Fara í efni
Dagbækur Sveins Þórarinssonar

September eður aðdráttamánuður 1849

Í dag birtist 24. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk sl. sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur reglulega síðan. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:
_ _ _

Í september 1849 var Sveinn Þórarinsson 28 ára og í vinnu sem skrifari Havsteens sem þá var sýslumaður í Norður-Múlasýslu. Hann hafði lengi þjáðst af erfiðum veikindum en Hjálmarsen læknir skrifaði upp á alls kyns meðöl fyrir hann sem virðast eitthvað hafa hjálpað líkt og hann lýsir í dagbókarskrifum sínum. Sveinn og Sigríður höfðu nú þegar kynnst en hún bjó á þessum tíma á Grenjaðarstað og þau áttu í samskiptum í gegnum sendibréf, en hann notaði leyninafnið „N.N.“ þegar hann skrifaði um hana í dagbókina.


1. september
Suðaustan ofsa hvassviðri með ákaflegri rigníng framyfir miðjann dag. Eg var að hjalpa til að bjarga heyum og öðru frá foki og rifi tindaði hrífur, bætti net, smíðaði 1 orf sem Havstein gaf Elínu hér, og lagði net í Rauahvammi um kvöldið.

2. september
Sunnan gola og sólskin. Eg var að lesa 1sta hefti af alþ. tíðindum 1849 og hjálpa til að tyrfa utan kúahey. Eg held nú áfram að brúka vatnssýkis dropana en læt duptið bíða, sökum þess þeir gjöra nú þá tilætluðu verkan nl. að auka þvagið og leiða þannig vatnið úr líkamanum, og hef eg því um tíma mikið grennst, og er mér nú sem mest að batna, samt horfin bjúgur af fótum mínum.

3. september
Sunnan hvassviðri með mikilli skúr þá aleið. Eg var að heita bolta, tinda hrífur, bjástra að heyum, búnka reiðínga, samt að “sjurnalisera„ bréf úr Norður- og Suðurmúlasýslum; lagði net; nú er góð silúngsveiði. Havst. og Magnús og fl. riðu ofaná Eskifjörð.

4. september
Sunnan vindur. Eg hyrðti um net, fór að smíða karm um innri kokhúshurðina; fólk allt að þurka hey. Syslumaður kom heim aptur.

5. september
Logn og sólskins hiti. Eg smíðaði 2 nýar hrífur og lagfærði margar; bundnir 36 hestar af heyi syslum. heim í hloðu.

6. september
Logn og sunnan vindur þá áleið. Eg hyrðti um net og var við smíðar. 24 hestar bundnir af nesinu.

7. september - Réttir byrja
Logn og solskins hiti. Eg gjörði við pram þakti stafna og bjó um reiðhesta hey sýslum, skrifaði 10 uppboðsauglýsíngar (á sjógengnum vorum af farmi Port Revals) hyrðti net og fl. Híngað kom Sveinn í Vestdal og Jón Benidictsson á Asi.

8. september - Maríumessa síðari
Alátta, þikkt lopt og norðan rigníng um kvöldið. Eg var við smíðar og að hyrða um silúngsveiði.

9. september
Norðann kulda stormur þikkt lopt og rigníng. Eg var að skrifa bréf til Norðurlands, samt að smíða hestskónagla fyrir Havstein og hyrða net.

10. september
Logn þykkt lopt og kuldi. Eg var að hefla borð, hyrða um net og skrifa. Eyólfur timburmaður kom híngað til að géra að óvnum.

11. september
Norðan hvass kulda stormur með úrkomu. Eg var allan dag að starfa að ovna aðgjörð með Eyólfi. Magnús H. Stephensen og aðrir skólapiltar fóru nú suður og reið Havstein, kona hans og margir aðrir á leið með þeim. Eg sendi með Magn. BT:
1. m.m.
2. faktors Johnsens þarmeð br listi, 1 skinnamappa á 4rd, 1 [...] og 3 Bögur.
3. Sigurðar í Möðrudal um skuld g. Magnussonar á Syðrivarðgjá
4. Sveins Þorsteinss. í Rvík innlögð 1 spesía fyrir Þjóðólf og fl.
5. Jóhannesar á Laxamýri
6. Jóns á Halldorsstöðum
7. N.N. - N.N.

12. september
Logn og þikkt lopt. Við Eyólfur lukum við að gjora að öllum ovnum í húsinu. Eg fékk 1 glas með vatnssýkismeðöl fra Hjálm:

13. september
Sunnan frostgola. Eg hyrðti um net. járnaði 4 hesta í fyrsta sinni, og starfaði margt til undirbúníngs ferð okkar Havst. ofaná Seiðisfjörð, lögðum við svo á stað kl. 3 og hafði eg 3 reiðíngshesta. Eg gisti í Fjarðarseli um nóttina.

14. september
Norðan kulda stormur, og rigning um kvöldið. Eg fór snemma frá Fjarðarseli ofani kaupstaðinn. Þar var haldið uppboðsþíng á sjógeingnu vörunum og var þar margt fólk. Eg sat við skriftir framá nótt; gisti hjá Steenbach í miklu yfirlæti.

15. september
Sunnan vindur og heiðríkja. Eg kepptist við að skrifa “Havarie actinn til miðdegis lauk þá við hann, lagði þá út heimleiðis “Sluppen “Fröven„ og kaupm. Thomsen með henni. Eg reið að Vestdal; keipti föt af Eyólfi timburmanni. Sýslum. reið heim um kvöldið, enn ég gysti í Fjarðarseli með 1 kofforta hest hjá gestrisnu fólki.

