Fara í efni
Dagbækur Sveins Þórarinssonar

Sveinn XVI – Fæddr Jón Stefán sonur minn

Í dag birtist 16. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar en í vetur verða birtar færslur aðra hverja viku. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:_ _ _

Gleðilegan dag íslenskrar tungu! Þrátt fyrir að hefð sé fyrir að halda upp á afmæli Jónasar Hallgrímssonar í dag er hann ekki eini þekkti íslenski rithöfundurinn sem fæddist á þessum degi. Jón Stefán Sveinsson eða Nonni fæddist þann 16. nóvember 1857. Hann var fjórða barn Sveins og Sigríðar og fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal. Þó að hús fjölskyldunnar á Akureyri sé skírt eftir Nonna bjó hann varla þar. Hann var sendur í fóstur á Espihól vegna fátæktar og kom aðeins af og til heim til foreldra sinna. Stuttu eftir að Sveinn dó fékk Nonni svo tækifæri til að fara út á meginlandið í nám. Hér má lesa nokkrar valdar færslur úr dagbókum Sveins þar sem Nonni kemur fyrir.

16. nóvember 1857 - Fæddr Jón Stefán sonur minn

Logn hlýindi og blíðviðri. Kl. hálf eitt í nótt vakti k.m. mig, þá orðin jóðsjúk, fékk eg þá strax Jón gamla húsmann hér til að fara með bréf frá mér að Hofi til O. Thorarensen, sem eg bað að koma og hjálpa k.m. við fæðinguna einsog áður fyrri, en með því Thorarensen þá var lasin af brjóstkrampa og aftók að fara, helt Jón að Hvammi og fékk yfirsetukonu Astu Daníelsdóttur með sér, komu þau hingað Kl. 3. A meðan tók k.m. að harðna léttasóttin, og stumruðu m.m. Bogga og Guðrún í Klefa yfir henni ásamt mér, tók Asta til starfa strax, og fæddi k.m. eptir harða hríð sveinbarn kl. 4, og gékk fæðingin þannig að kalla má fljótt og vel, og sýnist ekki ætla að hafa nein bág eptirköst. Eg og hyski mitt allt vakti um nóttina og líka í dag.

Asta fór að áliðnum degi heim og fylgdi gamli Jón henni. Eg borgaði henni 2rd fyrir ómakið. I nótt sefur hjá mér auk Siggu litlu, Armann í fyrsta sinni. Eg fékk til láns “Onkel Tomms Hytte„. Frúin, Petrea, Þorgerður og annað kvenfólk hér kom smámsaman inn að “skoða barnið„ sem er vanaleg, en mér öldungis óskiljanleg fýsn margs kvennfolks.

18. nóvember 1857

Logn blíðt og bjart veður. Eg var að leita að gömlum skjölum fyrir amtm. m.fl. Sigfus í Hvammi var hér að vandræðast með hreppsómaga Svein Þorsteinsson. Pall og Guðlög í Auðbrekku komu og heimsoktu mig með lukku óskir, gekk eg með þeim aptur að Auðbrekku svo heim. K.m. hefir nú góða heilsu og betri enn áður í slíkum kringumstæðum. Barnið er líka frískt og efnilegt. Vil k.m. að hann heiti Jón og mun eg valla hjá komast að láta það eptir henni þó mér þyki Hlöðver eða Ragnar betra.

20. nóvember 1857

Logn þykkt lopt og regn þegar áleið. Eg var að revidera yfirlit yfir ómyndugra fjármuni í Húnavatns sýslu fyrir 5 ár. Armann er síðan 10. þ.m. búinn að fá hryllilegann útslátt um andlitið með graftrarbólum, og skrifaði eg því BT læknis Finsens um lækningu samt BT P. Th. Johsens, bað um vín til að veita við skírn nýfædda sonar míns á sunnudgin kémur. Johann hér lerkaði á Arnþrúði konu sinni um kvöldið.

