Fara í efni
Hildur Eir Bolladóttir

Bleikur mánuður

Nú er bleikur mánuður genginn í garð. Þessi mynd er þriggja ára gömul og þarna er ég einmitt við það að klára lyfjameðferð eftir krabbamein í meltingarfærum og lifur. Mér þykir vænt um þennan mánuð og samstöðuna í mannlífinu, samkennd er manneskjunni eiginleg, því megum við aldrei gleyma þótt lífið sé stundum kalt og sárt. Krabbamein eru margir sjúkdómar og hver einstaklingur sem greinist er að heyja baráttu sem enginn annar hefur háð, einfaldlega vegna þess að við erum hvert og eitt einstök að gerð. Þannig að þó gott sé að spegla sig í reynslu annarra þá er líka mikilvægt að ganga þessa göngu með sínum eigin skapandi huga og finna bjargráð sem maður kann fyrir. Til dæmis hreyfa sig, hlusta á tónlist, vera með fólkinu sínu, ástunda kolsvartan húmor, hvíla í helgihaldi kirkjunnar, fara á gott uppistand og í leikhús, vinna handavinnu, skrifa ljóð, baka köku, fara í bíltúr, skoða haustlitina.
 
Allir geta veikst af krabbameini, það er bara hrein óheppni að fá þennan sjúkdóm. Lítil börn fá krabba þó þau hafi aldrei reykt né drukkið eða unnið streitufullt starf. Auðvitað er gott að fara vel með sig og reyna að lifa heilbrigðu lífi en það er nú bara fyrst fremst svo maður sé almennileg og farsæl manneskja og geti myndað góð tengsl við sjálfan sig og aðra. Ég hef aldrei hugsað hvort ég hefði getað sloppið við að greinast með krabbamein með því að lifa öðruvísi, hef bara hugsað hvað ég hafi verið lánsöm að geta fengið meðferð, að það hafi verið hægt að skera mig upp og gera allt sem var gert. Ég hef verið hrein í þrjú ár en er alltaf í reglubundnu eftirliti. Framfarir í læknavísindum eru alveg ótrúlegar og svo er Guð alltaf með manni í þessu, það fann ég svo sterkt. Stundum var hann með mér út í Getsemanegarðinum þegar ég var kvíðin og hrædd, stundum á Golgatahæð þegar vondar fréttir bárust en langoftast í upprisunni þar sem vonin var sterk og kærleikur samferðarfólks veitti mér hugrekki og styrk.
 

Hildur Eir Bolladóttir er sóknarprestur í Akureyrarkirkju

Hvað er með þessa þjóðkirkju?

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. september 2024 | kl. 15:00

Ef ég nenni

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
11. febrúar 2024 | kl. 12:00

Náð

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
25. desember 2023 | kl. 18:00

17. júní

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
17. júní 2023 | kl. 17:00

Áfallahjálpin

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
09. apríl 2023 | kl. 18:00

Ekkert til sem heitir Við og Þið

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
05. mars 2023 | kl. 15:00