Fara í efni
Dagbækur Sveins Þórarinssonar

Dagbækurnar VII – Drepist kúgunarvaldið!

Í dag birtist sjöunda grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net miðlar rannsókninni með þeim hætti að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Fyrst er dagbókarfærslan skrifuð beint upp og síðan á nútímamáli. Munurinn er reyndar ekki mikill og stundum enginn.

Gefum Unu orðið:_ _ _

Áður en Sveinn og Pétur Havsteen fluttu til Möðruvalla var sá síðarnefndi sýslumaður Suður-Múlasýslu og bjó á Ketilsstöðum á Völlum. Hér verður litið í dagbækur Sveins til að rekja söguna um hvernig þeir enduðu á Möðruvöllum. Sveinn gerðist skrifari Péturs sumarið 1848 og settist að hjá honum. Þá var amtmaður í Norður- og Austuramti Grímur Jónsson en hann veiktist mikið um áramótin 1848–1849. Ýmsir Skagfirðingar og Eyfirðingar höfðu verið óánægðir með störf Gríms og nokkrir Eyfirðingar mynduðu t.d. bandalag þar sem þeir ákváðu að bjóða ekki í klausturjarðir. Það endaði með því að ekkert var boðið í Möðruvallaklaustur svo að Grímur neyddist til að leigja það ráðskonu sinni, Vilhelmínu Lever.

Þessi óánægja sveitunga náði hápunkti í maí 1849 þegar um 40–50 menn ferðuðust til amtmannsins í uppreisnarhug. Markmið þeirra var að fá amtmann til að segja af sér en seinna fékk þessi ferð heitið „Norðurreið Skagfirðinga“. Þegar þeir komu að Möðruvöllum gengu þeir í einfaldri röð til að traðka ekki á túninu, röðuðu sér í kringum húsið og báðu svo um að fá að finna amtmanninn. Samkvæmt Þóru, síðar Melsteð, dóttur Gríms var hann svo veikur að hann var ekki enn kominn á fætur þegar þetta átti sér stað. Hann var því seinn af stað þegar uppreisnarmennirnir mættu svo þeir enduðu á að lesa upp orðsendingu sína til amtmannsins og festu hana síðan upp á grindverk hans. Eftir það hrópuðu þeir „Lifi þjóðfrelsið! Lifi félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!“ Eftir það sneru þeir við og gengu burt. Grímur klæddi sig í flýti og vildi endilega fá að tala við mennina. Þeir neituðu hins vegar að tala við Grím og flýttu sér burt.

Þetta var því býsna róleg uppreisn miðað við þær sem sáust í Evrópu á sama tíma. Vilhelmína Lever, sem eins og áður var sagt þá var að leigja höfuðbólið, hafði fylgst með uppreisnarmönnunum út um glugga og vildi skjóta á þá úr byssu en var neitað af amtmanni. Uppreisnin hefði því getað orðið mun blóðugri en raun var ef Vilhelmína hefði fengið sínu framgengt. Vilhelmína bjó sjálf í Nonnahúsi frá 1863 til 1864 og hélt uppi veitingasölu. Hún er þó þekktust fyrir að vera fyrsta konan til að kjósa á Íslandi þegar hún kaus í bæjarstjórnarkosningum í mars 1863.

5. júní 1849

Norðan kulda gola og sólskin. Eg hjálpaði til að spila í kríngum dálítin garð, bikaði Pram og reið svo um kvöldið að Höfða til að tala við Hjalmarsen um veikindi mín, og gat ég það í góðri ró; ég sannfærðist nú um, að í mér væru meinlæti, sem væru að grafa við þindina og lifrina aptur við hrigginn, og sem orsökuðu alla mína veiki. Hjalmarsen fann við áþreifíngu lifrina í mér að vera mikið bólgna, og búnga var komin öðrumegin hriggjarins á bakið þar sem verkurinn er, og þar æðarnar mjög uppblásnar, hélt læknirinn að meinlætin mundu þar grafa út, sagði hann að í mér væru víst 10 merkur af greftri; hann sýndi mer ýmsar mindir af ýmislegum pörtum líkamans sagði enn framar að mér væri ekki til neins að brúka innvortis meðöl, enn lofaði mér plástrum til þess að flýta ígjerðinni og til að draga hana út sem fyrst.

