Dagbækur Sveins IX – Ást, afbrýði og örvænting – Sveinn kveðst íhuga að fremja morð
Í dag birtist níunda grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net miðlar rannsókninni með þeim hætti að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.
Fyrst er dagbókarfærslan skrifuð beint upp og síðan á nútímamáli. Munurinn er reyndar ekki mikill og stundum enginn.
Gefum Unu orðið:_ _ _
Sveinn og Sigríður Jónsdóttir frá Reykjahlíð við Mývatn kynntust fyrst þegar þau voru bæði í vist á Húsavík. Hann minntist þó varla á hana í dagbók sinni fyrr en hún fór úr vistinni, en sú dagbókarfærsla birtist einmitt í síðustu grein.
28. mars 1848
Sunnan hláku vindur. Eg feldi borð saman og heflaði. Igsu=iðurru órfa eðanhi lfarau=nie. Gei lskeu=diao anahi yrirfu lai=öruvu indistpu fau orgsa. 1ti selur við Snásu.
Sunnan hláku vindur. Ég felldi borð saman og heflaði. Igsu=íðurru órfa éðanhi lfarau=nie. Géi lskeu=ðiao anahi yrirfu lai=öruvu índistpu fau orgsa [Sigríður fór héðan alfarin. Ég elskaði hana fyrir alvöru píndist af sorg]. 1ti selur við Snásu.
__________________________________________________
Þau virðast hafa skrifað bréf sín á milli en lítið sem ekkert hist. Í lok september 1850, stuttu eftir að Havsteen tók við amtmannsembættinu, ferðaðist Sveinn norður að Grenjaðarstað til að hitta Sigríði. Þar var hann truflaður af ást á henni en heyrði líka ýmist slúður um hana. Leyniletrið sem Sveinn notaði af og til var enn hið sama og árin áður, en nú notaði hann oftast tvíkló („) í stað samasemmerkis til að tengja saman orð.
23. september 1850
Sunnan gola og sólskins hiti. Eg reið frá Akureyri norður að Grenjaðarstað, kom þar eptir sólsetrið, og gysti þar um nóttina. N.N. arvi Kiei eimahu, omku mui ottinano.
Sunnan gola og sólskins hiti. Ég reið frá Akureyri norður að Grenjaðarstað, kom þar eftir sólsetrið, og gisti þar um nóttina. N.N. arvi kkiei eimahu, omku mui óttinano [Sigríður var ekki heima, kom um nóttina].
24. september 1850
Sama veður ég fór frá Grenjaðarstað fyrir hádegi, atgu itiðle alaðto iðvu NN. kom við Hraunrétt, þar var réttardagur, náði að Kílakoti um kvöldið og var þar nóttina.
Sama veður ég fór frá Grenjaðarstað fyrir hádegi, atgu ítiðle alaðto iðvu NN [gat lítið talað við Sigríði]. Kom við Hraunrétt, þar var réttardagur, náði að Kílakoti um kvöldið og var þar um nóttina.
25. september 1850
Sunnan gola og sólskin. Eg kom að Víkíngavatni, reið svo með m.m. að Garði og Kéldunesi, gékk þaðan að Þórunnarseli. Johann mágur minn reið með mér að Kílakoti um kvöldið hvar ég var um nóttina. Dagurinn eyddist fyrir mér vegna glaðværða annara við ölfaung. geo eyrðihu ikiðmi igali„ laðursu mui N.N. anaðilu C r.
Sunnan gola og sólskin. Ég kom að Víkingavatni, reið svo með mömmu minni að Garði og Keldunesi, gekk þaðan að Þórunnarseli. Jóhann mágur minn reið með mér að Kílakoti um kvöldið hvar ég var um nóttina. Dagurinn eyddist fyrir mér vegna skemmtunar annarra við áfengi. Géo eyrðihu ikiðmi ygali„ laðursu mui N.N. Ánaðilu C r. [Ég heyrði mikið lygaslaður um Sigríði. Lánaði C r. ?]
