Tækifæri og áskoranir í miðbænum

Bæjarstjórn hefur á tveimur síðustu fundum rætt skipulagsmál í miðbænum sem svo sannarlega þarfnast athygli nú þegar uppbygging er komin á fullt og margt spennandi í deiglunni.
Eins og við höfum öll tekið eftir þá er uppbygging í miðbæ Akureyrar svo sannarlega hafin. Hótel rís á methraða við Hafnarstræti, gömlu Dynheimar hafa hækkað og við Austurbrú hafa risið glæsileg fjölbýlishús og hótelíbúðir. Eins er að komast mynd á hótelbyggingu þar aftan við, en verklok þess hótels er áætluð 2026.
Mynd: Pétur Ingi Haraldsson
Hótel Akureyri sem hefur risið á undraverðum hraða gerir hinsvegar ráð fyrir að geta tekið nýja hlutann í notkun strax í vor. Þessi hóteluppbygging mun án efa styðja við ferðaþjónustuna sem er í mikilli sókn á svæðinu, en skortur hefur verið á gistirými yfir sumarmánuðina síðustu ár.
Aukinn þrýstingur á bílastæði
Aukin uppbygging í miðbænum hefur aðdráttarafl í sjálfu sér og hótelgestum fylgja tækifæri til frekari uppbyggingar á þjónustu, sem aftur dregur þá fólk á svæðið og gerir það enn meira aðlaðandi fyrir íbúa bæjarins, gesti og rekstraraðila.
Með fjölgun íbúða, verslana, veitingastaða og þjónustufyrirtækja skapast spennandi tækifæri til að efla miðbæinn og mikilvægt er að við íbúar ræðum hvernig bæjarfélagið getur stutt við þá þróun. Er þörf á að breyta einhverju í því deiliskipulagi sem liggur fyrir? Eða þeirri hönnun sem gerð var á torginu okkar og göngugötunni? Við eigum að nýta tækifærið og rýna það sem fyrir liggur, enda breytist samfélagið hratt.
Í því samtali tel ég mikilvægt að huga vel að birtu, skjóli og ríkjandi vindáttum sem og hæð bygginga þannig að búin verði til góð svæði á skjólsælum stöðum. Eitt helsta viðfangsefnið þegar kemur að uppbyggingu í miðbænum verður jafnframt að að samræma aukna umferð við takmarkað rými fyrir bílastæði. Þetta eru áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir.
Með fjölgun gesta í miðbænum og uppbyggingu er líklegt að eftirspurn eftir bílastæðum aukist. Þó að Akureyri sé ekki jafn þéttbyggð og höfuðborgarsvæðið, þá skapast svipaðar áskoranir í miðbænum vegna takmarkaðs pláss. Nauðsynlegt er að grípa til markvissra lausna svo að mögulegur skortur á bílastæðum dragi ekki úr aðgengi að verslunum og þjónustu og þannig jafnvel úr samkeppnishæfni miðbæjarins gagnvart öðrum svæðum bæjarins. En á sama tíma má heldur ekki gleyma því að aðgengi gangandi og hjólandi þarf að vera gott og göngutúr um bílastæði er ekki endilega aðlaðandi. Nýir tímar kalla á annarskonar miðbæ.
Nýjar lóðir í auglýsingu
Fyrir liggur að auglýsa eigi lóðir í Hofsbót í apríl á þessu ári og þar með að færa miðstöð strætó norður á Glerártorg og BSO hverfi af svæðinu. Til þess að draga úr áhrifum á fækkun bílastæða er gert ráð fyrir bílakjallara á reitnum þannig að mögulegir íbúar eða gestir sem nýta þær byggingar sem þar kunna að rísa ættu ekki að auka álag á öðrum bílastæðum.
Þó að miðbæjarskipulagið sé tiltölulega nýtt þá gæti ég vel séð fyrir mér að skipulagið sunnan Hofsbótar 1-3 yrði enduskoðað og þar skipulagt torg sem gæti þá orðið sólríkt og í skjóli fyrir norðan áttinni. Tengt miðbæinn betur við sjóinn og þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er við Torfunefsbryggju. Vinna við skipulagið er langt komið og stefnt á að lóðir við Torfunef verði boðnar út á næstu mánuðum. Það er gríðarlega spennandi verkefni og mun auka gæði miðbæjarins mjög og bæta ásýnd Akureyrar.
