Dagbækurnar XIV – Slátrunarmánuður 1858
Í dag birtist 14. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar en í vetur verða birtar færslur annan hvern fimmtudag. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.
Gefum Unu orðið:_ _ _
Októbermánuður 1858 byrjaði með látum. Óveður með stórhríð fór um sveitina sem gerði göngur og réttir erfiðar. Sveinn var að eigin sögn „eldiviðarlaus, kaffelaus, sikurlaus, brennivínslaus, tóbakslaus, mjólkurlaus, sapulaus, saltlaus, brennisteinsspítnalaus m.fl.“ og óveðrið lék illa við hann. Maður hvarf frá Akureyri og hélt fólk að hann hefði strokið burt með skipi. Annars hélt lífið áfram sinn vanagang, fólk vann, ferðaðist inn í kaupstað, drakk og slóst. Hér má sjá hvað var í gangi í október fyrir 165 árum.
October eður slátrunarmán. 1858
1. október
Norðvestan kafalds stórhríð með svo miklu veðri í nótt að menn muna ekki þvílíkt, lá húsum við broti. Allt torf fauk af hestaheyi mínu og nokkuð af heyinu með, en hitt skemdist af fönn og for. Báðir lækirnir vóru vatnslausir og varð kúm ekki brinnt fyrrenn um kvöldið niðri í kíl. Nú er eg hreint eldiviðarlaus og ílla staddur. Briem kom um kvoldið að sunnan og brutust þeir Holm og hann inní kaupstað um kvoldið fullir, tíndu bréfum. Eg innfærði í KB. inni hjá mer og fægði upp skilirí mín.
2. október
Norðaustan krapahríð. Eg innfærði í K.B. Hingað komu um kvöldið Olafur á Gilsbakka og Benjamín Pálsson með 18 landskuldarkindur til mín af spítalajörðunum og átti eg bágt með að taka við þeim því eg er nu eldiviðarlaus, kaffelaus, sikurlaus, brennivínslaus, tóbakslaus, mjólkurlaus, sapulaus, saltlaus, brennisteinsspítnalaus m.fl. allt ógert og í oreglu. Annars eru nú mestu vandræði almenn vegna ótíðarinnar, Eldviðarlaust á Akureyri, ókljúfandi fönn, annarstaðar þó meir enn hér, krap og bleyta og húsleki grófasti. Þeir sem nú hafa í hópum rekið fé í kaupstað hafa nærri verið búnir að drepa sig og hesta og sumir mátt snúa aptur, féð hefir fennt í réttunum á Akureyri og orðið að slátra inni í pakkhúsum og gengur allt á tréfótinn.
BF Jónasi í Torfum BF Jóseph Grímssyni og BF Sepháni á Steinsstöðum.
3. október
Norðan bleytu stórhrið ekki messað. Eg fekk Vigfus á Nunnuhól og Magnus í Sponsgérði til þess með þeim Benjamín og Olafi að slátra 17 landskuldarkindunum enn skipti um á einni i M. i Spónsg. var því lokið um kvöldið og gistu þeir feðgar hér.
Kjot allt af 18 kindunum varð 34lʉ 7ʉ mör 53 ½ʉ og reiknaði eg uppbót á þær kindur sem ekki gjorðu 2lʉ kjöt og 4ʉ mör. Menn fóru heðan fram í dal í gaungur.
4. október
Norðvestan stórkafald með frosti og mikilli snjókomu. Skélfdi fram af bustunum hér. Eg sat við skriftir og ditlaði að duglegu stofunni, þar ætlar Amtm. frúin og bornin að sofa í vetur. Armann og Jón synir mínir veikir af uppsölu og niðurgangi. Reiðhestar amtmanns teknir á gjöf. Gangnadagur og sitja gangnamenn fram í dal. Pall Magnusson kom her að tala um 50rd skuld mína við hann sem borgast verður á laugardaginn kemur.
5. október
Norðan storkafald óratandi. Eg skrifaði erinidisbref um fjárhirðingu og ásetning handa hreppsnefndum, setti innri glugga uppi og niðri í baðstofu minni og í barnakamersið hjá amtm. Nokkur skip hafa nú slitnað upp og rekið inn á Leiru gengur ótíðin fram af mönnum.
6. október - Eldadagr. Friðrik 7. fæddur
Norðvestan storkafald með mestu snjókomu. Eg sat við skriftir á Contoirinu.
7. október
Norðan frosthríð. Eg sat við skriftir er nú í mestu vandræðum af eldiviðarleysi. Holm kom frá Akureyri helt að Steinsstöðum. Menn komu úr gaungum með nokkuð af fé, snjóminna er fram í dölunum.
