Fara í efni
Umræðan

Umræðan um lífeyrismál

Undanfarna daga hef ég verið nokkuð hugsi yfir umræðunni um lífeyrismál og það sem hefur verið skrifað um þau mál af félögum mínum í verkalýðshreyfingunni.

Þessi umræða hefur spunnist um frumvarp sem lagt var fram á Alþingi og hefur sumum fundist þar vera ýmislegt sem ekki komi til greina að nái fram að ganga.

Að launafólk fari ekki að greiða í lífeyrissjóð fyrr en þeir verða 18 ára í stað 16 er eitthvað sem mér finnst ekki koma til greina enda rýrir það réttinn. Þetta mundi þýða að fólk 16 ára til 18 ára yrðu 11,50% ódýrari starfskraftur en er í dag og er þetta leiðin sem Samtök atvinnulífsins hafa viljað fara síðustu ár, að gera unglingana að ódýrari vinnukrafti. Það er ólíðandi að fara bakdyramegin að þessu og ég treysti því að alþingismenn sjái við þessu og láti þetta ekki gerast.

Annað sem er í þessu frumvarpi er að þeir sem fá greiðslur úr lífeyrissjóði eigi ekki að fá verðbætur mánaðarlega heldur einu sinni á ári. Þetta er skerðing fyrir eldri borgara og er með ólíkindum að þrátt fyrir loforð og upphróp um að bæta kjör þeirra aldraðra þá er verið að koma fram með þetta ákvæði sem er hrein skerðing. Munið að það eru kosningar í haust og eldri borgarar eru stór kjósendahópur. Það kemur ekki til greina að láta þetta ná fram að ganga.

Þriðja atriðið er að skilja sjómenn eftir þar sem þeir eru ekki með 15,50% iðgjald eins og annað launafólk. Það er auðvitað krafan að allir séu jafnir og njóti sömu réttinda.

Það sem hefur verið bitbein innan ASÍ um lífeyrismál er hvort verkalýðshreyfingin eigi að leggja áfram áherslu á samtrygginguna. Það hefur komið fram frá nokkrum formönnum innan ASÍ að minnka eigi samtrygginguna og gefa fólki möguleika á að fara meira í séreign.

Þetta snýst um það að 2015 var samið um auknar greiðslur í lífeyrissjóði. Þá fór framlag atvinnurekenda úr 8% í 11,50% og var samið um að hægt væri að setja þessi 3,50% í svokallaða tilgreinda séreign sem launafólk gæti óskað sérstaklega eftir að yrði séreign en færi annars í venjulega samtryggingu. En af hverju leggja áherslu á samtryggingu? Það er nefnilega þannig að sumir fá minna út úr lífeyrisjóði heldur en þeir hafa borgað en aðrir sem lenda í áföllum fá meira út úr sjóðunum en þeir hafa borgað. Er þetta ekki það sem stéttarfélögin eru byggð á og hafa sameinast um að halda í?

Það er sorglegt að sjá fólk í dag berjast fyrir því að hægt sé að setja þessi 3,50% í venjulega séreign sérstaklega. Er frjálshyggjan að ná völdum í verkalýðshreyfingunni? Höfum þetta eins og það er í dag, að hægt sé að óska eftir því að fara í þessa tilgreindu séreign ef ekki er óskað eftir því þá fari þetta í samtrygginguna.

Það er líka erfitt að horfa upp á það að menn innan hreyfingarinnar skuli skamma forseta ASÍ fyrir það að vilja halda í það sem er megin markmið stéttarfélaga. Sem sagt samtrygging um að þeir sem verða fyrir áföllum geti treyst á að þeir séu ekki skildir eftir heldur standi allir saman.

Ég man eftir því að fyrir nokkrum árum varð ég vitni af því að hópur manna var að tala um lífeyrissjóði og mönnum fannst að það ætti að setja allt inn á bankabók fyrir hvern og einn, það ætti ekki að vera með þessa samtryggingu. Þessir aðilar voru allir um þrítugt. Einn af þeim var hljóður lengi vel en allt í einu þá stendur hann upp og segir: „Ég ætla bara að segja ykkur það að ég lenti í áfalli og guð sé lof að ég hafði greitt í lífeyrissjóð og ég get ekki unnið framar en ég fékk framreikning til 67 ára og ég get sagt ykkur að ég hafði sömu skoðum og þið en nú sé ég að þetta mun bjarga mér og gerir mér kleift að halda áfram lífinu. Hvernig hefði farið ef ég hefði bara átt í séreignarsjóðum hvað mundi það duga lengi?“ Það var ekki rætt meira um þessi mál.

Mér datt þetta í hug þegar menn eru komnir í þann ham að auka sérhyggjuna á kostnað samtryggingarinnar

Mikið vona ég að Forseti ASÍ haldi áfram að berjast fyrir samtryggingunni því að það er okkar hlutverk. Ekki mun standa á mér í þeirri baráttu með henni.

Björn Snæbjörnsson er formaður Einingar-Iðju

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00