Tímabært að fjárfesta í aðstöðu til hjartaþræðinga á Sjúkrahúsinu á Akureyri?
Þegar maður hættir að vera ferskur og sprækur og gengur ekki lengur að tímamældum störfum í þágu annarra fer maður að hugsa um allskonar. Líka allskonar sem maður heldur eða vonar að skipti ekki svo miklu máli í bili eins og t.d. aðgengi að bráðaþjónustu og aðgerðum.
Hjartakvillar eru næsta algengir meðal fólks á aldrinum 50-80 ára – án þess að því þurfi að fylgja varanleg örkuml né ótímabær dauði ef rétt er við brugðist og menn komast í hendur lækna og í aðgerð með hraði og án ónauðsynlegra tafa. Þekking og reynsla af bráðaviðbrögðum og tækni til skjótra flutninga með sjúkrabílum og þyrlum og sjúkraflugi, landshorna milli, hefur bjargað fjölda fólks á liðnum árum. Bætt þekking og greiningartækni – ásamt framþróun í aðgerðatækjum – gera inngrip árangursríkari, en eftir sem áður er skjótt inngrip lykilatriði til að dragar úr skaða sjúklings og lífhættu.
Þegar bráðaþjónusta og flóknari aðgerðir konsentrerast í sífellt meiri mæli við einn spítala í Reykjavík og allir vita að álag á LSH er yfirþyrmandi og ekki sér fyrir enda á, – þá er eðlilegt að velta fyrir sér hvort ekki sé meira en tímabært að fjármagna nauðsynleg tæki og ráða sérfræðinga til að framkvæma hjartaþræðingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Fyrir liggur að fjöldi einstaklinga fær hjartaáfall þar sem menn búa og starfa á Norður og Austurlandi - innan tveggja klukkustunda útkallsfjarlægðar frá Akureyri. Vitandi af langflestir sem fá slíkt áfall og komast í neyðarþræðingu innan hóflegs tíma lifa áfallið af og margir verða fyrir takmörkuðum áverka á hjarta. Með því að sjúklingur komist undir læknishendi með hraði og í aðgerð innan sem skemmst tíma munu flestir lifa góðu lífi – jafnvel 20-30 ár og – verða áfram virkir þátttakendur á vinnumarkaði og sem samfélagsþegnar og hluti af hamingjusamri fjölskyldu.
Það er þannig mikilvægt að fjölga þeim hjartasjúklingum sem komast með hraði í bráðaþræðingu.
Það má klárlega gera með því að byggja upp slíka aðstöðu og veita þjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
- Þannig mundum við fjölga þeim sem komast í gegn um hjartaáfall með minniháttar skaða og geta lifað gjöfulu lífi til langrar framtíðar - fækkum þeim sem deyja og skaðast ótímabært.
- Þannig mundum við spara verulegan flutningskostnað sjúklinga og draga úr álagi á þennan hóp sjúklinga og fjölskyldur þeirra - - sérstaklega mundi létta á sjúkraflugi Akureyri Reykjavík – og sjúkraflugvélar þá til taks í annan bráðan flutning.
- Þannig mundum við létta álagi á LSH og alveg sérstaklega á Hjartadeildina.
- Þannig mundum við styrkja sérfræðiþekkingu og breikka faglega getu og tækni á SAk, sem þá verður öflugri heilbrigðisstofnun og eftirsóknarverðari vinnustaður fyrir sérfræðinga.
Það kostar auðvitað fjárfestingu í tæknibúnaði og umgjörð að koma upp aðstöðu til hjartaþræðinga á SAk.
Það kostar ráðningu og þjálfun sérfræðilækna og sérþjálfaðra hjúkrunarfræðinga og viðhald þeirra þekkingar - til að annast hjartaþræðingar með viðunandi og helst góðum árangri.
Hvernig kostnaðalegur jöfnuður kemur út úr dæminu þarf að liggja fyrir - - áður en rökrétt er að knýja á um ákvörðun í slíku máli. Hins vegar er slíkt ákvörðun ekki eingöngu kostnaðarlegt mat; heldur er það pólitísk ákvörðun sem byggist á því hvort við sem samfélag viljum tryggja þennan aðgang að umræddri og mikilvægri bráða- og sérfræðiþjónustu.
Skiljanlega hafa rekstraraðilar SAk ekki endilega frumkvæði að slíku mati sem hér er kallað eftir - - en við sem erum með „gamla hjartað“ eða laskað - eigum að láta frá okkur heyra - og kannski munu einhverjir úr hópi barna og barnabarna telja þetta skipta máli - fyrir lífsgæði og hamingju okkar landsbyggðarfólksins hér Norðan og Austan.
Benedikt Sigurðarson er eftirlaunamaður á Akureyri