8. október
Norðan frosthríðarfjúk. Eg sat við skriftir. let aðskilja kartoplur mínar og bjó um 5 kvartil af tíndum útsáðskartöplum í grifju í skemmugólfi mínu. Amtmaður hætti að sofa á kontórinu. Eg sendi Guðjón í Spónsgerði eptir 1 tunnu af taði að Hallgilsstöðum og 1 tunnu að Björgum.
9. október
Alátta fjúk og frost. Eg sat við skriftir. Amtmaður misti kú af kálfburði var Erl. á Vindh. sóktur. Daníel í Spónsgerði rakar nú gjærur mínar.
10. október
Norðan bleitu stórhríð rofaði upp þegar áleið, ekki messað. Amtm sendi með bréf sem fara áttu með skipunum því eg treystist ekki að fara og þurfti eg þess þó nauðsynl. Eg setti hólf í Skatholsskuffu mína og lagfærði fleyra.
11. október - Afmæli Ármanns hann 3 ára
Logn frost og bjartviðri, besta skíðafæri. Eg ferjaði mig á hesti yfir staðarvað gekk svo á skíðum að Skjaldarvík fékk þar 30rdl til láns til nýárs komst þaðan m.fl. sjóveg inní kaupstað. Vóru haustskipin 4 að leysa og fara. Eg fekk lanaða hjá faktor Havsteen 20rd, Benid. smið 8rdl í 14 daga. borgaði Páli Magnússyni 50 rdl og er skuld minni við hann lokið. keypti:
8ʉ kaffe
10ʉ kandís … 4rd 84s
8ʉ Ról … 5 - 32
1ʉ grænsápu … „ 20
¾ʉ ljósagarn … „ 60
2 al. lerept … „ 16
16 Bf[?] brennisteinsspítur … „ 32
5ʉ holsteensk Ost … 1 - 4
4ʉ puðursikur … „ 80
= 12rd 56s
samt hálftunnu af baunum til láns, sem eg kom með jagt útað Gæsum m.fl. sem amtm átti; fór svo sjóveg að Skjaldarvík og gekk þaðan og bar með Jóni á Hofi útað Lóni hvar eg var nóttina. Amtm. misti Bekra ofaní skurð í dag og drapst hann, fleyri hestar duttu ofaní er bjargað varð, því nú eru miklar hættur, jörð öll þíð undir fönninni. Sigurveig á Reistará kom í dag og Jóhann þar færði mér kálfsskrokk. Amtmaður lét drepa báður endur sínar og misti 1 hænu samt nokkrar kindur ur bráðafári. Gunnarsen sem var til húsa hjá Indriða gullsmið og hreppstjóra á Akureyri hvarf í fyrri nótt, og eru menn hérumbil vissir um að hann hafi strokið með jagt frá Bergen er nú sigldi fra Akureyri, og mæla sumir að hann hafi verið styrktur til þess af allmörgum Akureyrarbúum.
12. október
Sunnan frostgola. Eg fór heim frá Lóni gekk svo aptur að Gæsum og sókti smávegis sem flutt var kom hinu í geymslu.
13. október
Sunnan frostgola. Vigfús á Nunnuh. hjó niður 16 skrokka fyrir mig sem eg saltaði um kvoldið. Byrjaði að kenna Thótu að skrifa og reikna.
14. október
Þikkt lopt og frostlítið. Eg sat við skriftir. Eg fekk 2 taðhesta fra Arna á Reistará sem Guðjón sokti að Þrastarhóli. Jarðað lík frá Skriðulandi.
15. október
Norðan bleytu veður. Vigfús hjó niður það eptir var af kjöti mínu og saltaði eg það var það alls 1 Uxahöfuð fullt og hátt í kvartili. Erlendur á Vindheimum kom með lánskú mína frá Steinsstöðum og gaf eg honum 8m. Eg hreinskrifaði Artíkula sem amtm og Sra Þorður höfðu samið móti Þjóðólfi.
16. október
Frost og bjartviðri. Eg skrifaði, gekk með Amtm. ofaná Hólma, mokaði skafl frá baðstofu þili og setti þröskuld þar við þilið.
17. október
Logn, sólskin og bjartviðri. Messað. eg í kirkju. Fólk fór að vera til altaris. Guðríður í Krossanesi gisti hér færði mer 1 pott brvín, eg skrifaði fyrir hana bréf til Amtsins. Borgað Danieli í Sponsg 2rd 24s fyrir smávik.
18. október
Sunnan gola frostlaus. Eg fekk 5 hesta og 2 menn (Hallgrím og Guðjón) samt lagði til mína hesta 2, sóktu þeir 10 hesta af Svörð að Hlöðum og verður hvor hestur 42s nefnil.
