Fara í efni
Umræðan

Um rekstur hjúkrunarheimila á Akureyri

Í grein sem Sigurður J. Sigurðsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi, skrifaði á Akureyri.net fjallar hann um rekstur hjúkrunarheimila, þá stöðu sem komin er upp í kjölfar þess að Akureyrarbær hefur sagt upp samningi um rekstur Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) og samskipti bæjarins og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) sem annast málið fyrir hönd ríkisins. Kallar hann eftir skýringum bæjaryfirvalda á stöðunni. Okkur er bæði ljúft og skylt að verða við þeim óskum.

Í upphafi er vert að geta þess að á bæjarstjórnarfundi þann 16. febrúar sl. fóru bæjarstjóri og formaður bæjarráðs ítarlega yfir stöðu mála gagnvart SÍ. Var þetta mál tekið þar á dagskrá þar sem nauðsynlegt þótti að bæjarbúar væru upplýstir um stöðu mála. Þar komu fram ýmsar upplýsingar sem rétt er að benda fólki á að hægt er að nálgast í upptöku frá fundinum sem finna má á heimasíðu bæjarins akureyri.is.

Af hverju var greitt með rekstrinum?

En víkjum þá að grein Sigurðar og þá fyrst að spurningunni um það af hverju hallarekstur var látinn viðgangast og af hverju við höfum greitt með rekstrinum úr bæjarsjóði. Til að svara því er nauðsynlegt að líta til forsögu málsins.

Strax við upphaf kjörtímabilsins 2014-2018 var hafin umræða í bæjarstjórn um halla á rekstri ÖA og mikilvægi þess að bregðast við. Á árinu 2015 samþykkti bæjarráð að láta KPMG gera úttekt á þjónustu sveitarfélagsins við aldraða og starfsemi Öldrunarheimila Akureyrar og skilaði KPMG skýrslu í ársbyrjun 2016. Tilgangurinn var ekki síst að greina hvort Akureyrarbæ bæri að greiða rekstrarhalla ÖA að hluta eða öllu leyti, en um þetta voru skiptar skoðanir. Niðurstaða úttektar KPMG var i grófum dráttum að svo væri ekki: hallinn af rekstrinum skyldi lögum samkvæmt greiddur af ríkinu enda er lögbundið hlutverk þess að standa straum af kostnaði við hjúkrunarheimili í landinu.

Á sama tíma og þessi skýrsla kom fram var unnið að samningum milli ríkis og sveitarfélaga um uppgjör lífeyrisskuldbindinga er sneru að hjúkrunarheimilum. Skilyrði þess að slíkt uppgjör færi fram var að bærinn myndi annast rekstur ÖA til ársloka 2018. Í samningunum var kveðið á um að ríkið myndi leggja meira fjármagn til öldrunarþjónustu í landinu, farið yrði í saumana á húsnæðismálum hjúkrunarheimila auk uppgjörs á lífeyrisskuldbindingum. Var það mat sérfræðinga okkar að rétt væri að taka þessum samningi og var þá ekki síst horft til uppgjörs lífeyrisskuldbindinga. Það var því samhljómur í bæjarstjórn á þeim tíma um að halda áfram með reksturinn og leggja til hliðar í bili a.m.k., allt tal um uppsögn og skil á starfseminni til ríkisins

Bæjarstjórn ákvað þrátt fyrir þetta að halda á lofti kröfu um að hallarekstur fyrri ára yrði gerður upp og var KPMG falið að gera samantekt á greiðslum sveitarfélagsins með rekstri ÖA á árunum 2012-2016. Niðurstaða þeirrar úttektar, sem lögð var fram í september 2017, var að greiðslur bæjarins með rekstri ÖA á árunum 2012-2016 hafi numið um 843 milljónum króna á verðlagi ársins 2016.

Í kjölfar þessarar samantektar fól bæjarstjórn bæjarstjóra og bæjarlögmanni að senda inn kröfu um greiðslu á þessum kostnaði. Ríkið hafnaði hins vegar kröfu bæjarins alfarið og því var ákveðið að kanna hvort rétt væri að fara með málið fyrir dómsstóla. Þar sem Garðabær hafði þá þegar farið með svipað mál af stað fyrir dómsstólum var ákveðið í samráði við lögmenn að bíða eftir niðurstöðu þess máls. Niðurstaðan var á endanum sú, að með dómi Hæstaréttar í júní 2020, var kröfu Garðabæjar hafnað og því ljóst að lengra yrði ekki komist með kröfu okkar Akureyringa.

Í kjölfar kosninga 2018 urðu nokkrar umræður um hvort segja ætti upp samningi þegar hann rynni út í árslok 2018. Vildi fólk láta reyna á hvort hægt væri að snúa rekstrinum við og voru teknar upp viðræður við heilbrigðisráðuneytið sem leiddu til þess að undirritaður var viðbótarsamningur þar sem gerðar voru áherslubreytingar á rekstri og gilti samningurinn til ársloka 2020. Voru bundnar nokkrar vonir við að með nýrri og breyttri nálgun mætti ná fram hagræðingu og jafnvægi í rekstrinum. Því miður náðist það markmið ekki og það var því í apríl 2020 sem bæjarstjórn ákvað að tilkynna SÍ og heilbrigðisráðuneytinu að bærinn myndi ekki framlengja samninginn sem falla átti úr gildi 31. desember sl.

