Fara í efni
Umræðan

Yfirlýsing ættingja vegna útkomu bókarinnar Elspa – Saga konu

Í síðasta mánuði kom út bók, ævisaga móður okkar, systur og frænku, bók sem undirrituðum þykir mikilvægt að gera nokkrar athugasemdir við. Bókin er skrifuð í óþökk okkar og fyrir því liggja ýmsar ástæður en fyrst má koma fram að í gegnum ferlið allt hafa upplýsingar verið óljósar og þegar á hólminn er komið, jafnvel ósannar. Í fyrstu var fullyrt að aðeins væri um að ræða samantekt á helstu punktum í ævi sögupersónunnar, punkta sem byggðu á opinberum gögnum, sem hægt er að sannreyna og ekkert yrði birt opinberlega. Síðar var lofað að ekki yrði fjallað um fólk með nafni og ekkert kæmi fram sem ekki væri beinlínis saga viðkomandi. Það lék engin vafi á að skrifin voru umdeild og voru bæði höfundur og sögupersónan meðvitaðar um það.

Það er okkur mikilvægt að útskýra af hverju bókin er umdeild. Í fyrsta lagi þá er höfundur félagsráðgjafi og lýsir sjálf í bókinni hvernig hún, sem slík, er aðili að málum dætra E, mál sem falla undir barnavernd. Það hlýtur að verkja furðu að manneskja í slíkri stöðu segi opinberlega frá atvikinu þegar börn lenda í höndum félagsmálayfirvalda, frásögn sem er birt án leyfis þeirra sem þar er fjallað um. Til að taka af allan vafa þá gaf að minnsta kosti annað barnið, ekki samþykki fyrir að trúnaður væri brotinn. Að sama skapi upplýsti höfundur ekki sumar dætur E um væntanlega útgáfu né varaði við efnistökum sem eru viðkvæm og persónuleg. Frásögn höfundar í formála bókarinnar skilur eftir spurningar um brot á þagnarskyldu félagsráðgjafa og þá siðareglum þeirra, þau vekja furðu um verkferla barnaverndarmála og rétt barna til einkalífs og friðhelgi. Það er mikilvægt að fá skýr svör frá yfirvöldum sem koma að barnavernd og málefnum barna á landsvísu um hvort vinnubrögð sem þessi séu ásættanleg og ef svo er hvort þagnarskylda gagnvart börnunum hættir að gilda á einhverjum tímapunkti. Málið hefur alla burði til að vera fordæmisgefandi, hvað varðar þagnarskyldu félagsráðgjafa eða annarra sem að málefnum barna í viðkvæmri stöðu koma og í kjölfarið auðvelt að sjá hvernig það getur grafið undan heilindum barnaverndar í landinu. Spurningar sem Mennta- og barnamálaráðherra, Umboðsmaður barna, Akureyrarbær og velferðarsvið Akureyrarbæjar verða að svara.

Tvær aðrar dætur sögupersónunnar báðu staðfastlega um að vera ekki nafngreindar og alls ekki myndbirtar í bókinni. Hvorugt var virt og eru hið minnsta þrjár ljósmyndir af umræddum dætrum í bókinni, þar af ein af þeim á fullorðins aldri, það eitt og sér var óþarft. Í bókinni eru einnig settar fram skoðanir og ályktanir dregnar um fólk sem er þvert á það sem höfundur hefur ítrekað lýst yfir í viðtölum undanfarið, um að aðeins séu staðreyndir í bókinni. Fleira vekur furðu, svo sem skeytingarleysi höfundar gagnvart áhrifum skrifanna á börn sögupersónunnar. Sannarlega eru þau ekki börn lengur en áföll og ofbeldi í æsku hafa ævilöng áhrif og frásagnir í bókinni varpa skýru ljósi á þá staðreynd. Bókin hefur rifið upp sár og verið tilfinningalega erfið og hvoru tveggja var komið á framfæri við höfundur og sögupersónuna án þess að það skilaði sýnilegum árangri og viðbrögðin skilja viðkomandi eftir í algeru valdaleysi. Höfundur hringdi í ættingja á lokametrunum við skrifin og bað um stutta lýsingu á sögupersónunni. Ýmsir notuðu það tækifæri til að koma á framfæri sínu sjónarhorni að en afstaða höfundar var skýr, við höfum ekkert um það að segja að saga okkar er sögð, nöfn nefnd og myndir birtar.