22. nóvember 1857

Sunnan frostgola og hríðarlegt. Sra Gunnar í Höfða messaði hér og sakramentaði Sra Þórð. Eptir messu skírði Sra Þórður nýfædda son minn hér inni hjá mér, var hann nefndur Jón Stephán, eptir föður k.m. og Stepháni sál. bróður mínum.

Jóhann á Reistará, Guðmundur í Dunhaga og móður mín héldu honum undir skírn. Eg veitti þeim kaffe, Rom og Toddi og sat Johann fram á vöku hjá mér. Nú er sagður faraldur að sinnisveiki. Eg fekk BF Sv. Skúlas. og 7 Ólafskver til sölu, samt Blyvatn frá Finsen við Útslætti á andliti Armanns og þorskalysi frá Anton í Arnarnesi.

m.m. gaf barninu 4rd Jóhann Pálss. 1rd.

23. nóvember 1857

Sunnan frostgola og Bjartviðri. Eg lauk við að concipera athugasemdir við yfirlitin frá Hunavatns sýslu. Björg fór útí Reistará en G. Laxdahl frá Lóni vað léð mér þessa viku. K.m. fór fyrst ögn á ról. arvi insei gou ptaroa eðgi-lliu gou eiðinleglo [var eins og optar geðill og leiðinleg]. Barnið er farið að óspekjast af egta klaufalegri meðferð. Rasmus frá Birnunesi fór nýlega drukkin frá Akureyri og hefir ekki komið til. hestur hans fanst á Oddeyri.

24. nóvember 1857

Sunnan frostgola og bjartviðri. Sunnan póstur hafði komið í nótt og var hann afgreiddur í dag. Eg journaliseraði allt sem hann kom með og conciperaði nokkur bréf. Fréttir bárust eingar markverðar. K.m. er nú farin að róla á fætur og er nú næstum óþolandi stríð við krakka mina, og er líf mitt erfiðt að sitja við skriftir og hafa litla ró heima nótt né dag.

5. desember 1857

Vestan frostgola með hríðarjeljum. Austan póstur fór. Eg var að strika amtsjournal fyrir 1858, lauk við það og skrifaði yfirskriftirnar til Fol. 30. Stefán litli minn var vesæll, sjálfsagt af því að ekki hefir verið hyrt um að hann hefði hægðir í 4 dægur. Nú er hið leiðinlegasta og versta arg og oþægð í krökkum mínum. Eg fekk BF Sra Þórði ómerkilegt.

8. desember 1857

Sunnan hríð og kafald komin Fönn. Eg sat inni um daginn og lauk við yfirskriftirnar í Journalen. Ari á Flugum var um kjurt hjá amtmanni. Eg fægði upp nokkur verkfæri mín.

Rétt fyrir háttatíma vildi svo til að m.m. gekk með ljós frammí matarbúr mitt her á baðstofugólfinu, til að taka fötu til að sækja í vatn, og lét hún Siggu litlu dóttur mína halda á ljósinu. Á meðan m.m. var að sækja vatnið, var eg staddur uppá baðstofuloptinu, og fann allt í einu reykjarsterkju mikla, kallaði eg þá á Jóhann hér til að rannsaka hvaðan reykurinn kæmi, og fundum við, eptir nokkra snúninga, að reykurinn hafði upptök í matarbúri mínu, hvar inni stóðu nokkrar skir- og drykkjartunnur, samt hangdi nokkuð af fötum m.fl. reif eg þá upp hurðina, og fylltist þá baðstofan af svo þykkvum reyk, að ljósin gáfu einga byrtu, og sloknuðu af handaskolum. Í þessum svifum hlupu þær kona mín með úngbarn sitt og Arnþrúður kona Jóhanns með barn sitt suður í múrhúsið í hríðinni og snjónum, var þar búið að loka, og gekk þeim seint að komast inn. Á meðan gátum við Jóhann slökkt eldinn sem farin var að svíða loptið, en hafði kviknað í fötunum. Nú þustu að amtmaður og fólk hans samt A. Arason, með Armann úr reyknum og myrkrinu, en Guðrún hjá amtmanni náði Björgu litlu og vóru þau borin suður í amtmannshús. Varð nú eldurinn slökktur og reyknum hleypt út og komst allt í ró, nema hvað k.m. og Arnþrúður höfðu orðið ákaflega hræddar, og m.m. bar sig ílla, af því hún hefði farið ógætilega með ljósið.

