Viðburðaríkur martius árið 1858
Í dag birtist 21. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk sl. sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur reglulega síðan. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.
Gefum Unu orðið:
_ _ _
Fardagar 1848
Martius eður jafndægramánuður 1858
Marsmánuður 1858 var viðburðaríkur í lífi Sveins og Sigríðar. Þá var Sigríður yngri, elsta dóttir þeirra, nýorðin 5 ára, Björg að verða 4 ára, Ármann 2 ára og Nonni aðeins nokkurra mánaða gamall. Fjölskyldan bjó á Friðriksgáfu á Möðruvöllum í Hörgárdal ásamt Björgu Sveinsdóttur, móður Sveins. Amtmaður var í burtu mest allan mánuðinn í Húnavatnssýslu að reyna að takast á við fjárkláða. Sveinn minntist sérstaklega á að hann hefði lært tvö lög en óvíst er hvort hann lærði að syngja eða spila þau. Fyrra lagið var um Karl 12. Svíakonung, Kung Karl, den unge hjälte, og seinna er óður til norska fánans, Mens Nordhavet bruser. Fjóslækurinn stíflaðist og rann inn í fjósið til kúnna svo heimilisfólkið þurfti að moka fram lækinn í miðri stórhríð. Sveinn hélt upp á 37 ára afmæli sitt og fékk nýja tauskó og rommflösku í gjöf frá Sigríði. Viku fyrir afmælið hans fékk Sveinn þær fréttir að faðir hans hefði andast og skrifaði í lok mánaðar grein um föður sinn í blaðið Norðra sem hægt er að lesa aftast í þessum pistli.
Kung Karl, den unge hjälte - Swedish royalist song
1. mars
Logn og blíðviðri jörð auð að mestu í byggð og aurar komnir í hnje á melum. Hlaðbleita er hér mikil. Eg var ýmislegt að skrifa fyrir amtmann og undirbúa ferð hans vesturí Hunavatns sýslu á morgun til að afráða eitthvað viðvíkjandi fjárkláðanum í Húnavatns syslu.
Jón vinnumaður amtmanns gaf mér góðan hund “Smala„.
2. mars
Sunnan gola og frostkali. Eg var framanaf að pakka niður í ferðakoffort amtmanns. Byrjaði hann ferð sína vestur, reið eg á veg með honum að Auðbrekku, Fornhaga, Skriðu og við Magnús í Auðbrekku svo fram yfir Bægisána, fengum við Brennivín á bæunum og urðum vel hreifir kom eg heim nokkru eptir háttatíma. BF B. Jonssyni.
3. mars
Sunnan hláku stormur. Eg skrifaði BT B. Jónssonar á Akureyri gekk með það að Lóni. Daníelsen lá með veini í Rúmi af geðveiki sinni. Eg tók til á Kontórinu og innfærði Kopíubækur. Fekk Nat og Morgen til að lesa.
4. mars
Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg sat við að innfæra í kopíubók og skrifaði smávegis fyrir mig. Er nú búin að læra lagið: Kung Carl den unga hjelte„ og “Mens Nordhavet bruser„. Tíðindalaust.
5. mars
Norðvestan frosthörku stormur með dimmu kafaldi um tíma. Eg innfærði í KB. Sigurður Snarfari kom hér við á heimleið vestur eptir tilmælum amtm. og skrifaði eg með honum BT amtmanns og sendi honum Norðra sinn. Frúin skrifaði honum líka.
6. mars
Norðvestan frosthörku gola, hríðarlítið enn ljótt lopt. Eg innfærði í KB hyrti nokkra hluti mína og reyndi að halda hyski mínu til þrifnaðar og reglusemi sem eg er vanur um þetta leiti, þó árangurslítil viðleitni sé. Nú les eg “Nat og Morgen„.
7. mars
Norðvestan grimdar stórhríð með miklu veðri hreint óratandi. Ekki messað. Eg var að skrifa fyrir vísur með nótum og las Nat og Morgen. Bætti 1 silunganet mitt. Bærin, einkum eldhúsið, er að fyllast af snjó vegna þakleysis.