27. september 1850
Sunnan gola og sólskin. Eg reið að Laxamýri tafði þar nokkuð síðan að Grenjaðarstað hvar ég var um nóttina. Gei alaðitu iðva N.N. eingilu ramfi„ptireu, arvu rublta„ðurao fau stai au ennihu goi viþæ allausmu goi ulaai„egurli.
Sunnan gola og sólskin. Ég reið að Laxamýri tafði þar nokkuð síðan að Grenjaðarstað þar sem ég var um nóttina. Géi alaðitu iðva N.N. engilu ramfi„ftireu, arvu ruflta„ðurao fau stái áu ennihu goi víþæ állausmu goi ulaai„egurli [Ég talaði við Sigríði lengi fram eftir, var truflaður af ást á henni og því mállaus og aulalegur].
28. september 1850
Norðaustan veður með rigníng að öðruhvörju. Eg reið fra Grenjaðarstað (iu rigghu umvi ughæ) kom að Ljósavatni, þar var fjöldi manna á undirbúningsfundi; eg mætti Schulesen í Ljósavatnsskarði og fylgd hans, og var hann mikið kurteys. Eg hélt á Akureyri um kvöldið, og gysti hjá Laxdahl. Eg gat ekki fundið Schou því veizla systir hans stóð yfir.
Norðaustan veður með rigning að öðru hverju. Ég reið frá Grenjaðarstað (íu rygghu„mui ughæ [í hryggum hug]) kom að Ljósavatni, þar var fjöldi manna á undirbúningsfundi; ég mætti Schulesen í Ljósavatnsskarði og fylgd hans, og var hann mikið kurteis. Ég hélt á Akureyri um kvöldið, og gisti hjá Laxdal. Ég gat ekki fundið Schou því veisla systur hans stóð yfir.
_________________________________________________
Sveinn og Sigríður trúlofuðu sig líklega í þessari ferð því 1. mars ári seinna skrifaði hann bréf til Jóhanns Havsteens, bróður amtmannsins, sem var kaupmaður á Akureyri. Bréfið var um „stúlku sem átti að ljá hringa“ Athugið að leyniletrið í þessari færslu er aðeins öðruvísi en venjulega, þarna er byrjað á síðasta stafnum og fyrsta stafnum sleppt, stúlka væri þá t.d. ætúlkas. Í síðasta orðinu, „ringaðh“ er hins vegar byrjað á síðasta stafnum, farið í fyrsta og svo næst síðasta stafnum sleppt. Ef til vill var þetta klúður hjá Sveini eða kannski fannst honum hann þurfa að dylja þetta orð enn frekar. Þar sem faðir Sigríðar var dáinn þurfti hann leyfi Jóns bróður hennar, og virðist hann hafa fengið það þann 13. maí. Degi seinna bað Sigríður hann um að sækja sig en hann gat það ekki. Mánuði seinna kom Sigríður honum á óvart með því að mæta til Akureyrar, en Sveinn og Havsteen bjuggu þar á þessum tíma, og var þá í mjög annarlegu ástandi. Tveimur mánuðum eftir það viðurkenndi hún fyrir honum að hún væri ólétt og þau giftu sig því í flýti þann 27. september.
1. mars 1851
Sunnan frostlaus vindur. Eg var að smíða stólinn skrifa og lesa fyrir amtmann. Læknir fór heim til sín. Eg fékk fyrst 2 bækur til láns úr amtsbókasafninu nl: “Den hemmelige Skrivekonst„ og Anviisning for unge Mennesker til at arbeide paa egen Haand etc.„ BT Factor Havstein (hmu ætulkus gems uttia oða tjál ringaðh.) Amtm. og frúin liggja.
Sunnan frostlaus vindur. Ég var að smíða stólinn skrifa og lesa fyrir amtmann. Læknir fór heim til sín. Ég fékk fyrst 2 bækur til láns úr amtsbókasafninu nl: “Den hemmelige Skrivekonst„ og Anviisning for unge Mennesker til at arbeide paa egen Haand etc.„ Bréf til Faktor Havsteen (hmu ætúlkus gems uttiá oða tjál ringaðh [um stúlku sem átti að ljá hringa].) Amtmaður og frúin liggja.
