Fara í efni
Umræðan

Viljum við feluleik í kringum framkvæmdir á vegum hins opinbera?

OPIÐ BRÉF TIL STJÓRNAR NORÐURORKU

Sæl öll.

Hér tek ég aftur upp þráðinn í umræðu sem ég hóf fyrir nokkrum misserum. Þetta varðar dælu- og hreinsistöðina í Sandgerðisbótinni, framkvæmd í þágu samfélags og umhverfis sem Norðurorka, fyrirtæki í opinberri eigu stendur fyrir.

Ein af meginforsendum góðs lýðræðis er er hreinskilin og upplýst umræða um það sem gerist og mér finnst að öll þau sem taka að sér trúnaðarstörf í þágu samfélagsins verða að vera virkir þáttakendur í því. Leyndarhyggja býr til tortryggni og vantraust. Fáfræði veikir lýðræðið.

Framkvæmdin kostaði umtalsverða fjármuni og ég geri kröfu um upplýsta umræðu þegar um svona háar upphæðir er að ræða.

Ég legg áherslu á að mistök séu ekki til að fela þau, heldur verði þau best nýtt til að læra af þeim ekki síður en að læra af því sem tekst vel.

Það er líka mikilvægt að stilla refsigleðinni í hóf þegar kemur að einstökum persónum. Forsvarsfólk verkfræðifyrirtækjanna sem höfðu umsjón með framkvæmdinni eru fyrir mér þau sem eiga að standa fyrir svörum þegar fjallað er um þeirra þátt og stjórn og stjórnendur Norðurorku hljóta að vera þau sem stíga fram fyrir hönd síns fyrirtækis.

Hérna reyni ég að taka saman aðalatriðin í því sem ég var að reyna að fá opinbert um það sem tókst og tókst ekki í stöðinni í Sandgerðisbótinni.

Síðan spyr ég hvernig hönnuðir og stjórn horfast í augu við það sem þarf að gera betur.

Byrja á tilvitnun í aðalskipulagið, bls 34 í AÐALSKIPULAG AKUREYRAR 2018 - 2030 UMHVERFISSKÝRSLA, DAGSETNING 19.08.2017,:

„Nú er að hefjast bygging hreinsistöðvar í Sandgerðisbót. Þegar búið verður að taka stöðina í notkun verður skólp grófhreinsað þar sem grófa efnið verður eftir, því pakkað og það svo fært til urðunar. Vökvanum verður dælt út á 40 metra dýpi, 400 metra frá ströndinni, þar sem skólpið dreifist innan þynningarsvæðis. Fjarlægð er metin á grundvelli gerladreifingar og hreinsunar og reiknuð þynning frá útrás að strönd. Markmið með framkvæmdinni er að skólp eigi aldrei að komast að ströndinni eftir að framkvæmdum lýkur og því ætti að draga úr magni saurkólígerla í sjónum við Akureyri“

Eftir því sem ég best veit er grófsíunin í gangi og ég veit ekki til þess að umtalsverðar truflanir hafi orðið á þeirri hreinsun síðan dælingin hófst haustið sem stöðin var tekin í notkun, sbr frétt í rúv janúar 2020: Hreinsa nú 20 tonn af rusli frá sem áður fór í Pollinn - RÚV.is (ruv.is)

Í þessari frétt er einnig tæpt á því að ekki hafi tekist snurðulaust að koma skólpinu eins langt út frá landi og ætlunin var.

Það vildi svo til að ég var að vinna þarna sem iðnaðarmaður á byggingartíma við uppsetningu og frágang á loftræstingu. Þar fékk ég algerlega ónothæfa vinnuteikningu frá verkfræðistofu.

Loftræstistæðan sem var pöntuð samkvæmt forskrift frá hönnuði var númerum stærri en það sem var teiknað inní plássið sem því var ætlað. Ég varð í samráði við minn yfirmann að skipuleggja klefann uppá nýtt og bókstaflega troða loftræstbúnaðinum á sinn stað. Stofnlögnin í aðalsal byggingarinnar var teiknuð þar sem ekki var hægt að koma henni fyrir svo að í stað loftdreifingar um salinn er einungis eitt gegnumtak fyrir hvort um sig, útrás og loftun inn. Einnig sá ég undir lokin að sérstakt afsog sem tekur út lyktarmengun frá skolpi og grófsíunarbúnaði virðist ekki hafa verið tekið með í reikninginn í heildarhönnuninni fyrir loftskiptin í bygginguninni og það veldur því að t.d. varmanýtingarbúnaður er ekki að skila sinu.

