Fara í efni
Hildur Eir Bolladóttir

Halló Hlíðarfjall

„Við höfum hugsað okkur að hætta að drekka,“ segir konan og lítur vongóð á eiginmann sinn sem kinkar kolli til samþykkis.

„Ja, ekki mun ég andmæla þeirri ákvörðun,“ segi ég án þess að hika, „ég nefnilega hata áfengi.“ Þau springa bæði úr hlátri.

Fyrir nokkrum dögum átti ég þetta samtal á skrifstofu minni í kirkjunni. Þetta er eitt af fjölmörgum hjónaviðtölum sem ég hef átt hvar áfengi hefur komið illilega við sögu. Þetta er þó líklega í fyrsta sinn sem ég missi út úr mér þessa setningu, „ég hata áfengi.“ Maðurinn minn segir alltaf að maður eigi ekki að tala um að hata, það er virðingarverð afstaða, hatur er sterkt orð sem að maður ætti aldrei að nota í tengslum við manneskjur, dýr eða náttúru, maður á að reyna að lifa án þess að hata, hatur er eiginlega andstæða lífsins, hatur er dauði, það er ekki hægt að vera lífsglaður og þakklátur og hata um leið. En áfengi er bara svo nátengt dauða að ég leyfi mér að tala um hatur í sömu andrá.

Ég hata ekki fólk, lifi ekki í eftirsjá og reyni að draga frekar lærdóm af fortíðinni í stað þess að láta hana skilgreina framtíðina. Ég viðurkenni hins vegar að hafa lagt talsvert hatur á áfengi í seinni tíð og eftir því sem lengra líður frá því ég varð edrú hefur eftirfarandi orðið: Annars vegar finnst mér ég elska fólk heitar og hins vegar hata áfengi meira. Með tímanum þegar edrúlífið verður mér eðlilegra og gjafir þess fleiri og stærri verð ég minna hrædd við að lýsa yfir vanþóknun minni á áfengi, áður var ég hrædd við að drepa alla stemningu. Ég á hins vegar oftast mjög góðar stundir með fólki þar sem vín er á borðum og það klagar ekki upp á líðan mína eða edrúmennsku. Ef ég fengi hins vegar ein ráðið myndi ég auðvitað velja alla edrú af því að mér finnst í raun allt fólk skemmtilegra og notalegra edrú. Ég get hins vegar ekki gert þær kröfur að jörðin snúist bara í kringum mig og þess vegna tek ég því sem að höndum ber. Þegar ég fer á Græna hattinn eða Götubarinn þá geri ég mér að sjálfsögðu grein fyrir því að ég er að ganga inn í aðstæður sem hverfast um vín og get því ekki verið að rífa þar kjaft. Áfengi hættir eflaust aldrei að vera til en ég held hins vegar að eftir nokkur ár kannski áratugi verði afstaðan til þess neikvæðari en nú, það er heilmikil vakning í veröldinni varðandi sálrænar, félagslegar og líkamlegar afleiðingar áfengisdrykkju. Ég held að þróunin verði með tímanum sú að við drögum úr aðgengi áfengis og skilgreinum það ekki sem eðlilega og sjálfsagða neysluvöru. Þess vegna finnst mér áfengissala í Hlíðarfjalli sem nýlega kom til samþykktar algjör tímaskekkja. Mér finnst undarlegt að tala um íþróttir sem forvarnarstarf barna og unglinga en um leið og fullorðnir blandast í spilið er nauðsynlegt að áfengi sé haft um hönd. Ég held líka að sú litla en örugga prósenta fólks sem hefur yfirburða og algjöra stjórn á áfengisneyslu sinni sé akkúrat prósentan sem veltir ekki fyrir sér hvort að skíðahótelið selji vín eða ekki vegna þess að það er fólk sem getur skemmt sér án áfengis. Hinn prósentuhlutinn hefur hreinlega gott af því að stunda hreyfingu og útivist og vera í samfélagi við börn sín án þess að nota vín. Í raun og sanni ættum við aldrei að neyta áfengis í kringum börn, við eigum ekki að kenna börnunum okkar að drekka, hvorki í hófi né óhófi, það er ekkert til sem heitir að kenna börnum að umgangast vín. Ef við viljum forða börnunum okkar frá því að bera skaða af áfengisneyslu eigum við að halda víninu frá þeim eins lengi og hægt er, það er marg sannað að eftir því sem einstaklingar eru yngri þegar þeir fara að neyta áfengis eru meiri líkur á þjáningu og skaða til líkama og sálar af því að heilinn verður að fá að þroskast eðlilega áður en miðtaugakerfið verður fyrir árás etanóls.

Hættum að bugta okkur fyrir Bakkusi og látum hann ekki móta framtíð barnanna okkar.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Bleikur mánuður

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. október 2024 | kl. 15:00

Hvað er með þessa þjóðkirkju?

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. september 2024 | kl. 15:00

Ef ég nenni

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
11. febrúar 2024 | kl. 12:00

Náð

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
25. desember 2023 | kl. 18:00

17. júní

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
17. júní 2023 | kl. 17:00

Áfallahjálpin

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
09. apríl 2023 | kl. 18:00