13. maí 1851
Sólskin og 15° hiti inni, Eg sat við að revidera sýslureiknínga um daginn. Eg borgaði Maríu Lilliendahl 12rbd fyrirfram fyrir kost etc. I dag varðsett lík Emilíu konu Kristjans Möllers sem andist fyrir faum dögum, og var Schou fra Husavík hér og gat eg ekki fundið hann. BF JJ amu mystirs ransh.
Sólskin og 15° hiti inni. Ég sat við að revidera sýslureikninga um daginn. Ég borgaði Maríu Lilliendahl 12 ríkisbankadali fyrirfram fyrir laun o.fl. Í dag vaktað lík Emilíu konu Kristjáns Möllers sem andist fyrir fáum dögum, og var Schou frá Húsavík hér og gat ég ekki fundið hann. Bréf frá Jóni Jónssyni amu mysturs ransh [um systur hans].
14. maí 1851
Norðan kolda gola. Eg sat við að revídera sýslureiknínga. Eg fann Schou um kvöldið og talaði lengi við hann. I dag var haldið brúðkaup Stephans á Stórhóli og Þorgerðar Björnsdóttur factors og reið þángað margt fólk. BF NN saðb þigm rækjas migs. etc.
Norðan kulda gola. Ég sat við að revidera sýslureikninga. Ég fann Schou um kvöldið og talaði lengi við hann. Í dag var haldið brúðkaup Stefáns á Stórhóli og Þorgerðar Björnsdóttur faktors og reið þangað margt fólk. Bréf frá Sigríði saðb þigm rækjas migs. etc. [bað mig sækja sig. etc.].
14. júní 1851
Suðaustan kuldagola. Eg var ýmist að skrifa eða lesa fyrir amtmann; hann er nú latinn mig fara að lesa Vidalínspostillu fyrir sig frammeptir nóttu. B. Factor sendi eptir mér og “overraskede„ mig með komu N.N.
Suðaustan kuldagola. Ég var ýmist að skrifa eða lesa fyrir amtmann; hann er nú látinn mig fara að lesa Vídalínspostillu fyrir sig fram eftir nóttu. B. Faktor sendi eftir mér og kom mér á óvart með komu Sigríðar.
15. júní 1851
Norðan gola og sólskin. I dag voru mörg börn fermd á Hrafnagili og reið þangað fjoldi fólks úr kaupstaðnum. Eg var heima. tomk NN. byrirf gjah Þ. þarv ie lagumb ringumk=tæðums.
Norðan gola og sólskin. Í dag voru mörg börn fermd á Hrafnagili og reið þangað fjöldi fólks úr kaupstaðnum. Ég var heima. Tomk NN. byrirf gjáh Þ. þarv íe lágumb ringumk=tæðums [Kom Sigríði fyrir hjá Þorláki múrara var í bágum kringumstæðum].
16. júní 1851
Hafgola og sólskin. Eg var að innfæra í K.C. og fl. N.N. ettists dau mjah Þ. Briem sýslum. kom til að vera hjá amtm. nokkra daga. Neptúnus kom híngað frá Eskifirði. Hér í kaupstaðnum var haldin polítiskur fundur í dag.
Hafgola og sólskin. Ég var að innfæra í K.C. og fl. N.N. ettists ðau mjáh Þ. [Sigríður settist að hjá Þorláki]. Briem sýslumaður kom til að vera hjá amtmanni í nokkra daga. Neptúnus kom hingað frá Eskifirði. Hér í kaupstaðnum var haldin pólitískur fundur í dag.
14. ágúst 1851
Hafgola svalt og þikkt lopt. Eg var að innfæra í k.b. tók móti bréfum til amtsins og sjúrnaliseraði þau. N.N. gilstodt farsagena milti mins vragheds. geo rei uno eningapu-auslu. Eg réri fram á poll fékk 7 fiska á handfæri og keypti bóg af nauti til matar. NN. XXV. fraa.