16. september
Norðvestan kulda stormur með úrkomu. Eg hélt heim um dagin. “Nornin„ er nýkominn frá Danmörk til Eskifjarðar með henni frettist mikill sigur Dana yfir Þjóðverjum og að 6 mánaða vopnahlé hefði verið stofnað.
17. september
Sunnan kulda gola Eg sat allan dag við ímsar skriftir, Svendsen var hér um nóttina. Eg er nú strax farin að fá frostbólgu í hendur; að öðru leiti er heilsufar mitt heldur að batna.

18. september - Kristj 8. Fæðíng
Suðvestan vindur og mistur. Eg var að hyrða net, skrifa og lagfæra ímislegt. Svendsen var á sáttasamkomu í dag í Vallanesi útaf höndlunarskuldum, og hér um nóttina.

19. september
Sunnan vindur. Eg var að semja yfirlit yfir omyndugra femuni í Nons. 1848 eptir tilsk. 18 Febr. 1847. og hlóð hesthúsheyi um kvöldið.

20. september - Haustm. eða garðl. mán byrj. Heyannir nýa stíls enda.
Sunnan hvassviðri. Eg var við skriftir samt að smíða hurð og hyrða um net. Havstein lofaði mér að ég “skyldi hafa mitt fulla kaup„ þó ég hefði verið heilsulasin. Sra Guttormur á Hofi var um nóttina. Byrjuð fjársöfn.

21. september
Sunnan vindur hvass. Eg var við hurðarsmiði og skriftir, kom fyrir nokkru heyi um kvöldið. Hér var réttarhald dæmt mál um hval í ófærum, frávíjað.

22. september
Sunnan vindur. Eg var að setja til innri kokhúsdyrnar kastaði ofaní hesthúshey og tyrfði það. una æfi geu ltia goo itiðla dai ærastnu ai, veltsu! [nu fæ eg ilt og litið ad nærast a, svelt!] Seinasti heyskapardagur hér.
23. september - Jafnd. haust byrjar.
Sunnan vindur. Eg varað skrifa fyrir mig og hyrða hluti mína, samt að skrifa fyrir syslum. protocol-útskrift og fl. Hér komu um kvöldið 2 skipherrar frá Eskifyrði, 1 styrimaður og 1 timburmaður og gystu skipherrarnir hér enn hinir fóru tilbaka aptur.

24. september
Austan gola, þoka í lopti. Eg sat af kappi við skriftir samt hyrðti um silúnganet. Eg samdi uppkast til Skýrslu um ástand Norðurmúlas. á dönsku. Capteinarnir fóru, og Jón Guðmundss. með lest fyrir Havstein ofaná Eskifjorð. Nú eru menn farnir að reka fé í kaupstað.

25. september
Norðan gola með litlum regnskúrum Eg hyrðti um net sat þessámilli í miklu annríki við skriftir. Hér er nú mikill manngángur á degi hverjum. Um nóttina gystu prófastur Hallgr. á Holmum, kona hans og sonur, og prestur Olafur Indriðason á Kolfreyustað.
26. september
Logn og þykkt lopt. Eg sat við skriftir og hyrðti um net. aðrar gaungur eru nú. Síðan um næstliðna helgi hefir þjónusta mín Katrín verið að tilreiða í veitslu bróður síns útí Snjóholti, enn á meðan hefir Guðrún “kokhústól„ þjónað mér, og hefur hún príðilega hyrðt allan fatnað minn og bætt sem áður var ílla farinn af hyrðuleysi og ónytjúngsskap Katrínar sem lítið hyrðti þar um. Eins hefir Contoirið verið vel sópað og hreinsað þessa daga.
Caffe það sem eg fæ hér er sem optast ódrekkandi skólp; í dag drakk ég það ekki.

27. september
Norðangola köld. Eg skrifaði postbréf í ákéfð frá Norður- og Suðurmulasýslum hyrðti um net, og gjorði við ymsa klápa; hér var hagræðt hlutum á loptinu og borið burt rusk. Högni Gunnlögsson og bróður hans Sigurður voru her nótt. Oddur póstur Sverrisson kom um kvöldið.

28. september
Norðan kulda stormur. Við Havstein sátum á Contórinu allan dag við skriftir og lögðum fyrst þar í óvnin Oddur póstur var afgreiddur um kvöldið.

29. september
Norðan stormur með frosti og hríð, snjóaði ofaní bygð. Eg sat við miklar skriftir ofaní bygð. Eg sat við miklar skriftir með nóga frostbólgu í höndum, lagði óvnin.

30. september
Norðan kulda veður með hríð og rigníng. Eg sat allan dag framá nótt við að skrifa embættisbréf fyrir húsbónda minn og gat því ekkert skrifað af brefum mínum er eg ætlaði að senda með posti á morgun til Norðurlands.

Orðskýringar
Rd: ríkisdalur
Rbd: ríkisbankadalur
M: mark
S: skildingur
1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar
spec.: spesía, dönsk mynt sem var í notkun á 17.–19. öld
BF: bréf frá
BT: bréf til
m.m.: mamma mín
N.N.: Sigríður Jónsdóttir
þ.m.: þessa mánaðar