Áramótaskaupið í heilögum anda
Áramótaskaup sjónvarpsins er án efa einn besti þrýstingsmælir sem til er á þjóðarpúls okkar Íslendinga. Í ár brá svo við að ánægja okkar með skaupið var í sögulegu hámarki, leyfi ég mér að fullyrða. Mér sýnist á öllu að enginn hafi séð tilefni til að móðgast opinberlega við nokkru sem þar var borið á borð. Stjórnmálamenn sáust varla eða aðrir embættismenn. Í rauninni var um sögulegt skaup að ræða hvað efnistök varðar enda sögulegt ár að baki.
Í guðspjalli sunnudagsins sem er sá fyrsti eftir þrettánda og er kennt við guðspjallamanninn Lúkas eru tvö mikilvæg hugtök sem byrja á sama bókstaf, bókstafnum H. Hugtökin eru annars vegar hismi og hins vegar heilagur andi. Guðspjallið sjálft er ekki ýkja langt en greinir frá mjög mikilvægum atburði, annars vegar opinberun Jóhannesar á frænda sínum Jesú og hins vegar skírn Jesú þar sem hann undirstrikar mennsku sína með því að þiggja skírn og staðsetja sig þannig við hlið okkar. Jóhannes gerir viðstöddum grein fyrir því að Jesús sé kominn til að vinna aðeins þau verk sem varða kjarnaatriði mennskunnar og sköpunarverksins og þess vegna er Jesús með varpskófluna í hendi sér til þess að safna hveitinu í hlöðu sína, sem sagt öllu því er varðar raunverulega næringu manneskjunnar til sálar og anda, varðveislu vistkerfisins, félagslegan og efnahagslegan jöfnuð, hér er ekki verið að fást við eitthvert glútenóþol. Hveitið er myndlíking fyrir guðsríki á jörðu þar sem manneskjum er hjálpað að verða sjálfstæðar, farsælar og friðsælar verur, lausar við græðgi, ótta og hroka. Hismið mun hann svo samkvæmt umræddu guðspjalli brenna í óslökkvandi eldi af því að hismið byrgir sýn okkar á þessi raunverulegu lífsgæði, guðsríkis gæðin. Kannski er hismið það sem við þekkjum og vitum að nærir fíkn okkar, deyfilyfin öll sem við notum til að flýja raunveruleikann, þau eru allmörg og ólík en eiga það sameiginlegt að stuðla að tímabundum flótta uns við hverfum til baka úr rússinu mun skelkaðari en áður og verjum okkur þá með dassi af hroka. Það er eðli fíknarinnar, hún endar ekki í kærleika heldur hroka.
En af hverju er ég að tengja saman áramótaskaupið nýja og guðspjall fyrsta sunnudags eftir þrettánda? Jú vegna þess að áramótaskaupið fyrir árið 2020 var stútfullt af heilögum anda og laust við hismi. Þetta skaup kom sér strax fyrir í innsta kjarna þjóðarsálarinnar þar sem hjartað slær nefnilega fyrir sameiginlega, jafna, velferð. Samfélög verða fyrst hamingjusöm þegar jöfnuður ríkir og bilið milli ríkra og fátækra minnkar. Börnin okkar verða þá líka minna kvíðin. Skaupið varpaði ljósi á guðsríkið eða himnaríkið sem er alltaf til staðar í lífi okkar en í venjulegu árferði eru svo margir að hlaupa eftir hisminu og fáir að safna hveiti í hlöður að það skapast ekki nógu mikið jafnvægi til að sem flestir geti komið auga á það. Þau sem leggja áherslu á hveitisöfnunina eru jafnvel álitin metnaðarlaus og hversdagsleg. Síðan skellur á þetta veiru ástand og við erum öll neydd til að leggja rækt við hveitisöfnunina, fara inn á heimilið, einfalda líf okkar. Og þar með er efniviður áramótaskaupsins orðinn til og með góðri vinnu höfunda og leikara skapast klukkutíma þáttur þar sem við sjáum okkur sjálf í fyndnu og fallegu ljósi af því að þannig er kjarni mennskunnar, í senn fallegur og mjög fyndinn.
Áramótaskaupið nýja var hið endanlega svar við spurningunni sem margir spurðu sig á síðasta ári: Langar okkur til að þjóðfélagið verði nákvæmlega eins og það var fyrir Covid 19 þar sem sumir þjóðfélagshópar eru oft á tíðum ósýnilegir? Þar sem börn hafa aldrei haft úr annarri eins afþreyingu, tómstundum og tækifærum að velja en á sama tíma aldrei verið jafn kvíðin? Þar sem gamalt fólk hefur nánast ekkert hlutverk lengur, bara eins og það hafi aldrei verið annað en gamalt og upplifir sig ræna dýrmætum tíma hlauparanna? Þar sem starfsstéttir sem eru að megninu til mannaðar konum eru enn að biðja um sanngjörn laun en það virðist aldrei vera réttur tíma til að leiðrétta kjör þeirra. Hismið gott fólk, hismið þar sem heilagur andi þrífst ekki, af því að hann getur bara verið þar sem raunveruleg og hjartanleg nánd, samstaða og sanngirni ríkir. Hismið. Langar okkur aftur í veirulaust líf í hisminu og áramótaskaup með bröndurum er varpa ljósi á augljósa ósanngirni og skeytingarleysi í þjóðfélaginu, brandara sem láta suma hlæja, aðra gráta en skilja okkur flest eftir með óbragð í munni? Ég vona, ekki.
Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.