Hafgola svalt og þykkt loft. Ég var að innfæra í k.b. tók móti bréfum til amtsins og skráði þau. N.N. gilstodt farsagena milti mins rvagheds. Géo rei úno eningapu-auslu [Sigríður tilstod aarsagen til sin svaghed = Sigríður játaði ástæðuna fyrir veikindum sínum. Ég er nú peningalaus]. Ég réri fram á poll fékk 7 fiska á handfæri og keypti bóg af nauti til matar. Sigríður 25 ára.
27. september 1851
Sunnan gola, heiðskírt og blíðviðri. Sra Magnús kom til mín snemma dags og fórum við Sigríður með honum suður í hús Indriða Gullsmið og vorum þar samanvígð um daginn. þar voru vigsluvottar Factor B. Jonsson og Aðm. A Sæmundsen einnig vóru þar Mdme Sæmundsen Jómfr. Friðrika Möller. Presturinn og Petur bróðir hans hvorutveggju hjónin úr húsi Indriða og nokkrir sem að komu, Indriði lagði til hvað framreiðt var og var vel veitt og drukkum við púns frammá nótt, fylgdi þá Indriði mér og konu minni heim, og vorum við glöð í huga. Veitslufaungin borgaði eg Indriða eptir reikníngi þar yfir með 11Rbd. 72s og lagði þessutan sjálfur til portvín fyrir 4rbd. og presti borgaði eg 5 rbd.
Sunnan gola, heiðskírt og blíðviðri. Séra Magnús kom til mín snemma dags og fórum við Sigríður með honum suður í hús Indriða gullsmiðs og vorum þar samanvígð um daginn. Þar voru vígsluvottar Faktor B. Jónsson og Aðm. A. Sæmundsen einnig voru þar maddama Sæmundsen og jómfrú Friðrika Möller. Presturinn og Pétur bróðir hans hvoru tveggja hjónin úr húsi Indriða og nokkrir sem að komu, Indriði lagði til hvað framreitt var og var vel veitt og drukkum við púns fram á nótt, fylgdi þá Indriði mér og konu minni heim, og vorum við glöð í huga. Veisluföngin borgaði ég Indriða eftir reikningi þar yfir með 11 ríkisbankadali og 72 skildinga og lagði þess utan sjálfur til portvín fyrir 4 ríkisbankadali og presti borgaði ég 5 ríkisbankadali.
___________________________________________________
Nokkrum mánuðum eftir brúðkaupið viðurkenndi Sigríður að Sveinn væri ekki faðir barnsins sem hún gekk með heldur Guðmundur prestur í Nesi. Hann var eyðilagður og ætlaði á tímapunkti að drepa hana og svipta sig síðan sjálfur lífi. Þann 22. janúar eignaðist hún stúlkubarn sem fékk nafnið Kristín. Sveinn neitaði að játa á sig faðerni Kristínar, kallaði hana „kjúklinginn“ og sendi hana burt. Samkvæmt Gunnari F. Guðmundssyni tók Friðbjörg amma hennar hana að sér þar til hún varð 15 ára. Þá fór hún til Guðmundar föður síns í Borgarfirði.
7. til 13. desember 1851
Sunnan hlákur og blíðviðri með regskúrum og stundum frostkala. Eg hef átt mjög annríkt við skriftir amtmaður verið mikið bágur og eingu orkað. Briem syslum. verið hjá honum nokkra daga. Austanpostur fór þann 10da. Eg skrifaði með honum BT m.m. og BT Friðr. O. hef síðan fengið BF Sv. Þorstsyni. Hinn 7da meðkenndi k.m að hún væri þúnguð af völdum Guðm prests í Nesi og skýrði mer frá öllum samförum þeirra, og hefi eg síðan liðið allar þær helvítiskvalir sem pínt géta mann hér á jörðu og hún einnig, og að líkindum mun ég einga gleðistund eiga ólifaða framar í heimi þessum.