Jeg hugsa nú mikið um að fá mig lausann héðan, og að komast til Norðurlands áður enn meinsemd þessi leggur mig algjörlega í rúmið eða verður mér að bana.

Ur bréfi frá Norðurlandi fréttist híngað, að hinn 25 næstl. m. hefðu 50 skagfyrðíngar og 20 hörgdælíngar heimsókt amtmann, og með uppfestu skjali á hús hans, ráðlagt honum að leggja niður embætti sitt þegar í sumar áður ver færi. líka að Barðarstrandar sýslu innbúar hefðu rekið frá embætti og úr sýslunni sýslumann þar, Brinjólf Svendsen, og hótað honum fjötrum ef hann tíndist innan sýslu.

Norðan kulda gola og sólskin. Ég hjálpaði til að spila í kringum dálítinn garð, bikaði Pram og reið svo um kvöldið að Höfða til að tala við Hjálmarsen um veikindi mín, og gat ég það í góðri ró; ég sannfærðist nú um, að í mér væru meinlæti, sem væru að grafa við þindina og lifrina aftur við hrygginn, og sem orsökuðu alla mína veiki. Hjálmarsen fann við áþreifingu lifrina í mér að vera mikið bólgna, og bunga var komin öðru megin hryggjarins á bakið þar sem verkurinn er, og þar æðarnar mjög uppblásnar, hélt læknirinn að meinlætin mundu þar grafa út, sagði hann að í mér væru víst 10 merkur af greftri; hann sýndi mer ýmsar myndir af ýmislegum pörtum líkamans sagði enn framar að mér væri ekki til neins að brúka innvortis meðöl, enn lofaði mér plástrum til þess að flýta ígerðinni og til að draga hana út sem fyrst.

Ég hugsa nú mikið um að fá mig lausan héðan, og að komast til Norðurlands áður enn meinsemd þessi leggur mig algjörlega í rúmið eða verður mér að bana.

Úr bréfi frá Norðurlandi fréttist hingað, að hinn 25 næstliðna mánuð hefðu 50 Skagfirðingar og 20 Hörgdælingar heimsótt amtmann, og með uppfestu skjali á hús hans, ráðlagt honum að leggja niður embætti sitt þegar í sumar áður verr færi. Líka að Barðastrandarsýslu íbúar hefðu rekið frá embætti og úr sýslunni sýslumann þar, Brynjólf Svendsen, og hótað honum fjötrum ef hann týndist innan sýslu.

_ _ _ _ _ _ _ _ 

Grímur amtmaður lést nokkrum vikum eftir Norðurreiðina og sumir kenndu uppreisnarmönnunum um það. Þá fór Pétur Havsteen að huga að amtmannsembættinu og fékk það sumarið 1850. Hér segir Sveinn frá því og svo frá flutningum þeirra.

31. mars 1850 - Páskadagur

Suðaustan feikna hvassviðri með rigníngu og krapahríð, valla komandi út fyrir dyr. Eg sat og skrifaði póstbréf mín allan daginn. hér var einginn viðhöfn og eingin skémtun. Híngað fréttist að Hafís væri rekin inn á Vopnafjörð og er því talið víst að hann sé við Norðurland. Eg komst að því að Havstein hefði í vetur sókt um amtmanns embættið nyrðra.

Suðaustan feikna hvassviðri með rigningu og krapahríð, varla komandi út fyrir dyr. Ég sat og skrifaði póstbréf mín allan daginn. hér var enginn viðhöfn og engin skemmtun. Hingað fréttist að hafís væri rekinn inn á Vopnafjörð og er því talið víst að hann sé við Norðurland. Ég komst að því að Havstein hefði í vetur sótt um amtmanns embættið nyrðra.

5. júní 1850

Sama veður. Eg var að skrifa ýmsar útskriftir. Híngað voru send skipsskjöl frá Petræus & Thomsen á Seiðisfirði til áteiknunar og gjörði ég það eptir húsbonda minn “Ordre„. Bréf komu fra Kmh. til Havst. sem Mdman. braut upp og bað mig að lesa, sá eg þá mér til óútsegjanl. gleði að hann er settur til amtmanns yfir Norður og Austur amtið. [...]

