Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Aldís og Brynjar kosin íþróttafólk ársins

Aldís Kara Bergsdóttir og Brynjar Ingi Bjarnason - íþróttafólk Akureyrar 2021. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason úr KA er íþróttakarl Akureyrar 2021 og skautakonan Aldís Kara Bergsdóttir úr SA er íþróttakona Akureyrar 2021.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, handboltakona úr KA/Þór, og Jóhann Gunnar Finnsson, fimleikamaður úr FIMAK, urðu í öðru sæti í kjörinu og í þriðja sæti þau Arna Sif Ásgrímsdóttir, knattspyrnukona úr Þór/KA og Baldvin Þór Magnússon, frjálsíþróttamaður úr UFA.

Þetta er þriðja árið í röð sem Aldís Kara er kjörin íþróttakona Akureyrar en Brynjari Inga hlotnast nafnbótin í fyrsta skipti.

Kjörinu var lýst í verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar í menningarhúsinu Hofi í dag. 12 aðildarfélög ÍBA tilnefndu alls 32 íþróttamenn úr sínum röðum, 15 íþróttakonur og 17 íþróttakarla. Úr þeim tilnefningum var svo kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs Akureyrar hafði stillt upp.

Í tilkynningu frá ÍBA segir um íþróttafólk ársins:

„Aldís Kara, sem var valin skautakona ársins 2021 hjá Skautasambandi Íslands og íþróttakona Skautafélags Akureyrar, setti Íslandsmet í janúar 2021 þegar hún hlaut 123.44 stig á RIG21. Í haust keppti Aldís á tveimur ISU Challenger Series mótum. Með góðum árangri á þessum mótum vann Aldís Kara sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramóti í listskautum, fyrst íslenskra skautara. Á Evrópumeistaramótinu, sem fór fram í Eistlandi í janúar 2022 hafnaði Aldís Kara í 34. sæti. Aldís Kara lauk árinu 2021 með því að slá eigið Íslandsmet á Íslandsmeistaramótinu sem haldið var í nóvember. Þar hlaut hún 136.14 stig sem er jafnframt hæstu stig sem gefin hafa verið í Senior flokki [fullorðinsflokki] á Íslandi.

Brynjar Ingi er íþróttakarl Akureyrar í fyrsta skipti. Brynjar Ingi er uppalinn knattspyrnumaður úr KA og var valinn, annað árið í röð, íþróttakarl KA í byrjun árs. Brynjar Ingi spilaði 11 leiki fyrir KA sem hafnaði í 4. sæti í efstu deild karla 2021. Frammistaða Brynjars Inga vakti mikla athygli og í júlí var Brynjar Ingi keyptur til Lecce í ítölsku B-deildinni. Með framgöngu sinni vann Brynjar Ingi sér inn fast sæti í A-landsliði karla á árinu, þar sem hann spilaði 10 A-landsleiki [ ... ] og skoraði tvö mörk. Í lok árs 2021 færði Brynjar Ingi sig um set, frá Ítalíu til norska úrvalsdeildarliðsins Vålerenga.“

  • Við athöfnina í dag veitti frístundaráð Akureyrarbæjar viðurkenningar til 10 aðildarfélaga ÍBA vegna 310 Íslandsmeistara á síðasta ári.
  • Afrekssjóður veitti 10 ungum íþróttamönnum styrki og fimm efstu í kjöri íþróttakarls og íþróttakonu Akureyrar hlutu einnig fjárstyrk; samtals hlutu 20 manns því afreksstyrki, alls rúmlega fimm milljónir króna.

Hvaða íþróttafólk skaraði fram úr í fyrra?

Á sviðinu í Hofi í dag; Aldís Kara Bergsdóttir og foreldrar Brynjars Inga Bjarnasonar, Bjarni Áskelsson og Anna Rósa Magnúsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.