Snemmsumars 2019 var ég að klæða lögn sem er í horni stjórnrýmisins og við hliðina á mér var tæknimaður að ræsa dælukerfið. Þar kom babb í bátinn, hólf sem tók við skólpinu eftir grófsíunina yfirfylltist svo ekki réðist neitt við neitt. Stöðin í heild var hæðarsett þannig að 400 m lögnin virkaði bara á háfjöru og um leið og féll að flæddi yfir skilrúm á milli hólfa. Ég veit ekki hvað var gert til að bjarga þessu en þetta tafði gangsetninguna um nokkra mánuði.

400 m útrásarlögnin var lögð út á 40 m dýpi en því miður fer ekki allt skolpið þá leið, það sést ef veður er stillt hvar sjófuglarnir hnappast á blettina yfir virka endann á útrásarlögnunum. Það fylgir sjávarföllum, á fjöru rennur út í 400 m lögnina en þegar fellur að breytist það og á flóðinu virðist skolpið renna út um eldri lögnina sem endar mun nær landi.

Þetta er ekki samkvæmt ákvæðum aðalskipulagsins.

Fyrstu spurningarnar sem ég sá fyrir mér eru í byrjun eru aðeins tvær en útfrá þeim koma fleiri:

  • Var magnið vanáætlað, og er stöðin í réttri hæð miðað við raunverulegt sjávarmál?
  • Í tilvitnaðri frétt kemur fram að það kemur meira að stöðinni en búist var við. Þá spyr ég tengt þessu:
  • Vissu menn virkilega ekki betur en þetta? Voru rennslismælingar á skolpinu sem stöðin var hönnuð útfrá ekki betri en þetta?
  • Var borgað fullt verð fyrir mælingarnar á magninu og var verið að „spara“ með því að mæla minna en þurfti?
  • Í sömu frétt kemur fram um búnaðinn að „svona þegar maður kíkir í baksýnisspegilinn þá hefði hann gjarnan mátt vera aðeins hærri.“
  • Hvaða forsendur voru notaðar til að ákvarða hæð stöðvarinnar? Voru til mælingar á raunverulegri sjávarstöðu í Sandgerðisbótinni?
  • Mundu menn eftir massamuninum á söltum sjó og ferskvatninu í skolpinu?
  • Reyndi verkfræðistofan eitthvað til að sannreyna hvort hnitin í hæðarviðmiðun bæjarins stæðust nánari skoðun áður en var byrjað á nokkurra hundruða miljóna framkvæmd?

Síðan þegar vandræðin komu í ljós:

  • Hvert er hlutfall þess tíma sem skolpið er sent út um styttri útrásina? Hvernig breytist það hlutfall þegar álagið eykst vegna úrkomu og/eða leysinga?
  • Hvað kostar að hækka búnaðinn þannig að 400 m útrásin notist amk. 90% tímans?
  • Hafa verkfræðistofurnar gengist við sinni ábyrgð á mistökum í hönnun og ef svo er, með hvaða hætti? (Endurgreiðslum á hönnunarkostnaði og/eða unnið að betri útfærslum eða annað. Ekki gleyma þessu með loftræstinguna og annan vandræðagang hjá rafvirkjum og pípurum.)
  • Hvenær sjá menn fyrir sér að það verði til tímasett áætlun um að gera það sem þarf til að ákvæðin í aðalskipulaginu nái fram að ganga?

Eitt enn að lokum: Hvenær verður farið í að ganga frá girðingum sjávarmegin á lóðinni samkvæmt gildandi deiliskipulagi?

Virðingarfyllst, 

Ólafur Kjartansson er vélvirkjameistari og virkur í starfi VG á Akureyri

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00