Sama veður. Ég var að skrifa ýmsar útskriftir. Hingað voru send skipsskjöl frá Petræus & Thomsen á Seyðisfirði til áteiknunar og gjörði ég það eftir skipun húsbónda míns. Bréf komu frá Kaupmannahöfn til Havsteens sem Maddaman braut upp og bað mig að lesa, sá ég þá mér til óútsegjanlegrar gleði að hann er settur til amtmanns yfir Norður og Austuramtið. [...]

8. júní 1850

Norðan kuldi. Eg kepptist við að skrifa utskrift af málum Skula á Bondastöðum. Lokið að hreinsa tún. Farið er að verða orðfleigt um amtmannsembætti Havstein.

Norðan kuldi. Ég kepptist við að skrifa útskrift af málum Skúla á Bóndastöðum. Lokið að hreinsa tún. Farið er að verða orðfleygt um amtmannsembætti Havsteen.

9. júní 1850

Logn og blíðviðri. Eg var allann dagin að skrifa utskriftir og sitt hvað annað. Havstein kom heim um kvoldið.

Logn og blíðviðri. Ég var allan daginn að skrifa útskriftir og sitt hvað annað. Havsteen kom heim um kvöldið.

10. júní 1850

Norðan gola og þoka í lopti. Eg skipti búinu, skrifaði þíngjaldslista og fl. Havst. bað mig að vera hjá sér ef hann yrði amtm. og fara með ser norður í sumar.

Norðan gola og þoka í lofti. Ég skipti búinu, skrifaði þinggjaldslista og fl. Havsteen bað mig að vera hjá sér ef hann yrði amtmaður og fara með sér norður í sumar.

11. júní 1850

Norðan fúlviðri. Eg samdi og skrifaði fjolda bréfa til amtmans, syslumanna, hreppstj. og fl. Havst galt mer það sem ogoldið var af kaupi mínu 30rdl í peníngum. Um kvöldið komu bréf til Havsteins fra Kmh. með skipi til Djupavogs fékk hann þarmeð veitíngabréf fyrir amtmanns embættinu.

Norðan fúlviðri. Ég samdi og skrifaði fjölda bréfa til amtmanns, sýslumanna, hreppstjóra og fl. Havsteen galt mer það sem ógoldið var af kaupi mínu 30 ríkisdali í peningum. Um kvöldið komu bréf til Havsteens frá Kaupmannahöfn með skipi til Djúpavogs fékk hann þar með veitingabréf fyrir amtmanns embættinu.

21. júlí 1850

Norðan gola þikt lopt og úrkoma. Eg var ýmislegt að skrifa og bera saman með húsbonda mínum. Bréf komu híngað frá Petræus & Thomsen að þeir ætluðu að sigla norður á Eyafjörð á “Tvende Sostre„ og buðust þeir til að flytja Havst. með fólki og fé. Var því strax farið að undirbúa ferðina og pakka saman flutníng.

Norðan gola þykkt loft og úrkoma. Ég var ýmislegt að skrifa og bera saman með húsbónda mínum. Bréf komu hingað frá Petræus & Thomsen að þeir ætluðu að sigla norður á Eyjafjörð á „Tvende Sostre“ og buðust þeir til að flytja Havsteen með fólki og fé. Var því strax farið að undirbúa ferðina og pakka saman flutning.

22. júlí 1850

Norðan stórrigníng, mest þegar áleið. Havstein reið og Gisli með ofaná Eskifjörð til að kveðja þar fólk. Eg var um d. að pakka niður flutníng og var bundið á 11 hesta sem flytja á ofaná Seiðisfjörð á morgun, var þarí flutníngur minn og borgaði eg 3 hestlán undir hann með 3rdl.

Norðan stórrigning, mest þegar á leið. Havsteen reið og Gísli með ofan á Eskifjörð til að kveðja þar fólk. Ég var um daginn að pakka niður flutning og var bundið á 11 hesta sem flytja á ofan á Seyðisfjörð á morgun, var þar í flutningur minn og borgaði ég 3 hestlán undir hann með 3 ríkisdölum.

