Til að iðka trú þarf að ganga á fjöll
Séra Jóhanna Gísladóttir flutti eftirfarandi predikun við messu í Akureyrarkirkju í morgun. Akureyri.net fékk góðfúslegt leyfi til að birta hana í heild._ _ _
Fyrir um áratug síðan var mér treyst fyrir því verkefni sunnan heiða að standa fyrir kristinfræðikennslu fyrir fullorðna. Það er að segja fræðslu fyrir fólk sem hafði nýlega flust til landsins og vildi fá að kynnast betur kristinni trú og kristinni kirkju. Þetta var fólk sem hafði litla eða enga þekkingu á kristni og höfðu flest aldrei stigið fæti inn í kirkju.
Ég var þakklát fyrir traustið sem mér var sýnt að leiða þetta verkefni en nálgaðist það af örlitlum hroka svona eftir á að hyggja, ég taldi nægja að mæta bara í fyrsta tímann með biblíusögur sunnudagaskólans undir hendinni og ætlaði mér að þræða mig mjög systematískt í beinni tímalínu í gegnum helstu rit biblíunnar.
En auðvitað var þetta ekki svo auðvelt og ekki það sem fólkið var beinlínis að leitast eftir. Þau sem sóttu tímana voru afar áhugasöm um allt sem ég kenndi þeim og spurðu mikið af spurningum, mörg voru þau hokin af lífsreynslu og með mikla þekkingu á trúarbrögðum eigin heimalands og voru því vel undirbúin.
Þau höfðu með öðrum orðum meiri væntingar til samverunnar en hið almenna fermingarbarn, og þetta segi ég af virðingu fyrir fermingarbörnum sem svo sannarlega koma áhugasöm í fræðslu vopnuð spurningum sem brenna á þeim, en flest ekki jafn djúpum og ítarlegum spurningum um trúarlíf kristinnar manneskju og þetta fólk spurði mig. Enda átti ég stundum ekki svar fyrir þau í handraðanum og varð að fletta upp í bókum eða leita til kolllega á milli tímanna.
En þetta verkefni, þessar samverur með þessu góða fólki reyndust mér raunar einstaklega gagnlegar sem nýjum presti. Að fá tækifæri til að spegla sögur biblíunnar og trúariðkun mína í augum þeirra sem þekktu ekki til og að þurfa að greina með orðum lífæð lifandi trúar og hvernig við viðhöldum tengingu við æðri mátt í hversdeginum. Ekki einungis þegar allt gengur á afturfótunum heldur einning þegar lífið brosir framan í okkur.
Nú, biblíusaga dagsins segir frá fjallgöngu. Jesús hélt út í óbyggðirnar ásamt nokkrum lærisveina sinna og á leiðarenda upplifðu vinir hans eitthvað alveg nýtt. Eitthvað sem breytti sýn þeirra á lífið Eitthvað sem varð þess valdandi að trú þeirra á Guð varð sterkari. Eitthvað sem þeir áttu sjálfir erfitt með að koma í orð síðar en fundu sig samt knúna til að segja frá.
Ummyndunin svokallaða varð þess valdandi að sá efi sem ef til vill bjó í hjörtum þeirra hvarf með öllu. Efinn sem býr innra með okkur öllum og knýr áfram trúarþroska okkar en getur einnig á stundum reynst okkur fjötur um fót.
Upplifun lærisveinanna rímar að vissu leyti við upplifun sem við þekkjum mörg af dvöl úti í náttúrunni. Hve gott það er fyrir sálina okkar að ganga í guðsgrænni náttúrunni, nú eða snæviþakinni náttúrunni eins og umhorfs er utandyra hjá okkur þessa stundina. Að anda að sér fersku lofti fjarri skarkala og áreiti.Vera ein með hugsunum okkar og finna hvernig allt verður skýrara og einfaldara.
Við slíkar aðstæður heyrum við betur í Guði. Það er mín lífsreynsla og margra annarra. Þar sem ekkert truflar boðleiðirnar. Jesús sjálfur leitaði mjög í einveru úti í náttúrunni ef marka ber guðspjöllin, til að biðja og til að hvílast.