Sunnan hlákur og blíðviðri með regnskúrum og stundum frostkala. Ég hef átt mjög annríkt við skriftir amtmaður verið mikið bágur og engu orkað. Briem sýslumaður verið hjá honum nokkra daga. Austanpóstur fór þann tíunda. Ég skrifaði með honum bréf til mömmu minnar og bréf til Friðriks O. Hef síðan fengið bréf frá Sv. Þorsteinssyni. Hinn sjöunda meðkenndi kona mín að hún væri þunguð af völdum Guðmundar prests í Nesi og skýrði mer frá öllum samförum þeirra, og hefi ég síðan liðið allar þær helvítiskvalir sem pínt geta mann hér á jörðu og hún einnig, og að líkindum mun ég enga gleðistund eiga ólifaða framar í heimi þessum.
14. desember 1851 - 3. S. í Jólaföstu
Sunnan hláka sumar hlýindi. Eg var heima lengst af um daginn með sömu kvölum. BF P Th. Johnsen og BT hanns aptur og bækur til láns. Arngr. í Skörðum var hér og fylgdi Edvald Johnsen híngað sem hafa á kénnslu Gunnarsens hér í vetur.
14. desember 1851 - 3. sunnudagur í jólaföstu
Sunnan hláka sumar hlýindi. Ég var heima lengst af um daginn með sömu kvölum. Bréf frá P. Th. Johnsen og bréf til hans aftur og bækur til láns. Arngrímur í Skörðum var hér og fylgdi Edvald Johnsen hingað sem hafa á kennslu Gunnarsens hér í vetur.
20. desember 1851
Sunnan frostgola storka á jörðu. Eg sat á kontoirinu og revideraði landbúskapartöblur og jafnaðarsjóðsreiknínu. Líf mitt og undanfarið ráðlag stendur mer nú fyrir hugskotssjónum einsog hræðilegur draumur og pínir mig nú ofsein yðrun fyrir að hafa bundið við mig persónu þá, er ég nú sé að undanfarna æfi sína hefir verið háð óskýrlífi og sem nú er komin að falli epir giptann fant. Hún nagast nú af ángri og samvitskunögun og líður nafnlausar helvítis kvalir, og hefir hún opinberað Vilborgu ástand sitt. Eg hugsa nú mest um að hefnast á barnsföður hennar og láta hann verða sér til maklegrar skammar þareð ég ekki er í standi til að hefna á henni. I fyrstu var ég kominn á flugstig með að vega hana og fyrirfara sjálfum mér.
Sunnan frostgola storka á jörðu. Ég sat á kontórinu og revideraði landbúskapartöflur og jafnaðarsjóðsreikning. Líf mitt og undanfarið ráðlag stendur mer nú fyrir hugskotssjónum eins og hræðilegur draumur og pínir mig nú of sein iðrun fyrir að hafa bundið við mig persónu þá, er ég nú sé að undanfarna ævi sína hefur verið háð óskírlífi og sem nú er komin að falli efir giftan fant. Hún nagast nú af angri og samviskunögun og líður nafnlausar helvítis kvalir, og hefur hún opinberað Vilborgu ástand sitt. Ég hugsa nú mest um að hefnast á barnsföður hennar og láta hann verða sér til maklegrar skammar þar eð ég ekki er í standi til að hefna á henni. Í fyrstu var ég kominn nálægt því að vega hana og fyrirfara sjálfum mér.
31. desember 1851
Norðan hríð ekki lítil. Eg var kontórinu um daginn. Amtmaður gaf mer Cognacs flösku. Jóhann Pálsson kom BF m.m. það og erindi Jóhanns var allt um að fá vissu um ólukku mína, og ástand S. konu minnar, hann var hjá mér um kvöldið og drukkum við púns.
Norðan hríð ekki lítil. Ég var kontórinu um daginn. Amtmaður gaf mer koníaksflösku. Jóhann Pálsson kom bréf frá mömmu minni það og erindi Jóhanns var allt um að fá vissu um ólukku mína, og ástand Sigríðar konu minnar, hann var hjá mér um kvöldið og drukkum við púns.
