Vanda þarf umræðu um ketti
Í þættinum „Þetta helst“ í hádegisútvarpi RUV rás 1 þann 6. 1. ´23 var fjallað um kisur á Akureyri og styrinn sem hefur staðið um hvað kisuvinum leyfist að að gera í daglegri umsjón þessara heimilisvina sinna.
Nú það komið á dagskrá bæjarstjórnar að þar skuli ræða þetta mál.
Í fréttaviðtali fyrir tæpu ári kom fram sú von að þessu ferli ljúki með því „að menn og kettir verði vinir á ný.“
Til þess að sú vinátta geti orðið til þarf bæjarstjórn að vanda sig og gæta þess að umræðan verði vönduð og vel kynnt svo endanleg ákvörðun geti stuðst við góð og vel skýrð rök.
Ef rökin vantar stendur ákvörðunin á veikum grunni. Eðlilegast væri að nýta kynningarmöguleika samráðsferlis sem vettvang fyrir undirbúning ákvörðunar um reglur bæjarins sem varða gæludýrahald.
Þau atriði sem að mínu mati verði að gaumgæfa vel eru þessi:
- Reynslan af mismunandi útfærslum
- Náttúruvernd
- Jafnræðisregla stjórnsýslu
- Nágrannafriður
- Lýðheilsa
- Sóttvarnir
- Dýravelferð
Reynslan af mismunandi útfærslum
Þarna vandast málið. Lausaganga katta hefur verið ráðandi nánast alla tíð. Langflestir Akureyringar eru samdauna ástandinu og hafa litla hugmynd um hvernig það er að fá frí frá óheftri umferð katta. Hríseyingar og Grímseyingar riðu samt á vaðið fyrir nokkrum áratugum og tóku upp aðra siði. Grímseyingar lögðu alfarið af allt kattahald í eyjunni vegna fuglalífsins og Hríseyingar lögðu af lausagöngu utanhúss.
Ég hef ekki orðið var við neina alvöru athugun á reynslu þeirra og úr því þarf að bæta því það væri mjög fróðlegt að sjá hvernig til hefur tekist í eyjunum okkar.
Náttúruvernd
„Náttúran skal alltaf njóta vafans“ Þetta er bein tilvitnun í yfirlýsingu sem er búin að vera í grunn stefnuskrá amk. eins stjórnmálaflokks frá upphafi. Það eru fleiri stjórnmálaflokkar sem eru að minnsta kosti farnir að taka þetta til athugunar.
Umhverfisáhrif taminna og hálftaminna dýrategunda sem eru ekki hluti af upprunalegri náttúru geta verið umtalsverð.
Það er mest áberandi í vistkerfum á eyjum utan meginlanda.
Neikvæðar breytingar vegna þessara áhrifa á umhverfið verður að meta á fræðilegum grunni og stjórnvöldum ber skylda til þess að gera það sem þau geta til þess að lágmarka mögulegan skaða.
Jafnræðisregla stjórnsýslu
Þessi regla gerir ráð fyrir því að stjórnvöld gæti þess að forðast mismunun í reglusetningum og tilskipunum. Að einn hópur gæludýraeigenda fái sérákvæði er líklega ekki í samræmi við þessa megin reglu.
Nágrannafriður
Góður nágrannafriður er ein forsenda farsæls samfélags. Ef einn hópur telur sig verða fyrir verulegu ónæði og/eða ágangi vegna hegðunar einhvers annars hóps er mikilvægt að stjórnvöld komi til skjalanna með einhverju því sem tekur á ágreiningnum með skilvirkum hætti. Samanber ákvörðun um að banna galandi hana í þéttbýlinu.
Sálræn lýðheilsa
Ítrekað hefur það komið fram að samvistir við dýr og sú upplifun að fylgast með því sem gerist í náttúrunni geta haft mjög jákvæð áhrif á sálræna líðan fólks.
Þarna verða yfirvöld að koma til skjalanna með því að gæta vel að því að ánægjuefni eins verði ekki skemmd með tillitsleysi annars. Þar liggur vandinn m.a. í því að viðhorf og áherslur geta stangast á.
Sóttvarnir
Öll dýr geta borið með sér og dreift smitum og sjúkdómum af ýmsu tagi. Bogfrymill (fræðiheiti Toxoplasma gondii) sem hefur notað ketti sem millihýsil er þekkt dæmi um slíkt.
Þar hafa stjórnvöld það hlutverk að afla sem bestra upplýsinga um það sem þarf að varast og fylgja því eftir með viðeigandi aðgerðum, fræðslu og reglum.
Dýravelferð
Nútíma dýravelferð segir einfaldlega að hegðun okkar megi ekki valda dýrum heilsuleysi, þjáningum og/eða kvalarfullum dauða.
Þetta gildir jafnt um tamin og villt dýr og okkur leyfist ekki að taka eina tegund það langt út fyrir sviga að það fari að bitna illa á öðrum tegundum (t.d. fuglunum).
Á vef matvælastofnunar eru kynnt gildandi lög og reglugerðir um gæludýr ásamt leiðbeiningum sem gagnlegt er að hafa til hliðsjónar með öðru sem snertir dýravelferðina.
Þar kemur m.a. fram í reglugerð um velferð gæludýra nr. 80/2016 í 24. gr. að: „Óheimilt er að skilja kött eftir einan og eftirlitslausan lengur en í einn sólarhring“ og í 12. gr. „Strax og umráðamaður dýrs verður þess var að gæludýr sleppur úr haldi skal hann gera ráðstafanir til að finna dýrið og handsama það.“
Spurning í þessu samhengi: Hve margir kettir verða fyrir bíl hér í bæ á hverju ári?
Með von um málefnalega umfjöllun um þetta allt saman.
Gleðilegt nýár.
Ólafur Kjartansson er Akureyringur, búsettur í Aðalstræti 28.