Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Aldargömul tré eyðilögðust í rokinu

Guðrún Kristín Björgvinsdóttir, umsjónarmaður Lystigarðsins á Akureyri, við gráreyninn syðst í garðinum. Tréð eyðilagðist í hvassviðrinu síðastliðna nótt. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Nokkur merkileg tré í Lystigarðinum á Akureyri eyðilögðust í suðvestan hávaðarokinu síðastliðna nótt, þar af að minnsta kosti tvö um 100 ára gömul. Aldargamall reyniviður rifnaði upp með rótum og annar brotnaði.

„Skemmdirnar verða ekki metnar til fjár en þetta er mikið tilfinningalegt tjón,“ sagði Guðrún Kristín Björgvinsdóttir, umsjónarmaður Lystigarðsins við Akureyri.net í dag.

Guðrún Kristín nefnir sérstaklega gráreyni syðst í garðinum, neðan við Eyrarlandsstofu. Efsta myndin er af umræddum gráreyni. Sú tegund vex hægar en venjulegur reyniviður og verður miklu eldri. Hún segist sjá mjög mikið eftir því tré, sem sé 90 til 100 ára.

Guðrún Kristín við stóran reynivið sem rifnaði upp með rótum nyrst í Lystigarðinum. Tréð, sem er á að giska 100 ára, jafnvel 110 ára, féll á annan, minni reynivið og skekkti og braut einnig birkitré. Hér að neðan eru fleiri myndir af þessu tré.

Hluti þessa gráreynis, við minnismerkið um konurnar sem gerðu garðinn, brotnaði í rokinu og mikil sprunga er í hlutanum sem vísar til vinstri. Hann þarf að fjarlægja því Guðrún Kristín óttast að annars falli hann á önnur tré og eyðileggi, og jafnvel á minnismerkið. Á því er að finna kunna lágmynd Tove Olafsson. Minnismerkið var afhjúpað 1942 og líklegt að tréð hafi verið gróðursett um svipað leyti.

Víðir sem brotnaði í rokinu. Þetta er við litla tjörn skammt neðan veitingahússins LYST.