Ég væri að segja ósatt ef ég héldi því fram hér í kirkjunni í dag að fjallgöngur væru mínar ær og kýr. Ég er bæði afskaplega lofthrædd og engan veginn í mínu besta gönguformi þessa stundina. En þeim mun meir kann ég að meta að ganga á jafnsléttu, styttri göngur en í ró og næði. Enda er það er ekki hæðin sem skiptir öllu eða hve langt við förum, heldur að skapa sér tíma til að hvíla hugann og flétta þannig saman andlega og líkamlega gæðastund.
Nú, aftur að kristinfræðikennslunni. Það sem kom mér mest á óvart þegar ég og nemendur mínir köfuðum dýpra í boðskap biblíunnar var að fólkið sem sótti tímana hafði ekkert út á kraftaverkasögur biblíunnar að setja. Það sem við glímum venjulega við að trúa og ræðum í þaula. Það var eingöngu mystík trúarinnar eins og einn maður orðaði það. Það sem vafðist raunverulega fyrir fólkinu var ekki sannleiksgildi biblíunnar, heldur trúariðkun okkar Íslendinga. Hefðir og venjur. Hvers vegna væri ekki meiri áhersla á bænina? Meiri áhersla á að iðka trúna í stað þess að tala bara um hana eins og annar maður komst að orði. Af hverju trú væri svona mikið einkamál hvers og eins en ekki samfélagsleg eins og mörg þeirra voru vön frá sínum heimahögum.
Ég hef síðar meir margoft hugsað til þessa samtals og upplifunar nemenda minna af kristinni trúariðkun á Íslandi. Ég held að það sé fjölmargt sem veldur því að við Íslendingar flöggum ekki trú okkar og eigum erfitt með að setja í orð upplifun okkar af almættinu.
En eitt sem ég held að hafi áhrif á hve mjög Guð virðist stundum fjarlægur okkur dagsdaglega er að við þurfum að hafa mun meira fyrir því í dag að komast í umhverfi þar sem áreitið er ekkert og við getum verið ein með hugsunum okkar. Sem er án efa þess valdandi að við eigum erfiðara með að tengja við æðri mátt, að upplifa hugarró og finna fyrir raunverulegri nærveru og handleiðslu Guðs í lífum okkar.
Ég held að ég geti fullyrt að í öllum trúarbrögðum sé að finna hefðir sem krefja iðkandann um að draga sig afsíðis og rækta sína trú þar sem ekkert annað truflar hugann. Ekki endilega í einrúmi en í rými þar sem hugir sameinast í bæn eða hugleiðslu, þar sem áreitið er ekkert og þar sem vð leitum markvisst eftir að finna fyrir hönd Guðs í lófa okkar.
Þær hefðir og siðir urðu ekki til vegna boða frá almættinu, heldur vegna okkar mannfólks sem erum ekkert svakalega góð í að halda mörgum boltum á lofti allajafna. Við þörfnumst hvíldar með reglubundnum hætti, ekki bara góðs nætursvefns heldur einnig, og ekki síður hvíldar fyrir sál og huga. Til að upplifa endurnýjun. Til að upplifa styrk og kraft frá æðri mætti.
Áskorun okkar allra sem viljum ganga samferða Guði, sem viljum lifa andlegu lífi, áskorunin er ætíð að færa okkur nær Guði. Að taka af skarið. Leita leiða. Það er fjallið sem okkur er ætlað að klífa. Það er ekki óyfirstíganlegt en krefst tíma og ástundunar, vilja og örlítils hugrekkis. Og þetta fjall þarf að klífa ekki einu sinni, heldur oft og mörgum sinnum á lífsleiðinni. Að teygja okkur lengra, komast hærra. Ekki til að komast upp á topp heldur til að öðlast skarpari sýn. Annað sjónarhorn.
Og Biblían getur svo sannarlega reynst okkur dýrmætur vegvísir en er ekki upphaf og endir trúar okkar. Heldur er það von á kærleiksríkan Guð. Megi almættið gefa okkur öllum tækifæri til arka af stað á eigin hraða og upplifa Guð í nýju ljósi, líkt og lærisveinarnir forðum.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Jóhanna Gísladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.