Það er ljóst að samráð við ritun sögunnar við aðra en þá sem eru látnir, var af skornum skammti og virkar sagan einhliða. Þátttaka sögupersónunnar í atburðum ekki alltaf eftir því sem aðrir muna og margt í sögunni ókunnuglegt og framandi. Bókin fjallar um atvik og ævi forfeðra okkar sem löngu eru gengin en sárast er hvernig foreldar sögupersónu og móðursystir eru kynnt. Elí, Anna og Eyja, sögðu okkur öllum sögur af ævi sinni og forfeðra, bæði æsku og lífi. Sumt sem haft er eftir þeim í bókinni er á stundum langt í frá þeim sögum sem við geymum í minningum okkar auk þess sem sumt könnumst við alls ekki við. Því má segja að margt í bókinni er ekki hægt að fullyrða að sé ósatt einfaldlega vegna þess að þeir sem um ræðir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér en með sömu rökum má draga í efa sannleiksgildi þess sem ekki er hægt að sanna. Undirrituð skilja að ókunnugir hafa jafn lítinn grunn til að taka okkar orð trúanleg og þau sem standa í bókinni. Tvennt liggur helst til grundvallar því hvaða sannleiksgildi við leggjum á bókina, annars vegar traust og hins vegar trúverðugleiki. Takmarkað traust og efasemdir um trúverðugleika vinna ekki með væntingum um sannleiksgildi þeirra minninga sem dregnar eru fram og höfum það á hreinu að það er grundvallar munur á sannleika og staðreyndum annars vegar, og minningum og sögusögnum hins vegar.

Það hryggir okkur hve einhliða sagan er í lýsingum á fólkinu sem okkur er kært og fjölskyldulífinu sem við búum að enn í dag. Lífið á heimilinu, sem í bókinni er rakkað niður, var fjörugt, enda vorum við mörg. Það var oft glatt á hjalla, mikið spilað og sungið, sagðar sögur og mikið hlegið enda margir góðir sögumenn í fjölskyldunni og það var gestkvæmt enda rak Anna ein og sér litla félagsmálastofnun þar sem allir voru velkomnir, líka þeir sem ekki rákust vel í samfélaginu og alltaf var pláss fyrir einn enn við matborðið eða til að gista. Elí og Anna voru gjafmild og Eyja var auka mamma fyrir okkur öll og hún kunni að vera góð við börnin. Þremenningarnir okkar sköpuðu okkur margar og góðar minningar, mikið var hlegið og gantast og það hefur án efa ekki verið auðvelt líf með okkur öll. Við sjálfsagt sísvöng og án efa sískítug en aldrei var amast við skítnum né uppákomunum sem óhjákvæmilega hefur fylgt okkur. Við skildum alltaf vera sómasamleg til fara og kurteis, Anna sá um að ala okkur vel upp með samræðu og málsháttum og mikið var spjallað. Fullorðna fólkið drakk gjarnan kaffi, oft var spilað og mest var gaman þegar strákarnir eða yngri systurnar komu saman. Það var nefnilega líf og fjör og oft virkileg gaman í þessum stóra hópi sem almennt hélt vel saman og var náinn, fjölskyldutengsl sem þremenningarnir kenndu okkur að meta og virða. Það er veganestið sem við fengum frá þeim og það er myndin sem við viljum skilja eftir af þeim.

Anna Elísa Hreiðarsdóttir
Anna Geirþrúð Elísdóttir
Hallur Mar Elíson Olsen
Jonna Elísa Elísdóttir
Kathleen Hafdís Jensen
Kristján Birgir Guðjónsson
Linda Rós Ingimarsdóttir
Jóna Salmína Ingimarsdóttir
Sigríður Valgerður Jónsdóttir
Sigrún María Hallsdóttir Olsen
Sædís Inga Ingimarsdóttir
Sævar Örn Hallsson
Vilborg Salberg Elídóttir Olsen

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00