Fyrir utan bleitu og óþokka af því að slökkva brann af fotum:

1. Treya af mér úr klæði … 6rd

2. Flyelstreya af k.m. brúkuð … 1

3. Ný blúsa af Armanni … 3

4. Rauð yfirhöfn af honum … 1

5. Kjóll af Siggu litlu … 2

6. Ønnur föt af börnunum c… 2

Alls hérum= 15 Rdl.

m.m. gaf litla Stebba 1 specíu. Eg gat farið að sofa kl. 3.

13. desember 1857

Sunnan hláka og blíðviðri jörð mikið auð. Messað eg ekki í kkju. Hér vóru margir inni hjá mér eptir messu. Björg kom fra Reistará. Eg fór að consipera ansögning fyrir Friðrik á Fjollum til landbústjórnarfelagsins um vagn. Jón Stefán er nú mjög óspakur og máske veikr. með köflum helzt á nottunni. Jón gamli hér for inní kaupstað að sækja Finsen læknir að taka fingur af konu hanns sem um tíma hefir verið á Hofi; misti hest ofanum ís á Hörgá sem þó náðist aptur. Júlíus litli í Auðbrekku er veikur.

19. desember 1857

Sama veður. Eg skrifaði nokkuð og borðaði með amtm. “Frukost„. Amtmaður, Þorgeður og Jón hér riðu inní kaupstað. Eg var heima um kvöldið skrifaði fyrir mig.

Armann jetur einsog hestur
allt sem getur tönn á fest
Sigga tetrið býr sig bezt
Bjössa metur vænann gest
Björg þá
ber sig verst
ból á
ef einhver sezt,
Stebbi litur mommu mest
margopt setur værð á frest

11. júní 1860

Sunnan hlýinda gola og sólskin. Eg innfærði í legatsbók og fl. gat fyrst fengið seiru[?] af læknum á fjóshólana. Stúlkur beðuðu og settu niður fræ í það sem eptir var af austari garði mínum. Danielsen og Helga yfirsetukona komu hér í dag. I gær gleymdist að geta þess að þá foru báðar stúlkur mínar með alla 4 krakka mína útað Lóni og dvöldu þar mest allan daginn, varð Armann mjög hræddur í ferjunni, orgaði og bað fyrir sér en Nonni íllskaðist og blótaði.

I dag for Hannes í kaupstað, tók af mér 1 hest og uppá hann

½ tunnu af Rúg … 4rd 24

2 keppur af baunum … 2 - 36

1 dunk af grænsápu … 5 -

= 11 60

23. apríl 1864

Sama veður. Eg sat við bréfa skriptir. Nu eru börnin þau ýngri farin að vera úti og jörð orðin mikið auð. Allt mitt hiski heilbrigt, Börnin efnileg. Armann elskulegasta barn. Björg komin til gagns og hefir seinni hlut vetrarins verið yfirheyrð á kirkjugólfi. Jón öslar úti daglega og er frískur og duglegur. Friðbjörg er hér að flækjast með krakka sinn, sem hún vill hafa hér til vinnuhjúaskildaga.

8. september 1864 - Ármann 3 ára

Logn dymmt lopt og rigning. Eg lét þekja uthey mitt ofaná bleytuna. Skrifaði skýrslur og bréf amtsins. Keypti hnakk handa Nonna f 3dl. Amtmaður er með skárra móti. Afmælisdagur Armanns. Markus og Solveig frá Hömrum komu í kaupavinnu til Þorlaks. Eg tok inn kl 7 em. Síra Þorst. d 6 dropa.