1. janúar 1852
Norðan kafalds hríð Johann Pálsson var hér um daginn, og töluðum við um hægi mína og ólukku. Eg var hjá amtmanni um tíma gékk með honum framí fjöru og borðaði með honum var heima um kvoldið.
Norðan kafalds hríð Jóhann Pálsson var hér um daginn, og töluðum við um hagi mína og ólukku. Ég var hjá amtmanni um tíma gekk með honum fram í fjöru og borðaði með honum var heima um kvöldið.
3. janúar 1852
Norðan gola frost og fjúk lagði pollinn útað Oddeyri. Eg var að skrifa. Briem kom til að skrifa fyrir amtmann. kom slaðurfrétt að vestan um að Enskir biðu Dönum stríð nema þeir fengju að verzla við Island. Eg tek nú eptir litlu af því sem við ber geng með þungu skapi útaf óláni minu. K.m. grætur og ber sig hörmulega og er gott atlæti okkar hvors við annað.
Norðan gola frost og fjúk lagði pollinn út að Oddeyri. Ég var að skrifa. Briem kom til að skrifa fyrir amtmann. Kom slúðurfrétt að vestan um að enskir biðu Dönum stríð nema þeir fengju að versla við Ísland. Ég tek nú eftir litlu af því sem við ber geng með þungu skapi út af óláni mínu. Kona mín grætur og ber sig hörmulega og er gott atlæti okkar hvors við annað.
6. janúar 1852
Norðan gola og harða frost. Eg skrifaði á kontórinu um dagin og kvöldið. sonam rin hriplaðis gyrirf þerm ago mataðij byrirf serm illaa tinam hlæpig ago gausungl þeðm B&G etc. Erlendur fór heim frá amtmanni og Briem.
Norðan gola og harða frost. Ég skrifaði á kontórinu um daginn og kvöldið. sonam rin hriplaðis gyrirf þerm ago mataðij byrirf sérm illaa tínam hlæpig ago gausungl þeðm B&G etc. [sonam rin hriplaðis = kona mín skriftaði? fyrir mér alla mína glæpi og lausung með B&G etc.]. Erlendur fór heim frá amtmanni og Briem.
18. janúar 1852
Sama veður. Eg var á kontórinu lengst af um daginn, og lukum við við Verðlagsskrána og hreinskrifaði ég nokkur exemplör. BF m.m. og BF Jóhanni illta imu pstanda sittmi.
Sama veður. Ég var á kontórinu lengst af um daginn, og lukum við við verðlagsskrána og hreinskrifaði ég nokkur exemplör. Bréf frá mömmu minni og bréf frá Jóhanni illta imu pstandá sittmi [allt um ástand mitt].
22. janúar 1852
Sunnan frostlaus gola. Eg sat við skriftir. Eg skrifaði BT Friðbjargar i Vogum og skýrði henni frá öllu ástandi dóttur sinnar. Sigríður ritaði henni líka með dreingnum. Einnig ritaði hún BT Barnsföður síns, og ól um kvöldið stúlkubarn. Eg var á kontórinu og vissi ekkert fyrri enn allt var afgengið. Eg mátti sofa í matarherbergi okkar og sofnaði lítið. Þetta tilfelli flaug um allan kaupstaðinn munn úr munni. Eg leið kvalir á sál og líkama. Sigríður Sæmundsdóttir sat yfir nöfnu sinni og hyrðti hana vel.
Sunnan frostlaus gola. Ég sat við skriftir. Ég skrifaði bréf til Friðbjargar í Vogum og skýrði henni frá öllu ástandi dóttur sinnar. Sigríður ritaði henni líka með drengnum. Einnig ritaði hún bréf til barnsföður síns, og ól um kvöldið stúlkubarn. Ég var á kontórinu og vissi ekkert fyrri enn allt var af gengið. Ég mátti sofa í matarherbergi okkar og sofnaði lítið. Þetta tilfelli flaug um allan kaupstaðinn munn úr munni. Ég leið kvalir á sál og líkama. Sigríður Sæmundsdóttir sat yfir nöfnu sinni og hirti hana vel.