8. mars
Norðvestan stórkafald með miklu frosti og snjókomu. Hér komu 2 Húnvetningar, var annar þeirra sendur með bréf sem komið höfðu með postskipi til Reykjavíkur 22 þ.m. kom fjöldi embættisbréfa til amtsins. Opnaði eg þau og skrifaði amtmanni langt Bréf vestur með mönnum, þarí innihald allra embættisbréfanna. Eingar komu fréttir markverðar. Húnvetningarnir gistu hér.
I dag tepptist fjóslækurinn og rann inní fjósið svo kýrnar stóðu í hnje á básunum, fóru allir í það í stórhríðinni að moka fram lækinn og eg með þangað til mér varð íllt, tókst það loksins: Kálfi sem eg el var forðað heim í bæ úr vatnsflóðinu Björg dugði vel í þessu slarki. Eg fekk BF Steph. á Steinsstöðum.
9. mars - Auctions dagur á Akureyri, eg treysti mér ekki að fara
Norðvestan frosthorku veður með renning hríðarlítið. Eg skrifaði BT St. á Steinsstöðum og journaliseraði öll utanlandsbréfin sem komu. BT Sra Þórðar og BF honum aptur. Fékk fréttir um að 4 sýslur væru lausar að vörur allar væru að falla í verði utanlands, að póstdampsskip ætti að koma etc.
10. mars
Norðvestan frostbruna veður. Eg sat við að innfæra í KB. Móður mín kom frá Auðbrekku, Pall þar og Þorlakur í Fornhaga nýkomnir að norðan, og áformar hinn fyrrnefndi að verða Assistent á Húsavik og Þorl. að verða þar veitingamaður. Eg frétti andlát föður míns hægt og rólegt án annars sjúkdóms enn elli hrumleika, 82 ára.
11. mars
Sunnan frostgola og hríðarlegt. Eg innfærði í KB. Hér komu Jón Kristjánsson skrifari og Jon Olafss. dto sogðu í fréttum að auctionin hefði verið haldin á Akureyri þann 9da og allt orðið fjarska dýrt þó ónýtt væri. líka að 50 kaupmenn hefðu fallerað þaraf nokkrir íslendskir, mesta uppþott í öllum höndlunarsökum allar íslendskar vörur fallnar í verði um allt að helmingi, og eru þegar niður settar á Akureyri samt að factorar mættu ekkert lána frá 20 þ.m. heldur skyldi hönd selja hendi héðan í frá að factórar fengju árl. Priis lourant etc. ekki slæmar fréttir fyrir mig.
12. mars
Norðvestan frostgola með hríðarjeljum og ljótu lopti. Eg fékk mér lánshest hjá Tómasi í Brekku reið inní kaupstað með yfirréttardóminn í Sra Magnúsar máli fann Briem í kaupstaðnum, gisti hjá Indriða um nóttina.
13. mars
Norðan froststormur, hríð framanaf. Eg aflauk erendum mínum í kaupstaðnum varð svo Sigurði á Ljósavatni og Jóni á Gautlöndum sem nú ætla til móts við amtmann vestur í Húnavatns sýslu - samferða útá Hálsinn, og helt svo heim gaf rólpund fyrir hestlánið. Færðin slæm her í dalnum. Nú er ekki um annað ræðt enn breytingu á verzluninni.
14. mars
Sunnan frostgola og bjartviðri. Messað, eg for í kirkju. Pall í Auðbrekku sagði mér um norðurferð sína. Eg skrifaði BT Sæmundsens sendi honum 7 skjöl í níðvísnamálinu á Akureyri til láns. BT Briems sýslum. sendi honum restanca lista eptir Journalin og BT J G Havsteens sendi honum lagaboð um bygginganefnd eptir ósk syslumanns. Nú er mikið ræðt um breytinguna á verzluninni.
15. mars
Bjartviðri framanaf svo norðandrífa. Eg innfærði í KB. gekk svo með k.m. framm í Auðbrekku og heim í drífunni. Frúin fekk BF amtmanni hún og Þorgerður og Bjössi gengu útí Lón. Danielsen er nú lasin mjög. Nú hefir Armann verið latin brjóta 2 rúður úr glugganum uppá loptinu.
