Fara í efni
Umræðan

Við erum öll íslenskukennarar

Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember, er mikilvægur dagur sem við tengjum öll við, en gleymum íslenskunni ekki aðra daga.

Á tímum hraðra tækni- og samfélagsbreytinga mæta íslenskunni töluverðar áskoranir. Eins og svo oft felast í þeim sömu áskorunum stórkostleg tækifæri sem við verðum að halda óhikað áfram að grípa.

Tæknin getur stórbætt aðgengi að íslenskunni fyrir þá sem eignast íslenskuna að öðru tungumáli. Einnig getur hún auðveldað okkur öllum, sem eigum íslenskuna að móðurmáli, notkun hennar. Virkum notendum tungumálsins fjölgar með íslenskunámi innflytjenda og eftir því sem fleiri íbúar jarðarinnar læra og tileinka sér málið aukast líkurnar á að íslenskan lifi og þróist áfram.

Máltækni

Nýjar leiðir til miðlunar og ör þróun máltækni breyta daglegu lífi okkar allra. Í dag finnst okkur flestum sjálfsagt að nota þýðingavélar, sjálfvirkan textayfirlestur, opnar orðabækur og orðasöfn, svo ekki sé talað um raf- og hljóðbækur. Við höfum þegar sett okkur það mikilvæga markmið að íslenska verði jafnoki annarra tungumála í stafrænni tækni. Einn liður í að hrinda því markmiði í framkvæmd er stofnun Almannaróms, sem er miðstöð máltækni og ber ábyrgð á framkvæmd máltækniáætlunar samkvæmt samningi við stjórnvöld frá árinu 2018.

Ég hvet alla til að kynna sér vefsíðurnar Vélþýðing.is og Yfirlestur.is. Síðurnar eru lausnir sem unnar hafa verið upp úr opnum gögnum, sem fjármögnuð voru af máltækniáætlun og allir geta nýtt sér. Málið.is er svo vefgátt fyrir íslensku, sem ætlað er að auðvelda og einfalda rafræna leit að gögnum og fræðslu um íslenskt mál og málnotkun. Bakgrunnur og ritstjórn Málsins er hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Framangreind verkefni eru í stöðugri þróun.

Fjölgum þeim sem mæla á íslensku

Á hverju ári flyst fjöldi fólks til landsins sem hefur áhuga á að læra og tileinka sér íslensku. Það skiptir miklu máli að við sköpum tækifæri og umgjörð til að svo geti orðið.

Það er ótrúlega stutt síðan við fórum að skoða hvernig best væri að kenna og læra íslensku sem annað tungumál. Við þurfum að halda áfram að afla þekkingar um íslensku sem annað mál, bæta tækifæri kennara á öllum skólastigum til símenntunar og auka aðgang og framboð að námsefni og námskeiðum. Vekja raunhæfar væntingar um framvindu náms og síðast en ekki síst þarf að halda áfram að auka aðgang að íslenskunni..

Liður í auknu aðgengi er stuðningur samfélagsins alls við íslenskunám innflytjenda. Rannsóknir sýna að þeir sem læra íslensku á námskeiðum fá ekki nægileg tækifæri til að nota málið í daglegu lífi. Prófum að hefja öll samtöl á íslensku áður en við grípum til annarra tungumála.

Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu. Þar er lögð sérstök áhersla á að börn og ungmenni nýti tungumálið og stuðning við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Til þess að það verði þarf forystu og víðtæka samvinnu. Ég hef fulla trú á að ráðherranefnd um íslenska tungu, sem tók til starfa í vikunni, tryggi að svo verði.

Leik-, grunn-, framhalds- og háskólar, framhaldsfræðsla, starfsmenntasjóðir, verkalýðsfélög, atvinnurekendur, sveitarfélög og ríki hafa öll formlegt hlutverk og þurfa að vinna saman að settum markmiðum.

Íslenskukennsla er ekki verkefni „kennarans“ eins. Það er stundum sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og á sama hátt getum við sagt að það þurfi þorp til að einstaklingar nái tökum á íslensku.

Íslenskan er okkar allra og við erum öll íslenskukennarar.

Líneik Anna Sævarsdóttir er þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00