23. júlí 1850

Sólskin og mikill hiti. Eg var með Stepháni á Ulfsstöðum að undirbúa uppboð á búi Havsteins á morgun og skrifaði eg uppteiknun fyrir það.

Sólskin og mikill hiti. Ég var með Stefáni á Úlfsstöðum að undirbúa uppboð á búi Havsteens á morgun og skrifaði ég uppteiknun fyrir það.

27. júlí 1850

Sunnan gola og sólskin. Eg pakkaði niður það sem eptir var af flutníngi húsbónda míns, og bjó allt til flutníngs á morgun.

Sunnan gola og sólskin. Ég pakkaði niður það sem eftir var af flutningi húsbónda míns, og bjó allt til flutnings á morgun.

28. júlí 1850

Sunnan vindur. Eg starfaði af miklu kappi að heðanferð okkar, gat því ekki farið til kirkju eingan kunníngja minn kvaðst. Havst. og frú hans riðu til kirkju enn ég og Gísli urðum að fara með 7 aburðarhesta á undan á staði fór ég svo alfarinn frá Kétilsstöðum á Völlum í glöðum hug, því þar hefir líf mitt með mörgu móti verið armæðusamt.

Havst og fjöldi vina hans sem fylgdu á leið náðu okkur Gísla á Fjarðarheiði; Við naðum öll háttum á Seiðisfjörð, og fór eg strax með flutnínginn fram í skip og tók til rúmföt okkar og kom fyrir farángrinum í lestinni. Undanfarna daga hefi ég næstum gengið framaf mer við erfiði til undirbúnings ferðar þessarar.

Um nóttina kl.2 letti skipið Tvende Söstre atkérum í góðum bir úteptir firði, og fórum við þá öll að sofa. A skipinu vóru auk skipverja sjálfra, kaupmennirnir Petræus & Thomsen og Amtm. Havstein, frú hans, sonur hans og dottir, eg og vinnukonur 2 nl. Björg Hildibrandsdottir og Guðrun Asbjörnsdóttir.

Amtmaðurinn, frúinn og börninn voru í Káetunni, enn hinir passaserarnir, samt kapteinninn og stýrimaðurinn, í afþiljuðu dimmu herbergi fram úr henni.

Eg var þreittur og sofnaði vært, valt þó á ymsar hliðar af ruggi og heyrði bilgjuganginn við skipið.

Sunnan vindur. Ég starfaði af miklu kappi að héðanferð okkar, gat því ekki farið til kirkju engan kunningja minn kvatt. Havsteen og frú hans riðu til kirkju enn ég og Gísli urðum að fara með 7 áburðarhesta á undan á staði fór ég svo alfarinn frá Ketilsstöðum á Völlum í glöðum hug, því þar hefir líf mitt með mörgu móti verið armæðusamt.

Havsteen og fjöldi vina hans sem fylgdu á leið náðu okkur Gísla á Fjarðarheiði. Við náðum öll háttum á Seyðisfjörð, og fór ég strax með flutninginn fram í skip og tók til rúmföt okkar og kom fyrir farangrinum í lestinni. Undanfarna daga hefi ég næstum gengið fram af mér við erfiði til undirbúnings ferðar þessarar.

Um nóttina kl. 2 létti skipið Tvende Söstre akkerum í góðum byr út eftir firði, og fórum við þá öll að sofa. Á skipinu voru auk skipverja sjálfra, kaupmennirnir Petræus & Thomsen og Amtmaður Havsteen, frú hans, sonur hans og dóttir, ég og vinnukonur 2 nl. Björg Hildibrandsdóttir og Guðrún Ásbjörnsdóttir.

Amtmaðurinn, frúin og börnin voru í káetunni, enn hinir farþegarnir, ásamt kapteininum og stýrimanninum, í afþiljuðu dimmu herbergi fram úr henni.

Ég var þreyttur og sofnaði vært, valt þó á ýmsar hliðar af ruggi og heyrði bylgjuganginn við skipið.

