Fara í efni
Umræðan

Upplýsingagátt um vellíðan og velferð eldra fólks

Að vera aldraður einstaklingur í íslensku samfélagi, er annað í dag en var fyrir einum til tveimur áratugum svo ekki sé litið lengra til baka. Í dag búum við að gjörbreyttri og öflugri heilbrigðis og félagsþjónustu og þættir eins og húsnæði, lífeyrismál, menntun, ferðalög og hreyfanleiki, félagslíf, samgöngur og tækni svo nokkuð sé nefnt, hefur breyst mikið á stuttum tíma. Allt þetta tekur stórstígum breytingum á hverju ári og mun vafalítið taka umtalsverðum breytingum á næstu árum. Það er talsvert ólíkt að vera sjötíu ára í dag en það var, þó ekki væri nema út frá virkni og heilsufari einstaklinga, heilbrigðisþjónustu og tækni.

Akureyrarbær hefur í samstarfi við Félagsmálaráðuneytið og starfshóp um lífskjör og aðbúnað aldraðra, hafið vinnu við þróunarverkefni sem miðar að því að leggja grunn að upplýsingagátt eða svokölluðu rafrænu mælaborði um líðan og velferð aldraðra í sveitarfélaginu. Markmiðið er að setja fram samræmdar tölulegar upplýsingar um líðan og velferð aldraðra og móta grunn að rafrænni upplýsingagátt og svo að slíkar upplýsingar verði mögulega einnig aðgengilegar víðar á landinu. Með slíku mælaborði verður mögulegt að fá fram heildarmynd af almennri stöðu aldraðra í samfélaginu á hverjum tíma og beina sjónum stjórnvalda að verkefnum sem brýnast er að takast á við og forgangsraða.

Breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar er ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Sem dæmi má nefna að hlutfall Íslendinga 60 ára og eldri verður um 23% árið 2025 og um 28% árið 2060. Í hópi þeirra sem eru 80 ára og eldri verður tvöföldun á sama tíma. Hlutfall þess hóps fer úr 4,1% árið 2025 í 8,2% 2060. Þessar staðreyndir þurfum við öll að taka alvarlega, vegna þess að flestir þeirra sem í dag eru 50-60 ára, verða hluti af þeim hópi sem árið 2040 verða á aldrinum 70-80 ára og í hópi þeirra sem verða yfir nírætt um 2060. Það er ekki mikil óvissa um fjöldann, heldur frekar um hvernig samfélagið muni þurfa að bregðast við til að sem flestum einstaklingum í hópnum farnist sem best. Til þess þarf að byggja á upplýsingum og staðreyndum um stöðuna, líðan og velferð þessa hóps svo að ákvarðanir á hverjum tíma skili sér í eflingu lífsgæða eldra fólks.

Í nútímasamfélagi er víða haldið utan um upplýsingar sem gætu veitt stjórnvöldum leiðsögn um hvar kreppir að eða hvar úrbóta er þörf. Niðurstöður úr könnunum um líðan og heilsu eldra fólks og upplýsingar frá þjónustuveitendum um notkun ýmissa úrræða í heilbrigðis – og velferðarþjónustunni, geta veitt upplýsingar um þarfir og velferð hópsins. Önnur lönd hafa sum hver sett upp rafræn mælaborð eða gagnvirkar heimasíður sem birta tölfræði um ýmsa þætti er varða eldra fólk, velferð þess og líðan. Meðal þess sem slíkar upplýsingaveitur varpa ljósi á eru fjöldatölur, kynjahlutfall í hverjum aldurshópi, hve margir búa einir eða með öðrum, í eigin húsnæði eða leigu, fjöldi og aldur þeirra sem leita á bráðamóttökur, fjöldi þeirra sem fá tiltekna aðstoð eða þjónustu hjá sveitarfélaginu og svo mætti lengi telja.

Með nýju rafrænu mælaborði um líðan og velferð aldraðra má því gera ráð fyrir að almenningur, notendur og stjórnvöld hafi betra aðgengi að raunupplýsingum um það sem er að gerast og hvað kallar á úrlausn á hverjum tíma. Þannig getum við sem samfélag verið betur búin til að gæta að, mæta og stuðla að vellíðan og velferð eldra fólks.

Ingibjörg Ólöf Isaksen er bæjarfulltrúi á Akureyri. og formaður starfshóps um lífskjör og aðbúnað aldraðra.

Halldór S. Guðmundsson er félagsráðgjafi og framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00