Dagbækurnar XII – Mánuður í lífi Sveins
Í dag birtist 12. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar en héðan í frá verða birtar færslur annan hvern fimmtudag. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.
Gefum Unu orðið:_ _ _
Hér má sjá mánuð í lífi Sveins, þrjár af færslunum hafa birst hér áður sem hluti af færslu um drykkjusögur í dagbókunum en nú má lesa þær í samhengi við það sem var í gangi hjá Sveini. Vegna mikillar fátæktar voru flest börn þeirra send í fóstur, Nonni var á Espihóli og Friðrik litli í Hringsdal. Sveinn fór í heimsókn í Hringsdal í lok mars en Friðrik þekkti hann ekki, enda aðeins þriggja og hálfs árs og búinn að vera í fóstri í nokkurn tíma. Ýmislegt gerðist í mars 1868 líkt og má sjá í færslunum, það var unnið, drukkið og söngæfingar haldnar í kirkjunni og eins og alltaf var mikið drama milli Sveins og Havsteens amtmanns. Athugið að skýringar á skammstöfunum eru aftast í færslunni.
Martius eða jafndægramánuður 1868.
1. mars
Logn frost 14° og bjartviðri. Messað. I dag var afmæli Edvalds læknis og Madömu Vilhelminu. Eg gekk til hennar um kvöldið og var tracteraður þar var dans og musik.
2. mars
Sunnan frostgola 14° og bjartviðri. Eg fékk hest hjá P. Johnsen, reið uppað Kjarna dvaldi þar framm í rökkur reið svo heim. Steinn gjörði að skrá og loku fyrir mig. Eg kom í aðgjörð hjá Jóni smið glugga beslögum og fleyru smávegis.
3. mars
Sunnan hláku vindur. Eg setti skrár fyrir 2 kistur, mokaði snjó og ræsi hér kringum húsið, lagfærði ýmislegt. Eg fekk málarareikning frá P. Johnsen uppá 25rd 1m. þókti dýrt. BF Nonna bað um skrifbók og lakk. BT Nonna sendi lakk og fl.
4. mars
Sunnan frostgola. Eg bleytti og spítti 3 gömul kálfskinn og bjó til og skrifaði forskriptir í skrifbók handa Nonna. Pall á Kjarna, kona hans og fl. komu hér. Eg gekk útí bæ til smáerinda. Var á nefndarfundi og bókaði það sem framfór. Afmælisd. sýslumanns, og kom eg þangað og til P Johnsens. lanaði 12rd hjá Havsteen.
5. mars
Logn og hægt fjúk. Eg lauk við að skrifa í bók Nonna. Petreus gipti sig í dag Friðriku á Naustum. P. Magnusson reið út að Möðruvöllum eptir boðum frá amtmanni. Prófastur tafði hjá mér um stund og talaði um viðureign Amtmanns og annara manna.
6. mars
Frost bjartviðri og logn. Eg byrjaði að breyta laga og bæta sildarnet mitt, varð mjög lasin af kvefi með beinverkjum. Arngrímur Gíslason kom og gisti hér. Skilaði mér stúlkumynd sem eg léði honum. P. Magnusson kom frá Möðruvöllum um nóttina.
7. mars
Logri þykkt lopt og hægt frost. Arngrímur var hér um kjurt og gat eg því ekkert að hafst, gekk útí bæ. Um kvöldið gengum við Arngrímur með Armann litla út á söngæfingar. Jónas á Möðruvöllum kom hér á heimleið frá Espihóli. BF Nonna mínum á Espihóli.
8. mars
Logn hægt frost og lítil drífa. Ekki messað. Songæfingar í kirkju. Arngrímur var hér um kjurt og tók mynd af mér (:profil:) sem lukkaðist ágætlega. Eg sat við það lengst af degi. Hér komu ýmsir.
9. mars
Sama veður. Arngrímur lauk við myndina. Hér vóru ymsir að finna mig og Arngrímur um kjurt. Að áliðnu kom sýslumaður Briem og tilkynnti mér að hann nú ætti að seqvestrera bú mitt eptir skipun og skikkun amtmanns, þareð bæarfógetinn hér var ekki heima maldaði eg á móti þessu þartil hann kæmi og reið því Briem fram í fjörð. BF Nonna og harmoniku til aðgjörðar. BT Nonna sendi Skrifbók, staf, fugl og píluboga hans. BF amtmanni skammir og hótanir hinar mestu.