16. nóvember 1864 - Jón Stefán 7 ára

Norðvestan kafalds stórhrið. Eg sat við ýmsar skriftir. Benidikt Halldórsson var hér hríðtepptur um kjurt. BT B. Jónssonar léði honum frá amtinu Medicinal Taxta. Amtmaður drakk og ærðist af því og geðveiki sinni. Jón Stefan 7 ára. Rauðka bar.

9. mars 1868

Sama veður. Arngrímur lauk við mynd ina. Hér vóru ymsir að finna mig og Arngrímur um kjurt. Að áliðnu kom sýslumaður Briem og tilkynnti mér að hann nú ætti að seqvestrera bú mitt eptir skipun og skikkun amtmanns, þareð bæarfógetinn hér var ekki heima maldaði eg á móti þessu þartil hann kæmi og reið því Briem fram í fjörð. BF Nonna og harmoniku til aðgjörðar. BT Nonna sendi Skrifbók, staf, fugl og píluboga hans. BF amtmanni skammir og hótanir hinar mestu

9. júní 1868

Austan stormur og kulda skúrir. Eg lagaði til í heyhlöðu, skrifaði uppteiknun yfir bú mitt eptir seqvestratirnsgjörðinni, fékk boð frá Eggert um að hann kendi Nonna sund, læt hann því fara á morgun í sundskóla til Arngríms Gíslasonar að Kristnesi á morgun. Kýr mínar fóru fyrst út.

10. júní 1868

Norðaustan kulda gola, alsnjóaði í nótt lagt í ofna. Eg tók betur til í hlöðu minni, skrifaði aðra uppteiknun yfir bú mitt. Hér kom Gunnlaugur í Nýabæ og kvartaði um hræðslu um veðlán sitt, og fleyri komu. BF Sigurbirni Kristjánssyni. Eg lét Nonna fara um kvöldið með Magnusi á Espihóli skr. BT Eggerts viðvíkjandi sundkennslunni.

14. júní 1868

Norðan kulda stormur með regni og hríðar slitringi. Messað. Eg fór ekki í kirkju. Jóhann í Uppíbæ borgaði mér landskuld sína og leigur næstl. haust í fiski 2s. 15ʉ í innskript til Havsteens 17rd 68s. Eg seldi P. Magnússyni fiskinn f. 11rd 4s og borgaði skuld mína Havsteen. Frá Grímseyingum fékk eg 160 egg á 3rd 24s. Eg seldi Magnusi á Kjarna 1 vætt fisks 5rd 2s og Páli taðkláfa á 4rd. Hér var mikill manngangur og ónæði. Helga Þorgrímsd. falaði hjá mér kvistinn til leigu og lofaði eg því. Eg talaði við marga um ástand mitt og sýndu nokkrir mér velvilja í orði. Eggert Gunnarsson reið að Moðruvollum sagði mér að Jón litli væri komin á sundskólann og efði aðsetur á Grísará.

25. júní 1868

Logn, rigning og svækja. Eg var enn að undirbúa uppboðið á morgun. Eg fékk frá amtinu blanka kvittun stjórnarinnar fyrir kirkjureikningi mínum fyrir fardagaárið 1866/67 og loksins útskript af seqvestrinu hjá mér frá Briem. Ólafur í Hringsdal lá sárveikur og fór Olöf kona hans með Friðrik litla heimleiðis með Ægir um kvöldið. Nonni minn kom hér gangandi úr flækingsferð, frá Möðruvöllum, var hann sendur þangað með kindur frá Stórhóli, settist hér nú að.

22. desember 1868

Norðaustan frostgola hæg og grátt lopt. Eg hafði 3 börn á skóla. keypti 8 potta mjólk fyrir 40s. Jón Stephánsson kom heim í gærkvöldi, og er veikur eg sat hjá honum um stund. Eg frétti að Jón litli minn á Espihóli kæmi ekki fyrir jólin og skrifaði BT hans. BT Flovents á Kálfsskinni.