29. júlí 1850

Norðvestan gola og alátta þegar á dagin leið. Eg vaknaði snemma, gékk uppa þilfar, og var þá skipið útaf Borgarfirði. Frúin, stúlkurnar og börnin var allt dauðveikt af sjósótt allan dagin með miklum uppköstum, og amtmaðurinn ekki heilbrigdur. Eg var heilbrigður og kölluðu skipverjar mig því af spaugi “Söhelten„. Við sáum mörg fiskiskip kríngum okkur, og eitt þeirra, franskt, sigldi við hliðina á Tvende Söstre, vóru þará margir menn sem heilsuðu uppá okkur. Um kvöldið sáum við Lánganes og vórum útaf Strandaflóa þegar við fórum að sofa.

Norðvestan gola og alátta þegar á daginn leið. Ég vaknaði snemma, gekk upp á þilfar, og var þá skipið út af Borgarfirði. Frúin, stúlkurnar og börnin voru öll dauðveik af sjósótt allan daginn með miklum uppköstum, og amtmaðurinn ekki heilbrigður. Ég var heilbrigður og kölluðu skipverjar mig því af spaugi „sægarpinn“. Við sáum mörg fiskiskip kringum okkur, og eitt þeirra, franskt, sigldi við hliðina á Tvende Söstre, voru þar á margir menn sem heilsuðu upp á okkur. Um kvöldið sáum við Langanes og vorum út af Strandaflóa þegar við fórum að sofa.

30. júlí 1850

Alátta optast gola á móti eða logn. Við vórum um morgunin utaf Þistilfirði, og komustum lítið áfram um daginn, sjósóttinn við helzt og mátti ég þjóna hinum veiku, svo ég ekki gat eins notið skémtunar þeirrar sem ég hafði af sjóferðinni, þó var verst að berjast við keipana í Hannesi litla. Við drukkum Sjampania og höfðum besta matarhæfi, drógum fjölda fiska á handfæri. Eg einn þekkti Valþjófsstaðafjall og Slettufjöllin og Gjeblu.

Alátta oftast gola á móti eða logn. Við vorum um morguninn út af Þistilfirði, og komumst lítið áfram um daginn, sjósóttin viðhelst og mátti ég þjóna hinum veiku, svo ég ekki gat eins notið skemmtunar þeirrar sem ég hafði af sjóferðinni, þó var verst að berjast við keipana í Hannesi litla. Við drukkum kampavín og höfðum besta matarhæfi, drógum fjölda fiska á handfæri. Ég einn þekkti Valþjófsstaðafjall og Sléttufjöllin og Geflu.

31. júlí 1850

Logn og mikil kvika framyfir miðjan dag þá vestan gola ámóti. Við vórum um kvöldið útaf Raufarhöfn djúpt í hafi, drógum fisk um dagin til skémtunar, því lítið gékk áfram kvennfólkið og börnin vóru veik af sjósótt. Við sáum Rauðunúpa um kvöldið lengst í Suðvestri.

Logn og mikil kvika fram yfir miðjan dag þá vestan gola á móti. Við vorum um kvöldið út af Raufarhöfn djúpt í hafi, drógum fisk um daginn til skemmtunar, því lítið gekk áfram kvenfólkið og börnin voru veik af sjósótt. Við sáum Rauðunúpa um kvöldið lengst í Suðvestri.

1. ágúst 1850

Norðaustan gola og gott veður. Eg fór snemma á fætur og var þá byr á eptir. Við vórum útaf Axarflóa, láglendi allt hulið sjó. Eg þekki Eylífshnjúk, Þestareykjafjöllinn og Tjörnnesfjöllin og fl. Við höfðum byr á eptir, sigldum innanvið Grímsey inní Eyafjarðarkjaptinn kom þá til okkar lóts frá Látrum, við háttuðum móts við Hrísey, var þá komin feikna rigníng sem viðhelzt alla nóttina.