Það hefur því ekki verið einfalt mál að koma rekstri hjúkrunarheimilanna til ríkisins sem ber ábyrgðina og vanfjármögnun orðið til þess að hallarekstur hefur verið viðvarandi eins og skýrt er betur hér að neðan.

Þolinmæðin á þrotum

Í áðurnefndri grein Sigurðar veltir hann upp þeirri spurningu hvað valdi því að rekstur leggist með auknum þunga á sveitarfélagið. Því er til að svara, og kemur ágætlega fram í skýrslu KPMG, að strax á árunum 2012-2016 var samspil daggjalda og launakostnaðar orðið skakkt, þ.e.a.s. daggjöld dugðu tæpast fyrir launum og hvað þá öðrum rekstrarkostnaði. Ennfremur liggur fyrir að kjarasamningar hjá sveitarfélögum eru dýrari en á almennum markaði þegar horft er til hjúkrunarheimila og hefur verið talað um að þar muni allt að 10% í launakostnaði. Það segir sig því sjálft að rekstur hjúkrunarheimila hjá sveitarfélögum er mun þyngri en almennt hjá fyrirtækjum í velferðarþjónustu og endurspeglast það vel í því að nú er þolinmæði margra sveitarfélaga á þrotum.

Sigurður segir í grein sinni að ekki hafi verið í gildi samningar um þjónustu ÖA í meira en áratug. Hið rétta er að samningur um rekstur ÖA rann út í árslok 2008 og var ekki til samningur um reksturinn fyrr en á árinu 2016, sbr. hér að ofan, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið gengið á eftir því við ráðuneytið að gerður yrði nýr samningur. Hins vegar hafa verið samningar um reksturinn eins og áður segir frá árinu 2016 og nú síðast var gerður viðauki þar sem Akureyrarbær tekur að sér að halda á rekstri fram til 30. apríl nk.

Sigurður tekur fram að hann sé maður einkaframtaksins og telur ekki sjálfgefið að sveitarfélög annist rekstur öldrunarheimila en telur hins vegar að ákveðin samlegðaráhrif á slíkri nærþjónustu væri heppilegt rekstrarform, þ.e. að rekstur hjúkrunarheimila væri á vegum sveitarfélaga. Það má til sanns vegar færa en til þess að slíkt gengi upp þyrftu ríki og sveitarfélög að ganga í takt í málefnum aldraðra. Í dag eru tæplega 3.100 hjúkrunarrými á landinu skv. úttekt á stöðu hjúkrunarheimila sem Morgunblaðið vann í lok síðasta árs. Af þeim hjúkrunarheimilum voru um 750 rými á vegum sveitarfélaganna og þá aðallega á landsbyggðinni. Nú liggur fyrir að fjögur sveitarfélög hafa sagt upp samningum og þannig fækkar rýmum á vegum sveitarfélaga og verða komin niður fyrir 500 rými eða um 16% af hjúkrunarrýmum í landinu.

Hagur íbúa í forgangi

Akureyrarbær hefur lagt mikla áherslu á að vel takist til við yfirfærsluna og gerði bæði SÍ og ráðuneytinu, strax í byrjun maí 2020, grein fyrir því að samningar yrðu ekki framlengdir. Með því vildi bærinn gefa SÍ tækifæri til að vinna málið þannig að yfirfærslan gæti gengið vel fyrir sig. Fljótlega kynnti SÍ að Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) myndi taka yfir reksturinn og var útbúin verkáætlun um yfirtökuna auk þess sem bæði stéttarfélögum og starfsmönnum var kynnt staða mála. Mikil ánægja var með þessi áform enda HSN með góða reynslu af slíkum rekstri. Því miður kom babb í bátinn, ríkið dró þessa ákvörðun til baka og málið fór aftur á byrjunarreit á haustdögum. Málið þokaðist lítt áfram þrátt fyrir ítrekuð fundahöld með SÍ og því samþykkti Akureyrarbær í desember að framlengja samninginn til loka apríl þar sem SÍ var komið í pattstöðu með yfirfærsluna. Það var svo ekki fyrr en í lok janúar að SÍ auglýsti eftir rekstraraðilum til að taka við rekstrinum. Nú hafa tveir aðilar lýst áhuga á að yfirtaka reksturinn og er boltinn hjá SÍ. Vonandi nást samningar sem fyrst þannig að yfirfærslan geti gengið vel fyrir sig og verið öllum til sóma.

Við viljum að það komi skýrt fram að í öllum viðræðum okkar við SÍ hefur það verið í algjörum forgangi að tryggja sem best hag þeirra sem búa á Öldrunarheimilum Akureyrar sem og þess góða fólks sem þar starfar. Á sama tíma hefur bæjarstjórn það að sjálfsögðu í algjörum forgangi að greiða ekki hundruð milljóna úr bæjarsjóði til lögbundinna verkefna ríkisins.

Þess vegna er okkur ekki stætt á því að feta áfram sama veg. Akureyrarbær getur ekki staðið undir þessum kostnaði ásamt öðrum þeim verkefnum sem honum ber lagaleg skylda að sinna og hefur metnað til að inna vel af hendi. Því miður hafa samskiptin við ríkisvaldið verið með þeim hætti í þessu máli að þar er engu að treysta og því var enginn annar kostur í stöðunni en að endurnýja ekki samning um rekstur ÖA, sem var vissulega þungbær ákvörðun fyrir okkur öll.

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00