10. janúar 1869

Logn og blíðviðri. Eg sat heima um daginn nema hvað eg gekk á syðribauk og drakk einn snaps. Hér alveg tíðindalaust. Jón litli fór í dag framm að Espihóli heim til sín, með Einari Gunnarsen. Ekki messað.

4. febrúar 1869

Logndrífa dymm en frostminna. Við næturgestir sátum aptur í ríkmannlegri veizlu á Espihóli og héldum svo heimleiðis í hóp. Eg þoldi ekki að hristast á hestinum hafði sára pínu í bakinu. Við komum við á Kjarna, Eggert og vestanmenn riðu með á Brunnáreyrarnar. Jón litli sonur minn á Espihóli gaf mér 1rdl. sem hann fjekk fyrir hestapössun. Eg sat með Olafi í Hringsdal utá vertshúsi um kvöldið, og gisti hann svo hjá mér um nóttina.

19. febrúar 1869

Norðan gola, dimmt og þokufullt lopt. Eg var mjög lasin tók um 2 morphinpillur til að geta haldið út við barnakennsluna, hafði 9 á skóla. Eggert Gunnarsson kom hér og conciperaði eg fyrir hann eitt bréf til Justitsministeriet. BF Nonna, með því sendi hann móður sinni 2m sem hann af trygð til okkar foreldra sinna hefur dregið saman, fyrir að selja kaffeð sitt á sunnudögum m.fl. BT Nonna. Ymsir komu hér.

16. mars 1869

Sama veður. Eg hafði 7 börn á skóla. Keypti af Benidikt skóara klossa handa Nonna fyrir 7m.

18. apríl 1869

Sunnan vindur og hláka. Ekki messað. Jón litli sonur minn kom hingað frá Espihóli til lað vera hér nokkra daga. Jónas á Möðruvöllum hafði hjá mér um stund og fleyri komu. Eg sat við að skrifa útreikningsbokina, klippti hár af Jóni litla, gekk til Jón Stephánssonar.

1. maí 1869

Norðan gola hæg og bjart veður 4 börn vóru á skóla og var hann nú hafinn. Í fyrradag lagðist Jón litli minn frá Espihóli með höfuðpínu og verk í hálstaugunum, komst hann því ekki frameptir og hefir legið síðan. En í dag frétti eg að 3 stúlkur á Espihóli væri lagstar í taugaveiki, og aðgætti að það einnig var taugaveikin sem að Jóni gengur. Eg keypti því ýms varnarmeðöl á apothekinu, því læknirinn er nú norður í þistilfirði, reif í burtu skóla borð og bekki, flutti rúmföt mín uppá kvist og aðskildi hiski mitt eptir sem eg fekk viðráðið. Er Armann hjá mér. Litla Sigga hjá stúlkum á suðurlopti, en k.m. hirðir um Jón litla og sefur í sama herbergi. Eg var áhyggjufullur og svaf lítið. Nú er mikið líf og Virksomhed hér á bænum, mikill afli af stórum fiski, samt síldar, silungs og uppsa veiði í dráttarnetjum, einnig eru menn að hamast við að stinga upp garða.

2. maí 1869

Hafgola og sólskin. Ekki messað Jón litli liggur þungt með órum, eg keypti Edik, hafurgrjón og Teppi fyrir 5rd 29s allt, er nú í vandræðum af rúmfataleysi. Eg byrjaði að skrifa act og prófsutskipt fyrir sýslumann. Er nú annars einsog fráskilin öllu mannlegu félagi þareð eingin þorir að koma hér nærri húsinu. eða að neinn héðan komi í önnur hús vegna taugaveikinnar. Pall gamli hætti fjóshirðingu og verð eg að taka við henni, hann vildi hafa 13 Rdl. fyrir veturinn, en eg borgaði honum 8rd og reiddist hann af því. Hákarlaskipin sem fyrst fóru komu nú aptur með lítin hákarl en höfðu fengið mikið af blöðruselum og öðrum sel á ísnum sem liggur upp undir land og fyrirbyggir allar skipaferðir og komu kaupfara.