16. mars
Norðan drífa. Eg innfærði í KB. lauk við innanlands KB. Eg tappaði öl af ankeri á 45 flöskur fyrir frúna, fekk BF Sæmundsen kvittun fyrir skjölin í níðvísnamáli. BF B Jónssyni á Akureyri sendi hann mer uppkast sitt til innboðsreiknings Danielsens til að gjöra þar við athugasemdir.
17. mars - Eg 37 ára
Frost og nokkurnvegin bjartviðri komin nokkur lognsnjór. Eg innfærði í útl. KB. K.m. gaf mér í afmælisgjöf nýa Tauskó sem hún hafði prjónað en Stefán á Steðja sólað og Rommflösku, sem nú er annars ófáanlegt. Eg hresti þarmeð m.m og sjálfann mig, hvört tveggja þetta kom mér óvænt.
18. mars
Sunnan frostgola þykkt lopt. Eg innfærði í KB., revideraði uppkast til umboðsreiknings Daníelsens og skrifaði þar á athugasemdir mínar og BT B. Jónssonar með.
19. mars
Sunnan hlývindi. Eg hljóp útað Lóni með reikningsuppkastið innfærði svo í KB. mokaði snjó, og veitti vatni frá húsum mínum. Eg frétti úr brefi frá Þórarni Grímssyni til Jóhanns á Reistará að faðir minn hefði sálast nóttina milli 3. og 4 Febrúar.
20. mars
Sunnan vindur og hlaka tók mikin snjó. Eg sat við af kappi að innfæra í KB.
21. mars
Sunnan vindur mikil hláka og jörð orðin mikið auð. Hörgá flóði yfir holmann og nesið og er mesta leysing. messað. Eg fór ekki í kirkju en kepptist við að innfæra í KB og lauk því að öllu leiti. Síðan amtmaður fór vestur hef eg verið að kenna Birnu Stephanss. að draga til stafs.
22. mars
Sunnan vindur og hláka. Eg sat við um daginn við að concipera Repartitionsfonds Regnskabet pro 1857. mokaði um kvöldið í húminu saman hlaðbleytu í hauga til aburðar í garða mína. Vinnumenn amtmanns lögðu braðabyrgðar grjóttröð í plankverkið.
23. mars - gránu haldið
Sunnan gola og blíðviðri hafði dálítið sett undan í nótt. Eg conciperaði aðalreikning Möðrufells spítala fyrir 1857, fór að afskrifa í journalinn. Erlendur á Vindheimum var soktur að lækna gráa fola amtmanns. Eg setti 2 tré undir töðuhey mitt, sem bezt lítur út af heyum hér, og sýnist mér eg hafa nóg fóður fyrir kýrnar. Eg mokaði aptur saman hlaðbleytu.
24. mars
Sama veður, jörð næstum sumarauð. Hörgá hreint orðin íslaus, Hákarla skip með þilfari er nú verið að búa ut í legur þessa daga. Eg var að afskrifa í journal. lagði 1 net í kílinn um kvoldið. Sra Þorður er að húsvitja hér fram á bæunum.
Ekki kémur sunnan póstur.
25. mars
Sunnan gola og blíðviðri. Eg lauk við að afskrifa í journal m.m. vitjaði um netið í dögun fekk 6 silunga, lagði 3 ræfla um kvöldið fekk þá 1, þann 7da. Þorsteinn á Øxnhóli færði mér Bleik minn sem gengið hefir þar í vetur, og tók með honum 3rd. nokkuð slíft! Sra Þórður húsvitjaði hér í dag, let ógipta fólkið lesa eða spurði það útí kirkju og var eg þar á loptinu; Reyndust þeir Sigfús og Bjarni vinnum. amtmanns mjög fáfróðir og vissi Sigfús t.a.m. ekki hvað langt væri síðan Kristur fæddist eða hafði nokkra hugmynd um ferminguna eða fermingardaginn.
