Fara í efni
Umræðan

Vannýttur vegkafli í G-dúr

Það var mikið ánægjuefni árið 2021 þegar opnaður var hinn nýi og glæsilegi Dettifossvegur sem tengir saman Mývatnsöræfi og Ásbyrgi. Þessi 53 kílómetra langi vegkafli er ekki bara mikilvæg samgöngubót heldur stórkostlegt tækifæri fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf á Norðausturlandi. Framkvæmdin kostaði skattgreiðendur þessa lands alls um 3.500 milljónir króna, enda um mikið og metnaðarfullt samgöngumannvirki að ræða sem á að nýtast samfélaginu öllu.

En galli er á gjöf Njarðar. Þrátt fyrir þessa stóru fjárfestingu hefur Vegagerðin ákveðið að beita svokallaðri G-reglu við vetrarþjónustu á Dettifossvegi. Sú regla þýðir í raun að vegurinn er aðeins mokaður tvisvar í viku yfir haust- og vorvertíð þegar snjólétt er, en ekkert yfir stóran hluta vetrarins. Þetta veldur því að vegurinn er ófær stóran hluta ársins og fjárfestingin því aðeins nýtt að litlu leyti.

Áætlaður viðbótarkostnaður við að halda veginum opnum allt árið um kring er 20–40 milljónir króna á ári, sem eru smámunir í samanburði við þá 3.500 milljóna króna fjárfestingu sem þegar hefur verið lögð í verkefnið. Það er nánast glæpsamlegt að geta ekki boðið ferðamönnum upp á að sjá Dettifoss í vetrarskrúða því mikið tignarlegri sýn er erfitt að finna. Fossinn er þó aðeins einn af fimm aðgengilegum útsýnis- og áningarstöðum á þessum stutta vegkafla. Talandi um að fá mikið fyrir lítið.

Þó popplagið fræga hafi verið gott skora ég á yfirvöld að endurskoða þessa ákvörðun og koma Dettifossvegi úr G-dúr og tryggja honum fulla vetrarþjónustu. Við eigum ekki að láta dýrmætan fjárfestingu standa vannýtta, heldur tryggja að hún nýtist íbúum og ferðamönnum allt árið um kring. Það er okkar sameiginlega ábyrgð að nýta vel þær fjárfestingar sem þjóðin stendur straum af.

Jens Garðar Helgason er þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Afgangur og þrír þræðir jarðtengingar

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
15. apríl 2025 | kl. 16:00

Bjánarnir úti á landi

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar
15. apríl 2025 | kl. 12:53

Styrk stjórn gefur góðan árangur

Ásthildur Sturludóttir skrifar
11. apríl 2025 | kl. 17:00

Hörmungarástand við Lundargötu

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
11. apríl 2025 | kl. 10:45

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis á erindi við þig

Pétur Þór Jónasson og Inga Bára Ragnarsdóttir skrifa
08. apríl 2025 | kl. 11:45

Samfélagssáttmáli íbúa um samfélagsmiðlanotkun- og skjátíma barna

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
07. apríl 2025 | kl. 19:00