10. mars
Logndrífa lítil og þykkt lopt. Arngrímur fór fram í fjörð og gekk Björg litla með honum fram að Espihóli. Eg byrjaði að bæta síldarnet mitt. Kom þá Briem sýslumaður um miðjan dag með votta Jensen vert og Hallgrím Kristjánsson, samt Jonas Gunnlaugson frá Möðruvöllum með fullmakt frá amtmanni, og var byrjað að seqvestrera bú mitt og haldið áfram til háttatíma. Veitti fógetinn óspart brennivín, og urðu allir hlutaðeigendur hálffullir. Um kvöldið gekk eg út á vertshús og til P. Johnsens sem liggur þungt í nýu axlarmeiðsli, drakk, fann ýmsa menn, seldi upp eptir að eg var háttaður og svaf svo vel.
11. mars
Norðan gola og dymm drífa. Briem sýslum. kom hér aptur með fylgjara sína og Fr. Steinsson og lauk kyrrsetningargjörðinni á búi mínu um daginn vóru það N° virt. Var drukkið einsog í gær. Bæarfógeti S. Thorarensen kom hér einnig og mótmælti athöfn þessari í sínum verkahring, heimtaði borgun m. fl. Hlutirnir vóru yfir höfuð virtir minna enn hálfvirði. Seint um kvöldið fór þessi fjanda hópur héðan og var eg í nokkuð bágu skapi. Stúlka frá Reistará gisti hér, kom með BF Arna og 25rd.
12. mars
Logn hægt frost og bjartviðri. Eg gekk útí bæ skilaði peningaláni og bætti svo síldarnet um daginn. Eptir skipun amtmann tók Briem syslumaður í dag með fjárnámi hjá Stepháni sýslumanni sekt nokkra sem amtmaður hefir dicterað honum 2rd um daginn, enn sem nú er orðin hér um 40rd, og lét St. í þetta hest og hring sem amtm. hafði gefið honum og fleyra rusl. Eptir þessi afreksverk hélt Briem út að Möðruvöllum.
13. mars
Sunnan gola frostlítil og lopt heldur hlákulegt en Baromether mjög fallið. Eg lauk við að bæta síldarnet mitt. Eingin kom og ekkert til tíðinda.
14. mars
Sunnan gola hæg hláka. Eg svaraði bréfi Árskógsstrendinga um byggingu Kleyfar, lagfærði í pakkhúsi. BT Sra Hjálmars, og BT Jakobs á Øngulstöðum. Halldór á Brimnesi gisti hér.
15. mars
Norðan frostgola, þokufullt lopt. Ekki messað. Halldór á Brímnesi var að ámálga að geta fengið skuld sína hjá mér 100rd í vor, Eg fékk honum kyrhúð 15ʉ á 3m= 7rd 3m í rentu. Eg gekk út í bæ, gerði við harmoniku frá Espihóli. E.O. Gunnarsson kom hér frá Möðruvöllum lét mig vita að amtm. ætlaði að realisera bú mitt og taka með valdi af mér umboðið, og að hann (ↄ: Eggert) ætti að taka við því.
16. mars
Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg innfærði í umboðsRB. og föndraði smávegis.
17. mars - Eg 47 ára
Heiðríkt Logn og sólskin. Eg byrjaði að concipera umboðsreikning minn pro 1867/68. Komu þá menn frá Skéri á byttu með fleyri bréf frá Hríngsdal, en ekkert til mín. Bjó eg mig til ferðar með þeim í dag, en vegna hafgolu biðu þeir til morguns. Björg litla kom heim úr ferð sinni að Espihóli og Jón litli með henni til að vera hér nokkra daga. Arngrímur Gíslason kom einnig að framan drakk sig fullann um kvöldið og varð því á “Ytribauk„ um nóttina.
18. mars
Sunnan rosa stormur sem hægði um daginn. Eg for með 2. bræðrum frá Skeri sjóveg á byttu út að Hringsdal komum við upp á Kljáströnd og höfðum allgott leiði. Eg settist að í Hringsdal kl. 2. e.m. Friðrik minn var í miklu eptirlæti og góðu fóstri, frískur og efnilegur, en ekki þekkti hann mig, varð þó fljótt elskur að mér og alúðlegur.
19. mars
Norðvestan hríð. Eg var um kjurt í Hríngsdal í góðu yfirlæti, gat ekki hugsað til að fara yfir að Böggversstöðum, vegna taugaveiki sem þar er, og ekki heldur komið að Nesi sökum þess, að Einar kvað vera farin í Konbónaför austur að Möðrudal á Fjöllum.