9. maí 1869

Norðaustan kafaldshríð með hvassviðri og kulda. Messað. Eg varð lengstaf að liggja í rúminu vegna kulda. Jón litli er mikið betri og nærri þrautalaus en máttvana. Nú er varla um annað talað í bænum en taugaveikina hér og er fólk fjarskalega hrætt og það svo sumstaðar að hlægilegt er.

10. maí 1869 - Eldaskildagi

Norðan kafald með frosti og hvassviðri. Eg, Ármann, stúlkurnar og ungbarnið, sem uppá lopti liggjum, vórum nær að krokna og héldum því til um daginn í austurstofunni, þó naumst verði þar lagt í ofn vegna eldiviðarleysis. Eg hyrti um fjósið bar vatn, sagaði niður spítur í eldinn. Læknirinn kom að vitja um Nonna, sem nú er þrautalaus og fór á fætur um stund. Eg límdi mér saman Noticebækur og skrifaði smávegis. Eg fékk BF Eggert Gunnarssyni og umboðsreikninga hans til eptirsjónar og lagfæringar. Þar liggja 2. kvenmenn þungt í taugaveiki og var læknirinn sóktur þaðan. Eptir tilskipun amtm. hefir einhver svonefnd heilbrygðisnefnd fest upp hér í bænum „Placat“ um sóttnæmi hjá mér, eitrað hús, og bann móti samgöngum.

13. maí 1869

Norðan kulda gola, birti og eyddi bakka úr norðrinu. Jo rekin inn fyrir Laufás grunn og fullt úti fyrir. Hákarlaskip öll komin inn og komast ei út aptur bæði vegna íss og þess, að eingin matvæli fást til útgjörðar né heldur kaffe, brauð eða annað. Eg særði út seinast hjá Hansen 4 lóð af kaffe og sikri. Um daginn reif eg niður föstu rúmstæðin í svenherberginu hér, svo allt yrði sópað og þvegið. Ólafur frá Espihóli kom og sókti flutning sinn. Eggert Gunnarsson einnig á leið vestur til að vera með Briem á þingum. (: Stjórnin hefir skipað amtmanni að suspendera Christiansson, Briem og Einar á Reinistað vegna kulda í er mælt að Christiansson hafi borgað, að Eggert ætli að hjálpa Briem til þess, en að Einar sé þegar sviptur umboði Reinistaðarkl.:) Jón litli er orðin vel frískur, læknirinn kom samt að vitja um hann, og fór svo út að Möðruvöllum. Það er orðin mjög hneikslanleg hræðsla hér í bænum við „pestina í Sveinshúsinu“?!!! og hefir hin svokallaða „heilbrygðisnefnd“ notað þetta til þess að reyna að gjöra sig dálítið digra með því, að festa upp Placöt um samgöngubann m fl. og um leið að koma mönnum í skilning um tilveru sína.

26. júní 1869

Logn og hiti. Hafísinn kvað nú liggja inn að Arnarnesnöfum. Barkskipið Emma er sagt að sitji nú í ísnum útaf miðjum Skjálfandaflóa. Eg var heima um daginn lasin af kvefi, tók smávegis til handargagns. BF Jóni litla syni mínum. Eg áformaði að taka hann heim vegna ónotalegra kringumstæða hans á Espihóli síðan Eggert fór þaðan og hætti búskap að mestu.

Orðskýringar

Rd: ríkisdalur

Rbd: ríkisbankadalur

M: mark

S: skildingur

1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar

BF: bréf frá

BT: bréf til

þ.m.: þessa mánaðar

k.m.: kona mín

m.m.: mamma mín

Jóðsjúk: með léttasótt

Léttasótt: byrjun fæðingarhríða

Hreppsómagi: sá sem er á framfæri hrepps

Útsláttur: flekkir á líkamanum vegna veikinda eða ofnæmis, útbrot

Lerkaði: að meiða

Sinnisveiki: geðveiki

Taðkláfur: kláfur til að reiða í tað