Hver ritskoðaði dagbækur Sveins?
Hér birtist önnur grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net miðlar rannsókninni með þeim hætti að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.
Fyrst er dagbókarfærslan skrifuð beint upp og síðan á nútímamáli. Munurinn er reyndar ekki mikill og stundum enginn.
Gefum Unu orðið:
_ _ _
Ýmsar færslur hafa verið klipptar út úr dagbókum Sveins og stundum heilu blaðsíðurnar rifnar í burtu. Hvorki er vitað af hverju það var gert né af hverjum en ýmsar tilgátur hafa orðið til. Sumir halda því fram að Sigríður, ekkja Sveins, hafi gert þetta til að fela gloppur í hjónabandinu áður en Nonni fékk bækurnar. Aðrir segja að Pétur Havsteen, amtmaður og faðir Hannesar Hafsteins alþingismanns og ráðherra, hafi rifið blaðsíðurnar úr bókunum eða látið einhvern gera það fyrir sig. Sveinn vann lengi sem skrifari hans en samstarf þeirra gekk oft og tíðum erfiðlega fyrir sig. Aðrar tilgátur eru t.d. að Nonni hafi rifið blaðsíðurnar eða að Sveinn hafi jafnvel ritskoðað bækurnar áður en hann dó.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar færslur úr síðustu dagbók Sveins þar sem ýmist hafa verið klipptar burt færslur í heild sinni eða að hluta til eða jafnvel heilu blaðsíðurnar rifnar úr bókunum. Það væri forvitnilegt að vita hver klippti færslurnar var það Sveinn sjálfur, Sigríður kona hans, Nonni eða einhver annar?
23. febrúar 1869
Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg hafði 11 börn á skóla. P. Magnusson kom hér kl. 3 í nótt af skipsfélagsfundi og gisti hér til í dag, og var svo aptur á fundi með Sra Arnljóti og P. Johnsen. Mikið drykkjuslark var á bauknum. Hansen apothekari er nú blindfullur á degi hverjum, svo til vandræða horfir. Magnús á Espihóli kom hér með BF Nonna gott til mín og 2skilding. Líka frétti eg að Magnús hefði haft meðferðis bænarskráarmind til stjórnarinnar, samantekna af Sra Þórði [...]
nú senda á stað til undirskri [...]
Eggert Gunnarssyni, um að [...].
Sunnan frostgola og bjartviðri. Ég hafði 11 börn á skóla. P. Magnusson kom hér kl. 3 í nótt af skipsfélagsfundi og gisti hér til í dag, og var svo aftur á fundi með séra Arnljóti og P. Johnsen. Mikið drykkjuslark var á bauknum. Hansen apótekari er nú blindfullur á degi hverjum, svo til vandræða horfir. Magnús á Espihóli kom hér með bréf frá Nonna gott til mín og túskilding. Líka frétti ég að Magnús hefði haft meðferðis bænarskráarmynd til stjórnarinnar, samantekna af séra Þórði [...]
nú senda á stað til undirskri [...]
Eggert Gunnarssyni, um að [...].
Í þessu tilviki er líklegt að manneskjan sem fór í gegnum dagbækurnar hafi verið að klippa burt færsluna hinum megin á blaðsíðunni. Nánast öll færslan 27. febrúar er farin og auk þess er búið að rífa blaðsíðuna þar á eftir úr bókinni.
_ _ _
2. júní 1868
Norðan fjarska rigning með köflum. Fógetinn og Jónas toku mig í rúmi og heimtaði fógeti af mer archivin. Eg maldaði í móin og krafðist hann [...]
skrifaði BT hans aptur, hann liggur nú veikur og bætti það á bölvun mína. Eg hafði mann í vinnu í kirkjurennunni hér. Afskrifaði seqvestrationina á búi mínu og fl. Hertha sigldi hér á höfn um kvöldið komin beinlínis frá Höfn.
Norðan fjarska rigning með köflum. Fógetinn og Jónas tóku mig í rúmi og heimtaði fógeti af mér skjalasöfnin. Ég maldaði í móinn og krafðist hann [...]
skrifaði bréf til hans aftur, hann liggur nú veikur og bætti það á bölvun mína. Ég hafði mann í vinnu í kirkjurennunni hér. Afskrifaði eignaupptökuna á búi mínu og fl. Hertha sigldi hér á höfn um kvöldið komin beinlínis frá Höfn.
Sitt hvor hliðin á sömu blaðsíðunni
_ _ _
1. október 1866
Logn og þurrviðri. Páll Johnsen byrjaði uppboð á krambúðarvarningi og var eg þar allan dag ásamt fjölda fólks, keypti ýmislegt smávegis. Amtmaður tafði nokkuð fyrir mér með skriptum fyrir sig. Guðm. hjó niður [...]
Logn og þurrviðri. Páll Johnsen byrjaði uppboð á krambúðarvarningi og var ég þar allan dag ásamt fjölda fólks, keypti ýmislegt smávegis. Amtmaður tafði nokkuð fyrir mér með skriftum fyrir sig. Guðm. hjó niður [...]