Norðaustan gola og gott veður. Ég fór snemma á fætur og var þá byr á eftir. Við vorum út af Axarflóa, láglendi allt hulið sjó. Ég þekki Eylífshnjúk, Þistareykjafjöllinn og Tjörnesfjöllin og fl. Við höfðum byr á eftir, sigldum innan við Grímsey inn í Eyafjarðarkjaftinn kom þá til okkar lóts frá Látrum, við háttuðum móts við Hrísey, var þá komin feikna rigning sem viðhélst alla nóttina.

2. ágúst 1850

Norðan kulda stormur hvass. Við vöknuðum við Oddeyrartángann og héldum svo inn á leguna. Allir Passaserar fóru strax í land. Eg varð eptir og pakkaði saman tau þeirra, sem hyrðulaust var fleigt á víð og dreif um allt skipið var ég að því fram yfir miðjan dag, fór þá í land og var allstaðar vel fagnað með miklum tracteríngum, fékk rúm hjá Benidict smið um nóttina.

Norðan kulda stormur hvass. Við vöknuðum við Oddeyrartanga og héldum svo inn á leguna. Allir farþegar fóru strax í land. Ég varð eftir og pakkaði saman tau þeirra, sem hirðulaust var fleygt á víð og dreif um allt skipið var ég að því fram yfir miðjan dag, fór þá í land og var alls staðar vel fagnað með miklum trakteringum, fékk rúm hjá Benidikt smið um nóttina.

3. ágúst 1850

Hafgola og þokufult lopt. Eg var allann daginn að ná flutningi okkar úr skipinu og koma honum í hús hjá factor Havsteen.

Hafgola og þokufullt loft. Ég var allan daginn að ná flutningi okkar úr skipinu og koma honum í hús hjá faktor Havsteen.

5. ágúst 1850

Sama veður. Eg lét af hendi flutníng á 10 hesta sem 2 menn foru með útað Frederiksgáfu; síðan reið ég með amtmanni, Jonassen, sýslum. Briem og miklu fl. höfðíngjum út þángað, og tók þá amtmaður Havstein móti embættinu af Jonassen, amtm. bað mig “haa sine Vegne„ að taka á móti archivinu, og afhendti Ari Sæmundsen mér það. Húsið var tekið út og lagt ofaná alla galla. Mer var fengið til íbúðar verelsi í norðurenda á loptinu, contóristavereli kallað. Við riðum aptur að Akureyri.

Sama veður. Ég lét af hendi flutning á 10 hesta sem 2 menn fóru með út að Frederiksgáfu, síðan reið ég með amtmanni, Jónassen, sýslumanni Briem og miklu fleiri höfðingjum út þangað, og tók þá amtmaður Havsteen móti embættinu af Jónassen, amtmaður bað mig fyrir sína hönd að taka á móti skjalinu, og afhenti Ari Sæmundsen mér það. Húsið var tekið út og lagt ofan á alla galla. Mer var fengið til íbúðar herbergi í norðurenda á loftinu, kontóristaherbergi kallað. Við riðum aftur að Akureyri.

11. ágúst 1850

Sama veður. Eg raðaði niður hlutum mínum. Eg og amtm. fóru í kirkju hér var morgum höfðíngjum boðið inn um kvöldið og var hér skémtilegt. Eg uni mér nú mikið vel, og hef ekkert fundið til óhreysti síðan eg fór að austan, og er nú allur bjúgur horfin af fótum mínum.

Sama veður. Ég raðaði niður hlutum mínum. Ég og amtmaður fórum í kirkju hér var mörgum höfðingjum boðið inn um kvöldið og var hér skemmtilegt. Ég uni mér nú mikið vel, og hef ekkert fundið til óhreysti síðan ég fór að austan, og er nú allur bjúgur horfinn af fótum mínum.

Fræðilegar heimildir:

Gunnar F. Guðmundsson. Pater Jón Sveinsson: Nonni. Reykjavík: Opna, 2012.

Jón Hjaltason. Nonni og Nonnahús. Akureyri: Hólar, 1993.

Kristmundur Bjarnason. Amtmaðurinn á Einbúasetrinu: ævisaga Gríms Jónssonar. Reykjavík: Iðunn, 2008.

Ólafur Oddsson. „Norðurreið Skagfirðinga vorið 1849.“ Saga: tímarit Sögufélags 11, nr. 1 (1973): 5–73.