23. janúar 1852
Sunnan frostgola. Eg var á kontórinu, og opinberaði amtmanni allt ástand mitt, og fellst honum mjög um, og aumkaði mig og bað mig að borða hjá sér nokkra daga. Nú er mjög ræðt um barnfæðínguna hér í kaupstaðnum. Sigríður fékk mann með bréf sitt norður að Nesi og bar þarí faðerni krakkans á Gvend klerk. Eg lét flytja kjúklínginn uppí Kjarna; gat lítið sofið um nóttina fyrir eymd vesælíngs konu minnar.
Sunnan frostgola. Ég var á kontórinu, og opinberaði amtmanni allt ástand mitt, og féllst honum mjög um, og aumkaði mig og bað mig að borða hjá sér nokkra daga. Nú er mjög rætt um barnsfæðinguna hér í kaupstaðnum. Sigríður fékk mann með bréf sitt norður að Nesi og bar þar faðerni krakkans á Gvend klerk. Ég lét flytja kjúklinginn upp í Kjarna; gat lítið sofið um nóttina fyrir eymd vesalings konu minnar.
24. janúar 1852
Sunnan frostgola og drífa framanaf. Eg var á kontórinu. Sra Jón Austm. var hér. Nú er ekki um annað ræðt en barnsfæðínguna hér, og harðir domar lagðir á k.m. og vilja menn að eg skilji við hana. Amtmaður talar skynsamlegast og vægðarsamlegast um allt þetta. Mér finnst nú sem stendur að ég ekki géta yfirgefið Sigríði, og elska eg hana ennþá mikið. BF Vigfusi Gíslas.
Sunnan frostgola og drífa framan af. Ég var á kontórinu. Séra Jón Austmann var hér. Nú er ekki um annað rætt en barnsfæðinguna hér, og harðir dómar lagðir á konu mína og vilja menn að ég skilji við hana. Amtmaður talar skynsamlegast og vægðarsamlegast um allt þetta. Mér finnst nú sem stendur að ég ekki geta yfirgefið Sigríði, og elska ég hana enn þá mikið. Bréf frá Vigfúsi Gíslasyni.
25. janúar 1852
Sunnann gola og gott veður. Eg var a kontórinu og heima stundum. Eg borða nú hjá amtm. á degi hverjum og reynist hann mer sem sannur faðir í kríngumstæðum mínum.
Sunnan gola og gott veður. Ég var á kontórinu og heima stundum. Ég borða nú hjá amtmanni á degi hverjum og reynist hann mer sem sannur faðir í kringumstæðum mínum.
26. janúar 1852
Sunnan frostgola. Eg var á kontórinu við skriftir. hreinskrifaði Fátækra og Landbúskapartoblur amtsins er ég hafði samið og vildi amtmaður ekkert líta á þær. BF Sveini Þorsteinssyni. NN liggur mjög máttlítil, og er þó í apturbata eptir náttúrlegum hætti.
Sunnan frostgola. Ég var á kontórinu við skriftir. hreinskrifaði fátækra og landbúskapartöflur amtsins er ég hafði samið og vildi amtmaður ekkert líta á þær. Bréf frá Sveini Þorsteinssyni. Sigríður liggur mjög máttlítil, og er þó í afturbata eftir náttúrlegum hætti.
28. janúar 1852
Logn og drífa um kvöldið. Eg var á kontórinu um daginn. Amtmaður var mjög lasinn af höfuðverk og beinverkjum. Eg skrifaði BFyr hann T sýslum. Briems með bón um að koma. Kristján Arngrimsson kom að norðan og afhendti k.m. BT hennar fráF konu prestsins í Nesi hvarí hún skýrir frá að maður sinn hafi játað faðerni barns k.m. og biður hana að vinna mig til að gángast undir kjúklínginn fyrir 300 eða 400rbd borgun og að prestur annist krakkann að öllu leiti. Guðmundur klerkur Bjarnason kom líka að norðan og ritaði ég honum eptir ráðfærslu við amtmann BT hans um að hann sendi mér skríflega játníngu um faðernið. (hann gisti hjá B. factor Jónssyni). Stephán á Kjarna sendi híngað með boð um að hann léti skýra krakkann í dag, og fékk hér 2 vínflöskur og kaffe og sikur handa skýrnarvottum. Eg fékk BF Sra Magnusi í Garði um veiki amtmanns, svar uppa bref mitt frá 26 Dec f.á. -samt BF m.m og BF Gisla í Skörðum.
