Fara í efni
Umræðan

Um mikilvægi menningar – Afmæliskveðja til Hofs

Bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, flutti ávarp í Menningarhúsinu Hofi sunnudaginn 29. ágúst þegar fagnað var 10+1 árs afmæli hússins og 159 ára afmæli Akureyrarbæjar. Akureyri.net birtir hér ávarpið með góðfúslegu leyfi.

***

Menning er margslungið hugtak. Menning felur í sér gildismat heillar þjóðar, trúarbrögðin, hefðirnar, samskiptin, listirnar og lífsstílinn: í rauninni allt sem við hugsum, alla okkar drauma og allt sem við tökum okkur fyrir hendur. Menningin er því sannkallað orkuver, og krafturinn felst kannski ekki hvað síst í samspili þess sem við eigum sameiginlegt og þess sem greinir okkur að.

„Lífið er saltfiskur en ekki eitthvert draumaringl,“ sagði Salka Valka í skáldsögu Halldórs Laxness, en hvers virði væri saltfiskurinn ef honum fylgdu ekki spennandi og forvitnilegir menningarstraumar, keimur af framandi kúltúr? Matur án menningar er þunnur þrettándi á sama hátt og mannlíf án menningar er lítils vert.

***

Í dag fögnum við tíu plús eins árs afmæli Menningarhússins Hofs og 159 ára afmæli Akureyrarbæjar. Það er ærið tilefni til að gleðjast. Til hamingju, Akureyringar, til hamingju Ísland.

Akureyri er bær hinna mörgu merkimiða. Akureyri er skólabær, fjölskyldubær, skíðabær, íþróttabær, bærinn í skóginum, „alltaf-gott-veður-bær“ – en í hugum margra er Akureyri fyrst og fremst menningarbær.

Líf bæjarbúa er kryddað litríkri menningu: tónlist, myndlist, leiklist, og það er sannast sagna ótrúleg upplifun að setjast niður hér í Hofi til að upplifa sinfóníutónleika á heimsmælikvarða, já eða spássera um Listagilið á sólríkum Gildegi þegar tónlistin ómar um stræti og torg, og myndlistarsýningar eru opnaðar á hverju strái, sýningar sem túlka íslenskan veruleika en bera um leið með sér framandi menningarstrauma í bæinn okkar. Í því samhengi væri eintómur saltfiskur lítils virði því lífið er líka menning og alls kyns draumaringl.

***

Í menningarsögu Akureyrar síðustu þrjá áratugina eða svo hafa í það minnsta tvisvar orðið stórmerk kaflaskil.

Fyrst var það upp úr 1990 þegar gömlu verksmiðjuhúsin sem KEA og Sambandið ráku í Grófargili voru lögð undir menningarstarf af ýmsum toga og Grófargilið breyttist í Listagil.

Og næst var blað brotið í menningarsögu bæjarins árið 2010 þegar Menningarhúsið Hof var vígt með pompi og prakt. Þetta stórglæsilega menningarhús er nú sannkallað orkuver menningar í bænum eins og lagt var upp með. Hér starfar Menningarfélag Akureyrar sem hefur undir sínum hatti Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og rekstur Hofs. Það var mikið gæfuspor þegar ákveðið var að Tónlistarskólinn á Akureyri yrði hluti af þessu fallega húsi en ekki við hliðina á því eins til stóð í byrjun. Hann stendur fyrir afar blómlegu starfi en hér er líka hönnunarverslun og kaffihús eins og við þekkjum.

Menningarhúsið Hof er miðstöð menningar þar sem fagfólk lætur hendur standa fram úr ermum og reiðir fram listviðburði sem standa listviðburðum hvar sem er í heiminum fyllilega á sporði.

Hér hefur einnig orðið til hálfgerð draumaverksmiðja fyrir bæði innlendan og erlendan markað með upptökum á tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp og tölvuleiki sem auðgar mannlífið en færir okkur um leið kærkominn gjaldeyri í þjóðarbúið.

Þannig vindur menningin upp á sig og verður að mikilvægri útflutningsgrein.

***

Ekki þarf að fara í grafgötur um það hversu mikilvæg menningin er fyrir land og þjóð, og hún er ekki síst mikilvæg fyrir landsbyggðina sem oft og tíðum á við ramman reip að draga hvað varðar listræna viðburði og menningarlegar uppákomur af ýmsu tagi.

Með tilkomu Menningarhússins Hofs gjörbreyttist allt menningarlegt landslag hér á Akureyri, en ekki bara „hér á Akureyri“ því áhrifasvæði hússins nær langt út fyrir bæjarmörkin og kemur fólk bæði að austan og vestan – jafnvel að sunnan eða utan úr heimi – til að drekka í sig þá menningarstrauma sem leika um þessa glæsilegu byggingu og njóta þeirra viðburða sem hér fara fram.

Þannig hefur Menningarhúsið Hof verið sem vítamínsprauta fyrir allt Norðurland og skiptir gríðarmiklu máli fyrir okkur sem hér búum og störfum. Þannig hafa bókvitið og menningin verið í askana látin og það sem sumir kalla stundum „draumaringl“ reynist þegar upp er staðið vera það sem gefur lífinu gildi.

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30