum var „boðið upp á“.
Þrjár efstu í A-flokki kvenna, frá vinstri: Ágústa Edda Björnsdóttir (2), Hafdís Sigurðardóttir Íslandsmeistari og Silja Rúnarsdóttir (3).