Fara í efni
Umræðan

Ýtna skáldið

„Jæja, þá er það bókin,“ sagði snaggaralegi náunginn á tröppunum og vatt sér inn áður en ég fékk rönd við reist.

Vissulega kannaðist ég við manninn. Það heitir að vera málkunnugur en ekki þar með sagt að ég hefði í hyggju að bjóða honum inn. Hann bauð sér sjálfur og fór létt með það.

Skáld. Eitt af fáum hér í bæ. Annars var hann hálfgerður farfugl. Ég hafði víst tekið viðtal við hann og hjálpað honum eitthvað við að kynna síðustu ljóðabók hans. Og nú var hann bara mættur heim til mín, ári síðar eða tveimur.

„Þú færð að sjálfsögðu áritað eintak,“ sagði hann og arkaði inn í borðstofu, settist við borðið og dró upp penna. „Stefán… Þór, er það ekki? Annars er ég sko KA-maður.“

Ég kinkaði kolli, dofinn og forviða og fylgdist með skáldinu pára tileinkun á saurblað nýju ljóðabókarinnar, sem ég hafði hvorki pantað né óskað eftir á nokkurn hátt.

„Megi okkurgulir geislar sólarinnar umlykja þig,“ tautaði skáldið og rissaði sem ákafast og nefndi síðan upphæð sem var ekki langt frá því sem helgarinnkaup fjölskyldunnar í Nettó kostuðu.

„Ég á ekki svona mikið lausafé og…“ byrjaði ég en hann var fljótur að stoppa mig.

„Ég tek við ávísun,“ sagði hann og nikkaði í áttina að ávísanaheftinu mínu sem blasti við á borðstofuborðinu ásamt vasareikni og stílabók. Ég hafði einmitt verið að bisa við að reikna út hvernig fjölskyldan næði endum saman þessi mánaðamót.

Já, ávísanir. Það er nokkuð síðan þessir atburðir áttu sér stað.

Ég hafði ekki döngun í mér til að mótmæla og settist við borðsendann og fór að fylla út ávísun meðan skáldið hamaðist enn á saurblaðinu með rykkjum og skrykkjum. Það var ekki hægt að komast hjá því að greiða fyrir eintak sem búið var að árita.

„Aldeilis glimrandi,“ sagði skáldið þegar ljóðakver og ávísun skiptu um hendur og svo þefaði hann og rauk inn í eldhús.

Ég flýtti mér á eftir honum.

„Ég drekk ekki kaffi, áttu te?“ spurði hann og skar sér væna sneið af randalínu sem ég hafði tekið úr frysti til að eiga með sunnudagskaffinu.

Ósvífni. Það var hugtakið sem kom upp í huga mér en allt gerðist svo hratt að ég náði ekki að fylgja þeirri hugsun eftir að vísa honum á dyr.

„Bara Melroses,“ muldraði ég en það vafðist ekki fyrir óboðna gestinum að sötra þann þunna drykk og sporðrenna ríflega hálfri randalínunni.

Hann spretti svo aftur úr spori og var búinn að rannsaka íbúðina áður en ég náði að stynja einhverju upp.

„Þú ert með aukaherbergi, sé ég. Mig vantar einmitt gistingu.“

Ég náfölnaði og horfði á eftir skáldinu skjótast fram í forstofu og sækja bakpoka, sem ég hafði reiknað með að væri fullur af bókum en sennilega leyndust þar líka tannbursti og náttföt.

Ekki veit ég hvernig þetta hefði endað ef konan mín hefði ekki komið heim í þessu og bundið enda á ósköpin. Þegar hún sá skáldið með bakpokann, ávísun frá mér í höndunum, svo ég tali nú ekki um þegar hún uppgötvaði að randalínan var nánast búin, þá tók hún til sinna ráða.

Á innan við mínútu var skáldið, nokkuð skekið, komið út á tröppur og bakpokinn fór sömu leið. Konan hafði ætlað að hrifsa til sín ávísunina en skáldið hélt fast og slapp með beyglaðan bleðilinn.

„Það væri gott ef þú gætir geymt ávísunina fram yfir mánaðamót,“ kallaði ég mjóróma og blankur á eftir skáldinu sem hafði nú tekið stefnuna á næsta stigagang.

Mér skilst að mörg heimili hafi eignast nýja ljóðabók þessa helgi.

 

Atvik þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég tók við nýju bókinni minni úr prentun núna í ágúst 2021 og fékk kvíðakast yfir erfiðasta hlutanum í útgáfuferlinu; hvernig ég færi að því að selja upp í kostnað.

Ég er ekki nógu ýtinn til að taka upp aðferð skáldsins, að ganga hús úr húsi, bjóða sjálfum mér inn og byrja að árita eintak til að kaffæra mótbárur. Ég er heldur ekki eins tungulipur og einn félagi minn sem selur allan fjárann gegnum síma með leiftrandi kjaftavaðli í bland við svo mikla einlægni að maður getur ekki sagt nei.

Þá er af og frá að ég geti kallast áhrifavaldur eða samfélagsmiðlastjarna en slíkir einstaklingar geta víst selt hvað sem er í krafti fylgjendafjölda og vinsælda í slúðurdálkum.

Jæja, þá er það bara gamla lagið. Fara með nokkur eintök í Pennann og senda út tilkynningar: „Út er komin skáldsagan Þremillinn – Þrítugur 2/3 eftir Stefán Þór Sæmundsson. Þetta er skáldævisaga með greinilegum vísunum í glæpasögur, gamansögur og ástarsögur. Sagan er sjálfstætt framhald skáldsögunnar Þrítugur 1/3 og fylgir félögunum úr MA eftir, s.s. Halla, Lalla Lax, Gunnu stóru, Láka pönk, Grími og Bryndísi. Gunna hvarf í lok síðasta bindis og ítalskur hrotti lék lausum hala. Hvað gerist hér?“

Þessa bók má nálgast hjá höfundi á mjög hagstæðu verði. Allir eru velkomnir í síðdegiste og randalínu eða kaffi og kleinur og svo má alltaf senda skilaboð t.d. á netfangið stefansaem@outlook.com. Heimkeyrsla/heimsending í boði út um land allt. Megi friður og fögnuður ríkja og fárið burt víkja.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og rithöfundur.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00