Verndum sjóbleikju!
Nýlega var lagður grunnur að stofnun félagsskapar sem hefur að leiðarljósi að vernda sjóbleikju við Eyjafjörð og vonandi landið allt.
Aðalmarkmið okkar er að stofna óformlegan félagsskap til verndar sjóbleikjunni sem hefur átt undir högg að sækja á síðari árum.
Við horfum fyrst og fremst til breytinga á þáttum sem yrðu til gagns eins og staðan er í dag, öllu langsóttara er að eiga við helsta orsakavaldinn sem eru loftslagsbreytingar. Það sem stendur okkur næst er að koma á banni við netaveiði á sjóbleikju í sjó og vötnum þar sem sjóbleikjuár eiga ósa sína.
Ungur veiðimaður, Benjamín Þorri Bergsson, með flotta sjóbleikju úr Eyjafjarðará. Hópurinn vill sjá fleiri svona fiska.
Hér í Eyjafirði eiga nokkrar hlunnindajarðir rétt á að stunda netaveiði fyrir þeirra landi. Þeim er ekki settur neinn kvóti, skráning er engin og stór spurning hvað verður um fiskinn. Það eru engar heimildir til um hvort veiddir séu örfáir fiskar, tugir eða hundruðir. Það þekkist að fiskur úr netaveiði sé seldur á veitingastaði. Á sama tíma er stangveiðimönnum settur æ minni kvóti eða þurfa jafnvel að sleppa öllu.
Smábátar hafa samkvæmt lögum engan rétt til að veiða sjóbleikju á ósasvæði veiðiáa. Samt tíðkast þetta hér á landi og hefur verið gert lengi hér á Pollinum í Eyjafirði. Þessar veiðar höfðu kannski ekki mikil áhrif þegar stofninn var sterkur, fyrir 15 - 20 árum síðan, en þær vega meira núna. Þessar veiðar fara einnig fram án kvóta og skráningu. Þetta þarf að stoppa.
Malartekja í ám vekur upp blendnar tilfinningar hjá mönnum, sérstaklega ásýndin og búsvæðarask. Hver sá sem ætlar í malartekju þarf mat sérfræðinga og samþykkta umsókn til að geta hafist handa. Þegar leyfi gefst er farið af stað án eftirlits og menn sjá ekki tilgang í því að gera árlegt mat á athafnasvæðinu. Dæmi eru um að malartekja hafi farið fram án tilskyldra leyfa, t.d. í Eyjafjarðará.
Það ráð að minnka kvóta á sjóbleikju í stangveiði hefur litla þýðingu ef megnið af fiskinum er drepinn í sjónum. Það er að vissu leyti rökrétt hugsun en virkar lítið eitt og sér. Það þarf að ganga lengra, friða svæði, loka hrygningarsvæðum fyrr á haustin og jafnvel draga úr álagi á veiðistaði sem eru hindrun fyrir sjóbleikju og þar sem hún búnkast upp.
Það sem við höfum fyrir okkur í því að sjóbleikjan sé á undanhaldi
Það eru helst og aðallega veiðitölur sem endurspegla stöðuna og svo spyrst það út meðal stangveiðimanna hvað ástandið er orðið slæmt. Auðvitað spila inn í þetta áhrifavaldar eins og misjöfn sumur, vatnavextir, ástundun veiðimanna og misgóð skráning. En það er ekki að ástæðulausu að veiðisvæði séu friðuð, kvóti minnkaður, tekið upp algjört „veiða og sleppa“ fyrirkomulag eða bara leyfð fluga. Uppistaðan í haustveiði á sjóbleikju er svokölluð geldbleikja, sem hefur verið eftirsótt hjá stangveiðimönnum en hefur algjörlega brugðist hér í Eyjafirði síðustu 2 - 3 ár.
Það sem við ætlum að gera til að koma okkar málstað á framfæri og vinna að bættum skilyrðum fyrir stofna sjóbleikju, svo þeir nái að vaxa og dafna
Það þarf að safna saman sem flestum staðreyndum um ástandið, til að hafa áhrif á þá sem hafa vald til að breyta og setja reglur og einnig til að vekja áhuga sem flestra á málstaðnum. Stefnt er að því að boða til opins fundar með áhugafólki um sjóbleikjuna og seinna jafnvel stigið stærra skref og haldin ráðstefna. Í hugum margra er þetta skemmtilegasti sportfiskurinn og tími kominn að stíga stórt skref og styðja við bleikjustofna, ekki bara í Eyjafirði heldur á landsvísu.
Lengi lifi bleikjan!
Fyrir hönd félagsskaparins, Bleikjan - styðjum stofninn.
Högni Harðarson er einn stofnenda félagsskaparins. Hann er eigandi vefsíðunnar Veiðiheimar.
Staða sjóbleikjuveiða á landsvísu lýsir sér vel í grafinu hér að neðan (Guðmunda Þ. & Guðni G. Lax- og silungsveiðin 2020, Haf og vatnarannsóknir, Hafnarfjörður júní 2021, bls 38.)
Dæmi eru um að árfarvegum sé breytt sem sömuleiðis getur valdið raski á búsvæðum bleikjunnar.
Guðrún Una Jónsdóttir, formaður Stangaveiðifélags Akureyrar, með flotta sjóbleikju úr Hörgá, það er synd ef svona fiskar fá ekki færi að ganga upp í árnar og hrygna vegna netaveiða í sjó, segir hópurinn.
Malartekja í ám á sér stað víða um land og getur valdið raski á búsvæðum og hrygningarstöðum bleikjunnar.