Fara í efni
Umræðan

Það eru ekki bara börn sem nýta sér þjónustu talmeinafræðinga

Árlega halda talmeinafræðingar víðsvegar um Evrópu upp á Dag talþjálfunar þann 6. mars. Dagurinn er til þess ætlaður að vekja athygli á fjölbreyttum störfum talmeinafræðinga víðsvegar um álfuna. Hér á Íslandi hafa málefni talmeinafræðinga verið töluvert til umfjöllunar síðastliðna mánuði, þá helst í tengslum við tregðu SÍ við að taka nýja talmeinafræðinga á samning þrátt fyrir æði langa biðlista barna sem þurfa á talþjálfun að halda. En það eru ekki bara börn sem nýta sér þjónustu talmeinafræðinga. Á Íslandi starfa nokkrir talmeinafræðingar í endurhæfingu, m.a. á Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri og á Reykjalundi. Þessir talmeinafræðingar þjónusta einna helst fullorðið fólk sem glímir við kyngingartruflanir, talvandamál eða málstol í kjölfar slysa, sjúkdóma eða veikinda á borð við heilablóðföll.

Í tilefni dagsins langar mig að segja nokkur orð um málstol, því eðli málsins samkvæmt, eru einstaklingar með málstol ekki hávær hópur og hafa úrræði, þjónusta og þekking á málefninu verið frekar takmörkuð hingað til.

Málstol er máltruflun sem getur haft áhrif á máltjáningu og málskilning, lestur og skrift, en hefur ekki áhrif á persónuleika eða greind fólks. Málstol getur auðveldlega kollvarpað lífi einstaklinga og aðstandenda þeirra, þegar viðkomandi á allt í einu erfitt með að tjá grunnþarfir sínar, framkvæma venjubundnar athafnir eins og að skrifa innkaupalista eða svara tölvupósti, sinna áhugamálum sínum og viðhalda samböndum við fjölskyldu og vini.

Líkt og með aðrar skerðingar á hugrænni getu er skilningur og þekking almennings á málstoli frekar takmörkuð. Sumir gera ráð fyrir að einstaklingur með málstol sé vitrænt skertur og líta jafnvel á hann sem byrði, með lítið félagslegt gildi frekar en fullgilda manneskju með tilfinningar, skoðanir, þarfir og þrár. Undirrituð hefur í starfi sínu horft upp á mikla einangrun og andlega vanlíðan einstaklinga á besta aldri sem hafa orðið fyrir því mikla óláni að fá málstol í kjölfar heilablóðfalls eða annarra veikinda. Þetta er fólk sem oft á tíðum brotnar saman við það eitt að einhver sýni fötlun þess skilning, gefi sér tíma til að eiga samskipti við það og hafi áhuga á og virði skoðanir þess og tilfinningar.

Aukin þekking og skilningur samfélagsins á málstoli er nauðsynlegur grundvöllur fyrir bættum lífsgæðum og auknu sálfélagslegu heilbrigði þessa fólks. Fram að þessu hefur verið erfitt að nálgast góðar upplýsingar um málstol á íslensku auk þess sem tilfinnanlega hefur vantað vettvang fyrir einstaklinga með málstol og aðstandendur þeirra til að tengjast og deila reynslu sinni. Nýlega var stofnaður Facebookhópurinn Málstol á Íslandi, en hann er ætlaður áhugafólki um málstol; bæði þeim sem hafa fengið málstol eða þekkja einhvern sem málstol. Einnig hefur litið dagsins ljós íslensk upplýsingasíða um málstol: www.malstol.com en þar má finna ýmsan gagnlegan fróðleik og ráðleggingar um málstol og samskipti. Um leið og ég óska talmeinafræðingum til hamingju með daginn, hvet ég fólk til að kynna sér málefnið og stuðla með því að bættum lífskjörum einstaklinga með málstol.

Ingunn Högnadóttir er talmeinafræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00