Fara í efni
Umræðan

Það er þörf fyrir aukna skaðaminnkun á Akureyri

Við sem störfum á Akureyri innan skaðaminnkunarverkefnis Rauða krossins, Frú Ragnheiður, verðum bersýnilega vör við þá erfiðu stöðu sem flestir skjólstæðingar verkefnisins standa frammi fyrir. Eitt mikilvægasta verkefni okkar er að vera málsvarar þeirra sem hafa litla eða enga rödd í samfélaginu og því langar okkur að reyna að varpa ljósi á hvers konar starf er unnið innan skaðaminnkunarverkefna okkar og hvert markiðið með þeim verkefnum er.

Hvað er skaðaminnkun?

Það má í raun segja að svarið sé fólgið í orðinu sjálfu, aðgerðir sem hafa það að markmiði að draga úr skaða. Við þekkjum mýmörg dæmi um skaðaminnkun í samfélaginu okkar. Bílbelti eru til dæmis skaðaminnkandi þegar fólk lendir í árekstri og hjólahjálmar gegna saman hlutverki þegar fólk dettur af hjóli. Frá 2009 hefur skaðaminnkun og úrræði sem byggja á henni verið nýtt til að auka þjónustu fyrir fólk sem notar vímuefni á Íslandi. Slíkar aðgerðir hafa verið í formi stefnumörkunar, áætlana og inngripa sem er ætlað að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum skaða einstaklinga og samfélaga af vímuefnanotkun.

Um er að ræða viðurkennda aðferðarfræði hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og Evrópsku eftirlitsstofnuninni um lyf og lyfjafíkn (EUDA) til að bregðast við notkun mismunandi vímuefna, m.a. notkunar í æð. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hvetur til að mynda til þess að skaðaminnkandi inngrip séu innleidd í samfélögum til að draga úr nýgengi HIV og smitum á lifrabólgu B og C, ásamt því að reyna að sporna gegn dauðsföllum vegna ofskömmtunar.

Ýta skaðaminnkandi úrræði undir vímuefnanotkun?

Reglulega koma fram vangaveltur um hvort að aukið aðgengi að skaðaminnkandi úrræðum ýti undir, viðhaldi eða auki notkun vímuefna. Stutta svarið við því er nei. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar þessu tengdar sem gefa til kynna að innleiðing skaðaminnkandi úrræða eykur ekki tíðni vímuefnanotkunar í samfélagi. Skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins, líkt og nálaskiptaþjónusta Frú Ragnheiðar og neyslurýmið Ylja, hvetja hvorki til aukinnar notkunar, né viðhalda eða auka nýgengi vímuefnanotkunar.

Þvert á móti geta skaðaminnkandi úrræði virkað hvetjandi fyrir einstaklinga sem nota vímuefni til að leita sér aðstoðar þar sem í úrræðunum er þeim mætt af virðingu og skilningi. Það getur leitt til þess að lífsgæði einstaklinga aukast, sem getur aftur leitt af sér aukinn hvata til bata.

Gera skaðaminnkandi úrræði gagn?

Skaðaminnkandi inngrip hafa verið vel rannsökuð þar sem þau hafa verið innleidd og þau hafa bæði reynst hagkvæm og hafa jákvæð áhrif á bæði einstaklinga og samfélög. Líkt og fram kemur á heimasíðu Alþjóðlegu skaðaminnkunarsamtakanna þá hefur skaðaminnkun reynst árangursrík við að halda fólki á lífi, koma í veg fyrir alvarlegan heilsufarsvanda á borð við HIV og lifrarbólgusmit ásamt því að draga úr ofskömmtun og auka lífsgæði fólks. Ábyrgari neysluhegðun og minna af notuðum sprautubúnaði í almenningsrýmum eru jafnframt á meðal þess samfélagslega ávinnings sem fæst af skaðaminnkunarverkefnum án mikils tilkostnaðar.

Skaðaminnkandi úrræði hafa margsannað gildi sitt, en slík úrræði hafa verið starfrækt í löndunum í kringum okkur í fjölda ára. Má t.d. nefna að í Berlín var farið að vinna með skaðaminnkandi inngrip árið 1988 og með árunum hefur verið settur aukinn kraftur í slík úrræði, enda er árangurinn augljós.

Skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins

Skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins á Íslandi eru Frú Ragnheiður, sem er starfrækt á þremur stöðum á landinu (Akureyri, Höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum), og Ylja - Neyslurými Rauða krossins, sem er eingöngu starfrækt í Reykjavík.

Frú Ragnheiður á Akureyri hefur verið starfrækt á vegum Rauða krossins við Eyjafjörð frá ársbyrjun 2018. Verkefnið þjónustar einstaklinga sem nota vímuefni um æð og veitir þeim heilbrigðisaðstoð, sálrænan stuðning og nálaskiptaþjónustu. Frú Ragnheiður hefur það að markmiði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð með því að veita lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinga.

Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við að stutt sé við einstaklinga sem nota vímuefni með því að auðvelda þeim aðgengi að hreinum búnaði til að nota og bjóða upp á rými þar sem fólk getur notað efnin á öruggan hátt. Áherslan í samfélaginu fram til þessa hefur frekar verið á boð, bönn og refsingar. Sú stefna hefur ekki skilað þeim árangri sem vonir stóðu til og hefur enn fremur leitt af sér jaðarsetningu fólks sem er margt hvert er að takast á við fjölþættan og flókinn vanda og þarfnast aðstoðar frekar en refsingar.

Við sem störfum með skaðaminnkandi hugmyndafræði að leiðarljósi leggjum áherslu á að draga úr og fyrirbyggja neikvæðar og skaðlegar afleiðingar af notkun vímuefna, fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa. Lögð er áhersla á að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir hverju sinni og draga úr jaðarsetningu þeirra með því m.a. að greiða götu þeirra að félags- og heilbrigðisþjónustu. Þannig er reynt að bæta lífsgæði og heilsufar þeirra sem sækja í þjónustuna.

Það er þörf fyrir aukin úrræði á Akureyri

Þrátt fyrir þá fjölþættu og mikilvægu þjónustu sem Frú Ragnheiður á Akureyri veitir þá nær verkefnið ekki að sinna öllum brýnum þörfum skjólstæðinga sinna. Því miður kemur reglulega upp sú staða að sjálfboðaliðar verkefnisins þurfa að senda fólk frá sér sem hefur engan öruggan stað til að fara á og hefur þá ekki tryggan stað til næturgistingar.

Að hafa hvergi öruggan gististað getur aukið á vanda skjólstæðinga, sem leita jafnan í ótryggar aðstæður þar sem hætta er á að verða fyrir ofbeldi. Í einhverjum tilvikum þarf jafnvel að greiða fyrir gistinguna með kynlífsvinnu eða afbrotum. Slíkt getur haft alvarlegar andlegar og líkamlegar afleiðingar fyrir einstaklingana.

Á Íslandi er hvorki neyslurými né gistiskýli til staðar utan höfuðborgarsvæðisins. Við sem störfum í Frú Ragnheiði á Akureyri teljum að nú sé kominn tími til að metin verði þörfin fyrir fleiri skaðaminnkandi þjónustuúrræði á Eyjafjarðarsvæðinu, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Ingibjörg Halldórsdóttir er deildarstjóri Rauða krossins við Eyjafjörð

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15