26. mars
Sunnan hlýinda gola og blíðviðri. Eg byjaði að leggja i journalpakka fyrir 1857 og conciperað nokkur bréf. Eg veiddi 5 silunga sem eg sendi Sra Þórði (alls komnir 12) lagði net með k.m. um kvöldið.
27. mars
Norðan gola með þoku og úða. Eg fekk 3 silunga (alls komnir 15). Eg expederaði og hreinskrifaði nokkur bréf, lauk við allt hvað eg nú hef að skrifa.
28. mars - Pálmasunnudagur
Norðan fjúk með frosthörku. Messað. Eg í kirkju. Björg kom frá Reistará m.m. komst ekki þangað eptir áformi sínu vegna óveðurs. Eg spilaði á langspil suður í húsi fyrir frúna og Þorgerði um kvöldið.
29. mars
Norðan stormur með frostgrimd og hrið. Eg samdi grein til að prentast í Norðra um andlát föður míns. Eg smíðaði lista með ígreyptum nótum sem taka má úr, og setti hann á lángspil mitt; hef nú ekkert að skrifa á kontórinu.
30. mars
Norðvestan frostgrimdar gola með hríð og kólgu í lopti. Eg skar mér Ról og tók til allt í skemmu minni ergði mig mjög yfir umgengni hiskis míns.
31. mars
Norðvestan frostgrimdar gola með hríðarkólgu. Eg skar mer Ról og fór að setja spjöld á atlas minn og bjó til blek. Fylgdarmenn amtmanns komu að vestan og kom Arni hreppstj. í Holti hér við og sagði mér ýmislegt af ferð þeirra amtmanns og er amtmaður nú bráðum væntanl.
_ _ _ _ _
Hér er greinin sem Sveinn skrifaði 29. mars, en hún birtist þann 17. apríl í Norðra. Í sama blaði birtist jafnframt fréttin „Reglur til að uppræta fjársýkina í Húnavatnssýslu, og til að varna útbreiðslu hennar“ þar sem hægt er að sjá hvað kom út úr ferðalagi amtmanns.
„4. dag febrúarmán. næstl. andaðist á Grásíðu í Kelduhverfi Þórarinn Þórarinsson 82 ára gamall; hann var fæddur á Víkingavatni í sömu sveit, missti á unga aldri föður sinn og uppólst ásamt bræðrum sínum – sem allir eru dánir – hjá móður sinni, ekkjunni Ólöfu sál. Grímsdóttur. Árið 1810 byrjaði hann búskap í Kílakoti í tjeðri sveit og giptist árið eptir jómfrú Björgu Sveinsdóttur frá Hallbjarnarstöðum á Tjörnesi. 1815 flutti hann að eignarjörð sinni Meiðavöllum, og bjó þar 2 ár, þaðan 1817 aptur að Kílakoti, hvar hann bjó í 33 ár, eða til vors 1855, þá hann brá búi og fór til sonar síns að Grásíðu. Með konn sinni eignaðist hann 5 börn, 4 sonu og 1 dóttur; dó eitt þeirra ungt og annað um tvítugs aldur, en þau sem ásamt ekkju hins framliðna lifa eptir eru þessi: Þórarinn hreppstjóri á Grásíðu í Keldunesshrepp, Sveinn skrifari amtmanns Havsteins á Friðriksgáfu, hjá hverjum ekkjan er til heimilis, og Margrjet gipt fyrrum hreppstjóra Jóhanni Pálssyni á Ytrireistará. Þórarinn sál var einhver hinn vandaðasti maður í öllu framferði sínu, umhyggjusamur ektamaki og faðir. iðju, sparsemdar og reglumaður. glaður og gestrisinn, ljúfmenni mesta, jafnan frá sneiddur þrætum og misklíð, en ávann sjer hylli allra þeirra er þekktu hann; enginn var hann auðmaður, en búnaðist þó vel. Hann var yfir höfuð merkur maður í sinni stjett.“
Orðskýringar
Rd: ríkisdalur
Rbd: ríkisbankadalur
M: mark
S: skildingur
1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar
BF: bréf frá
BT: bréf til
k.m.: kona mín
m.m.: mamma mín
Heimildir:
„Mannalát og slysfarir.“ Norðri, 17. apríl 1858.