10 hestar á 16s … 1rd 64
7 hestar á 24s … 1 72
2 menn á 48s … 1 „
alls 4rd 40s
Eg sat við skriftir. Austan póstur kom eptir háttatíma um kvöldið.
19. október
Sunnan hláka og regn. Eg sat af kappi við skriftir. hélt Guðjón í Sponsgerði til smávika. mokaði hann ræsi fram ur garði mínum. Mér sinnaðist nokkuð við Amtmann.
20. október
Sunnan hláka tók mikin snjó. Eg sat við skriftir Norðan póstur afgreiddur héðan Suður. Guðjón var hér og lagfærði og dittaði að heyfúlgu minni að því leiti hun ekki fauk. Eg drakk Toddy með Amtm. um kvöldið.
21. október
Sunnan vindur. Eg skrifaði. Austan posttösku lokað um kvoldið og drukkið Toddy. BF Þorarins br. míns um smjörsending hans og arfaskipti. BT hreppstj. Jóns Joakimssonar um bókaskuld BT P. Magnuss. um trjávið. Guðjón sókti baunahálftunnu að Gæsum.
22. október
Sunnan gola gott við en slæmt færi. Austanpóstur fór. Eg reið með Amtmanni inná Akureyri og gisti hjá Indriða gullsmið um nóttina. Nú var mikið talað um strok Gunnarsens.
23. október - Vetrardagur fyrsti - Gormán. byrjar
Norðan frostgola og hríð um kvöldið margir í kaupstað með lestir. Eg flæktist í kaupstaðnum, drakk með nafna m. og fl. hjá Hallgrími gestgjafa um kvoldið og Dús við Kristm Thorarensen. Amtm. sendi eptir Briem og kom hann. Eg gisti aptur hjá Indriða.
24. október
Norðan kafald birti þá áleið. Við amtm. fórum í slóð fjölda Skagfirðínga og riðum heimleiðis forum um hjá Grjótgarði og þar yfir ána í myrkri. Amtm. fekk mér 8rdl (:sem eg borgaði Benid. smið) og 1rd í spandage[?]. Eg fekk 1rd til láns hjá B Jónssyni og keypti:
Körfu … „ 64s
1ʉ Brunspón … „ 10s
¼ʉ Vitriol … „ 2
4 loð Spansgrænu … „ 12
4 lóð Blástein … „ 4
Leirtau (Rytter) … „ 16
Lerept … „ 8
= 1rd 20s
25. október
Sunnan frostgola. Eg sat við skriftir sendimaður frá Arnesen kom.
26. október
Sunnan rigning og krapahríð. Eg var að skrifa vestur. Reið að Lóni fyrir amtm. Danielsen borgaði mer 5rd og áður 7rd fyrir kor[?], hjústörf[?], eptir af reikningi mínum 9rd 32.
27. október
Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg sat við skriftir prívat kláðabréf og fl.
28. október
Sunnan frostgola. Eg innfærði í KB. Tryggvi á Halsi gisti hér Jón og Hólmfríður á Hofi giptu sig í dag og heldu veizlu í Brekku. Piltar Amtm. og Magnús í Spónsgerði drukku sig útúr og flugust þeir M. og B. lengi á einsog hundar fyrir allra augum appá velli, var svo Mangi að þvættast hér með ólátum uns hann sofnaði.
29. október
Sunnan frostlaus gola. Eg sat við skriftir, Guðjón ók 40 börum á fjóshólana.
30. október
Sunnan hlaka. Eg sat við að skrifa allskonar bölvað óþarft rusl f. amtm. tefst mikið við að kenna Thótu. Sigurður á Aslaksstöðum gipti sig í dag og var Amtm. og frúin í veizlu hans í Brekku. Eg for að smíða meis.
31. október
Sunnan ofsa veður og mesta hláka allur snjór upptekin, áin braut af sér og hljóp á hólmann. messað. Eg bjargaði heyum mínum og fl. frá foki setti 2 glugga í klefa og var að smíða meis; talaði við fáa.
Orðskýringar
Rd: ríkisdalur
Rbd: ríkisbankadalur
M: mark
S: skildingur
1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar
BF: bréf frá
BT: bréf til
Kíll: langur og djúpur lygn lækur
KB: ?
Skilirí: mynd á vegg
Skatthol: kommóða með loki, oftast skáloki, sem er á hjörum og má leggja niður og nota sem skrifborð
Jagt: sérstök gerð seglskipa
Gæsir: Gásir
Bráðafár: bráður sjúkdómur í sauðfé (einkum ungfé), einkennist af blæðingu og bólgu í meltingarfærum
Brvín: brennivín
Toddy: heit áfengisblanda úr t.d. viskíi, brennivíni eða rommi og heitu vatni, sykri og kryddi.
Meis: heylaupur, rimlakassi sem hey var borið í fyrir gripi