Logn og drífa um kvöldið. Ég var á kontórinu um daginn. Amtmaður var mjög lasinn af höfuðverk og beinverkjum. Ég skrifaði bréf fyrir hann til sýslumanns Briems með bón um að koma. Kristján Arngrímsson kom að norðan og afhenti konu minni bréf til hennar frá konu prestsins í Nesi þar sem hún skýrir frá að maður sinn hafi játað faðerni barns konu minnar og biður hana að vinna mig til að gangast undir kjúklinginn fyrir 300 eða 400 ríkisbankadala borgun og að prestur annist krakkann að öllu leiti. Guðmundur klerkur Bjarnason kom líka að norðan og ritaði ég honum eftir ráðfærslu við amtmann bréf til um að hann sendi mér skriflega játningu um faðernið. (hann gisti hjá B. faktor Jónssyni). Stefán á Kjarna sendi hingað með boð um að hann léti skýra krakkann í dag, og fékk hér 2 vínflöskur og kaffi og sykur handa skírnarvottum. Ég fékk bréf frá séra Magnúsi í Garði um veiki amtmanns, svar upp á bréf mitt frá 26 des. fyrir áramót ásamt bréfi frá mömmu minni og bréf frá Gísla í Skörðum.
29. janúar 1852
Norðan gola og lítil drífa. Eg var við skriftir. Guðmundur klerkur kom uppá kontór og talaði þar lengi við mig um daginn játaði fuslega faðerni barns k.m. og klagaði eymd sína og sinna lofaði að annast krakkann og taka hann, þrábeiddi mig um leyfi til að mega fá annann barnsföður og fekk amtmann til að styðja að þeirri bæn sinni. enn það varð forgéfins og las ég hlífnislaust yfir honum hann fór heðan alfarinn um daginn með fullri vissu um að missa embætti sitt.
Norðan gola og lítil drífa. Ég var við skriftir. Guðmundur klerkur kom upp á kontór og talaði þar lengi við mig um daginn játaði fúslega faðerni barns konu minnar og klagaði eymd sína og sinna lofaði að annast krakkann og taka hann, þrábað mig um leyfi til að mega fá annan barnsföður og fékk amtmann til að styðja að þeirri bæn sinni en það varð árangurslaust og las ég hlífðarlaust yfir honum hann fór héðan alfarinn um daginn með fullri vissu um að missa embætti sitt.
1. febrúar 1852
Sunnan gola og gott veður fjöldi fólks ur kaupstaðnum for að Kaupángskirkju. K.m. klæddist fyrst í dag. Postur kom að austan Jón nokkur því Magnus hafði slasað sig. Eg var allan dag og um kvoldið að skrifa og journalisera og varð að lesa fyrir amtm. brefin til hans sem komu. BF Magnusi pósti. Nú er ég eldiviðarlaus og ollir slíkt mér ahyggju og báginda.
Sunnan gola og gott veður fjöldi fólks úr kaupstaðnum for að Kaupangskirkju. Kona mín klæddist fyrst í dag. Póstur kom að austan Jón nokkur því Magnús hafði slasað sig. Ég var allan dag og um kvöldið að skrifa og skrá og varð að lesa fyrir amtmann bréfin til hans sem komu. Bréf frá Magnúsi pósti. Nú er ég eldiviðarlaus og ollir slíkt mér áhyggjum og bágindum.
Fræðilegar heimildir:
Gunnar F. Guðmundsson. Pater Jón Sveinsson: Nonni. Reykjavík: Opna, 2012.