Hafdís í 52. sæti á HM í hjólreiðum
Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar náði fyrr í dag ágætum árangri í tímatökukeppni á HM í hjólreiðum sem fram fer í Skotlandi. Tímatökubrautin var 36 kílómetra löng og teknir millitímar þrisvar í brautinni. Við fyrsta millitíma var hún í 58. sæti, í 55. sæti við annan millitíma og 52. sæti við þriðja millitíma, þá rúmri fimm og hálfri mínútu frá besta tímanum. Hafdís endaði síðan í 52. sæti, á tíma sem var sex mínútum, 22,91 sekúndu lakari en tími sigurvegarans.
Hafdís var ánægð með frammistöðuna að lokinni keppni í dag. „Mér gekk vonum framar og þetta er það allra skemmtilegasta sem ég geri! Mér gekk vel að pace-a mig í keppninni og keyra mig gjörsamlega út,“ sagði Hafdís eftir keppnina í dag.
Skýjað var og 22ja gráðu hiti í dag þegar keppnin fór fram. Tímatökukeppnin fór fram í 36 km langri braut í Stirling, bæ norðaustur af Glasgow þar sem búa um 37 þúsund manns. Í tímatökunni voru keppendur ræstir með 75 sekúndna millibili og raðað í styrkleikaröð, byrjað neðst á styrkleikalistanum og svo koll af kolli þannig að þær sterkustu voru ræstar síðast. Hafdís var þar um miðjan hóp, en 42 keppendur af 86 voru ofar á styrkleikalistanum og ræstu því á eftir Hafdísi. Hún var ræst af stað kl. 13:49 að íslenskum tíma. Eins og fram kom í fyrri umfjöllun Akureyri.net þurfa keppendur í tímatökunni að einbeita sér algjörlega að sjálfum sér og eigin getu því þar er ekki hjólað í stórum hópum eins og í götuhjólreiðunum. Til að mynda er bannað að nýta sér kjölsogið af öðrum keppendum til að létta sér lífið.
Þversnið af brautinni sem Hafdís hjólaði í dag þar sem sjá má hækkanir í brautinni og endað í hæsta punkti. Skjáskot af vef mótsins.
Nú tekur við hvíld og undirbúningur fyrir stóru keppnina á sunnudaginn þegar Hafdís keppir í götuhjólreiðakeppninni, ásamt Silju Jóhannesdóttur úr Hjólreiðafélagi Akureyrar og Kristínu Eddu Sveinsdóttur úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, en þær keppa þar bæði sem einstaklingar og þriggja kvenna lið. Í þeirri keppni eru hjólaðir rúmlega 150 kílómetrar og hefst keppnin kl. 11 að íslenskum tíma.