20. mars
Suðvestan útsynning stormur og nokkuð frost. Eg sat um kjurt í Hringsdal, spjallaði við Olaf og skemti mér við Friðrik minn sem var mér blíður og ástúðlegur.
21. mars
Vestan rosi í lopti og bakka veður. Eg fór með 2. piltum Olafs á byttu skrifli að Finnastöðum, var íllfært sökum veðurs og kviku. Eg fékk þar því 2 menn og aðra byttu réru þeir svo 4 með mig inn á Kljáströnd, þar var margt manna að gjöra við þilskipin er þar standa. Eg gekk heim að Höfða, settist þar að til morguns. Jón Stephánsson og fleyri gistu þar einnig.
22. mars
Logn um morgunin og ljótir bakkar allt í kring. Eg fékk í Höfða 3 menn og selabyttu til að flytja mig inn á Oddeyri. fórum við af Kljáströnd kl. 10 og rérum inn á móts við Hjalteyri, skall þá á okkur norðan garður með stórhríð, hleyptum við til lands og fengum grjót í byttunna, og létum svo hlaupa á reiðanum inn fjörðin í drífi og kviku, lentum á Oddeyri kl. 3. e.m. Fór eg svo heim, en kom mönnunum fyrir á vertshúsinu, og borgaði fyrir hressingu handa þeim. Hér var messað í dag. Eg var laraður eptir ferðina sem vegna óveðurs varð fremur erfið og kostnaðarsöm en tilgangslítil.
[Búið að rífa næstu blaðsíðu]
27. mars
Logn þykkt lopt og hægt frost. Eg sat við að skrifa fylgiskjöl og afskriptir með umboðsreikningi 1867/68. B.F. E. Gunnarsyni, B.T. hans aptur, um smjör. P. Magnússon kom frá Möðruvöllum, sagði að amtmaður mundi fresta frekari aðgjörðum við mig þangað til svar kjæmi frá stjórninni.
28. mars
Sunnan drifa hláka og mikil leysing. Svarðarhús mitt varð hálffullt af vatni sem hljóp úr skafli undir þilið. Eg var til hádegis að moka ræsi. Svo var eg allan seinni part dags á bæarnefndarfundi. J. Holm frá Hofsós var hér og kom að vestan með stjórnarkorn sjóleiðis.
29. mars
Sunnan hláku vindur, vestan far í lopti. Ekki messað. Eg sat heima skrifaði Registur við innbundnar tilskipanir m fl. Þorlákur á Krossi tafði hér nokkuð. BT Jóns á Gautlöndum um að senda mér útskript af dómi í Skuggabjarga málinu. Jóhannes Halldórsson tafði nokkuð hjá mér um kvöldið.
30. mars
Norðan hægt bleytu fjúk. Eg gekk út í bæ og var allan seinni part dags á Nefndarfundi, meðal annars að semja Áætlunarskrá yfir tekjur og útgjöld kaupstaðarins fyrir 1868/69. Fréttist að bærinn Þingmúli hefði brunnið og að ýmsir menn hefðu orðið úti fyrir austan.
31. mars
Logn og bjartviðri gott veður. Frettist að hafþök af ís væri fyrir Sléttu og einnig hér skammt undan landi. Eg smíðaði 21. flár á síldarnet mitt, spítti kalfskinn og tók til smavegis. BF Tryggva Gunnarssyni um Brettingsstaði. Jóhannes Halldórsson tafði hér nokkuð, bað mig að semja form til Sjóðsskýrslu handa gjaldkera kaupstaðarins B. Steincke. P. Johnsen kom aptur frá Húsavík. Nú er alveg orðið vínlaust á báðum baukum og eins í öllum næstu kauptúnum samt matar- kaffe - sikur og tóbakslaust m.fl.
Orðskýringar
Rd: ríkisdalir
M: mörk
1 ríkisdalur = 6 mörk = 96 skildingar
BF: bréf frá
BT: bréf til
Tractera: veita, gæða e-m á e-u
Beslag = bíslag: viðbygging úr timbri framan við útidyr
Seqvestrera: kyrrsetja
Fullmakt = fuldmagt: umboð
Vertshús: veitingahús
Seldi upp: ældi
Baromether = barómeter: loftvog
Ámálga: minnast á, færa í tal
RB: reikningsbók [?]
Concipera: afrita [?]
Bytta: lítill og lélegur bátur
Konbónaför: Fór til að biðja konu um að giftast sér
Laraður: þreyttur