Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Veður skaplegra en gert var ráð fyrir

Horn Strandgötu og Kaldbaksgötu um ellefuleytið í kvöld. Þar var allt á kafi í vatni fyrir tveimur árum en sannarlega með felldu í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Veður var mun skaplegra á Akureyri í dag en óttast var miðað við spár. Töluvert snjóaði um tíma og hvasst var en ekki er hægt að tala um vonskuveður. Færð er góð í bænum en víða hált og einn harður árekstur varð síðdegis, á mótum Glerárgötu og Strandgötu.

Sjávarstaða var hæst á milli klukkan 22 og 23 í kvöld og jafnvel var gert ráð fyrir hvassviðri þá. Í ljósi reynslunnar frá því fyrir tveimur árum, þegar sjór gekk á land og olli miklu tjóni, voru húseigendur búnir undir það versta en þegar til kom bærðist sem betur fer varla hár á höfði engin skakkaföll urðu nokkurs staðar.

Appelsínugul viðvörun Veðurstofu Íslands er áfram í gildi í landshlutanum – til klukkan 4 í nótt:  Norðvestan hvassviðri eða stormur, 18-23 metrar á sekúndu með snjókomu og lélegu skyggni.

Klukkan 4 í nótt tekur við gul viðvörun sem gildir til kl. 9 í fyrramálið: Norðvestan 13-20 metrar á sekúndu og snjókoma með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Á mótum Strandgötu og Glerárgötu síðdegis eftir að tveir bílar rákust saman.

Veitingastaðurinn Vitinn neðst við Strandgötu um ellefuleytið í kvöld. Þarna var allt á kafi fyrir tveimur árum þegar sjór gekk á land.