Fara í efni
Umræðan

Vegakerfi sem gerbreytir búsetuskilyrðum á Norður- og Austurlandi

NORÐAUSTURKJÖRDÆMI – 4

Sem fræðimaður og áhugamaður um byggðamál skrifa ég hér átta stuttar greinar um mikilvægustu málin í Norðausturkjördæmi að mínu mati.

Í fjórða sæti er vegakerfi sem gerbreytir búsetuskilyrðum á Norður- og Austurlandi.

Það er hægt að gerbreyta Norðurlandi og Austurlandi með vegagerð þannig að landshlutarnir verði enn betri búsetukostir en nú er. Með gerð nýrra vega og jarðganga er hægt að þjappa landshlutunum saman hvorum um sig og stækka þannig atvinnu- og þjónustusvæði og gera öll samskipti auðveldari.

Ég hef sett fram og kynnt nokkrum sveitarstjórnarmönnum framtíðarsýn fyrir Norðurland sem ég kalla Annað Norðurland. Breytingin er það mikil að ekki yrði lengur um sama Norðurland að ræða og nú er. Það kæmi fram annað Norðurland með fljótlegri, auðveldari og öruggari samskiptum íbúanna. Þessi framtíðarsýn felur í sér að stytta vegalengdir eins og kostur er og komast framhjá hindrunum sem aðallega eru fjöll. Vegalengd frá Reykjahlíð til Akureyrar yrði stytt verulega sem og frá Kelduhverfi og byggðanna þar fyrir austan. Það hlýtur jafnframt að vera framtíðin að komast á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar á láglendi og í því felst tækifæri til að stytta vegalengdir og ná vegalengdinni á milli tveggja stærstu bæja Norðurlands niður úr 120 km í 80 km. Jafnframt hlýtur framtíðin að liggja í því að hægt sé að komast á láglendi milli Húnaþings og Skagafjarðar.

Sum þessara verkefna eru svo hagkvæm að hægt væri að greiða þau að fullu með veggjaldi sem væri tekið í einhvern tíma. Önnur eru dýrari og sum mjög dýr en geta flest gefið tekjur sem hjálpuðu verulega við fjármögnun og minnkuðu framlagsþörf úr ríkissjóði. Hversu stórum hluta framkvæmdakostnaðar veggjöld geta staðið undir fer mest eftir fjármagnskostnaði. Fjármagnskostnaður (raunvextir) er mjög hár um þessar mundir en með lægri fjármagnskostnaði væri hægt að gera mun meira með veggjöldunum einum. Án veggjalda tæki margfalt lengri tíma til að gera stórátak í vegagerð og tel ég þau þess vegna skynsamleg.

Á Austurlandi væri hægt að smíða samsvarandi framtíðarsýn og hefur það reyndar þegar verið gert svo sem með Draumalandinu Austurlandi. Á Austurlandi þarf mikla jarðgangagerð og eru þegar komin tvenn göng sem hafa breytt miklu. Þar er viðbúið að veggjöld hrökkvi skemur þótt umferð sé glettilega mikil á Austurlandi. Auk þess að gerbreyta vegakerfinu á milli þéttbýlisstaðanna á Mið-Austurlandi með göngum þarf að klára Norðausturveg, það þarf að komast á milli Vopnafjarðar og Héraðs á láglendi.

Á milli Austurlands og Norðurlands eru einnig styttingarkostir, það væri hægt að stytta leiðina milli Egilsstaða og Akureyrar um 25 km eða um 10%. Sumar þessara styttinga yrðu á Austurlandi en flestar á Norðurlandi. 10% stytting úr 250 km í 225 km hljómar ekki mikil en skiptir samt ótrúlega miklu máli.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri

Ný hugsun í heilbrigðis- og velferðarþjónustu

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 17:45

Handboltalið KA

Þorleifur Ananíasson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 06:00

Uppbygging um allt land

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 10:00

Sterkari sveitir eru allra hagur

Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason og Björn Bjarki Þorsteinsson skrifa
16. nóvember 2024 | kl. 12:00

Beint flug til útlanda

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
16. nóvember 2024 | kl. 11:00

Einkarekinn skóli

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
15. nóvember 2024 | kl. 15:30