Við þurfum líka að stýra vel tímalínunni á uppbyggingu í miðbænum, þannig að ekki skapist óþarfa hætta vegna umferðar og ekki síður að bæjarbúar hafi á hverjum tíma gott aðgengi að svæðinu. Þannig sé ég fyrir mér að þegar uppbyggingu syðst lýkur, þá taki við uppbygging við Hofsbót og Torfunefi og síðan koll af kolli.
Göngugatan verði göngugata?
Nú nýlega kom út skýrsla um ástand götunnar sem í daglegu tali er kölluð göngugata. Ástandið er ekki gott og raunar þannig að nauðsynlegt er að setja viðhald hennar á dagskrá og þá taka umræðu um hvernig við viljum hafa hana til framtíðar. Viljum við gera alvöru úr því að hafa hér göngugötu og hvernig ætti hún þá að líta út? Árið 2020 var farið í að hanna göngugötuna og torgið. Það mætti hefja samtalið við íbúa, haghafa og sérfræðinga í borgarskipulagi um þá hönnun. Hér að neðan eru nokkrar myndir sem eru úr núverandi tillögum að miðbænum.
Í dag er verið að gera ráð fyrir u.þ.b. 5 milljónum til að leggja bundið slitlag yfir ökuleiðina og ljóst að ef við viljum fara í stórtæka upplyftingu þá þarf að endurskoða framkvæmdaráætlunina með tilliti til þess.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi tók bæjarstjórn síðan ákvörðun um að lengja lokunartímabilið yfir sumarmánuðina og verður nú lokað fyrir bílaumferð frá 1. maí til 30. september og jafnframt settar þungatakmarkanir fyrir götuna sem viðleitni til að hlífa henni vegna ástandsins.
Drift EA miðstöð fyrir frumkvöðla og nýsköpun hefur nýlega komið sér fyrir í gamla Landsbanka húsinu og verður spennandi að fylgjast með hvernig sú starfsemi þróast og kemur til með að hafa áhrif á umhverfið. En eitt af því sem hefur auðvitað verið í umræðunni lengi er draumur margra um að klárað verði að byggja húsið eins og teikningar gerðu ráð fyrir í upphafi og að þá mætti jafnvel bæta einni hæð við. Slík uppbygging ef af yrði hefði áhrif á ásýnd og umferð um torgið.
Mynd: Þórhallur Jónsson
Framtíðarmúsík
Þegar við færum okkur aðeins norðar þá hafa verið uppi hugmyndir um uppbyggingu á Borgarbíóreitnum svo kallaða, en þær hugmyndir eru í biðstöðu og hafa verið um nokkurn tíma. En hugmyndirnar sem fram hafa komið eru mjög spennandi og mjög í takt við lágreista byggð sem einkennir Akureyri. Hugað er að birtu og skjóli og þar með lífsgæðum þeirra sem sækja svæðið heim. Það verður spennandi að sjá hvernig þessar hugmyndir munu þróast.
Nokkuð er síðan skipulagsbreyting var samþykkt á Sjallareit, en þar hefur verið samþykkt sex hæða hótelbygging, en óvíst um framkvæmdir, svo mögulega hefur síðasta sjallaballið ekki enn verið haldið.
Þá hef ég farið yfir það helsta sem er á döfinni í miðbænum og við tekur svæði norðan við sem meðal annars hefur að geyma ráðhús, gamla ríkið, eða vínbúðina og Akureyrarvöll svo eitthvað sé nefnt, en verið að undirbúa samkeppni um það skipulag. Á því svæði væri upplagt að mínu mati að koma fyrir bílastæðahúsi, t.d. undir Brekkugötunni við Hólabraut. Það er í það minnsta orðið aðkallandi að hugsa fyrir slíku mannvirki.
Uppbygging í miðbæ Akureyrar býður upp á fjölmörg tækifæri til að efla svæðið sem miðpunkt samfélagsins. Mikilvægt er að horfa til framtíðar og finna lausnir sem tryggja jafnvægi milli þæginda fyrir íbúa og gesti og sjálfbærrar þróunar. Með markvissum aðgerðum má bæði leysa núverandi áskoranir í bílastæðamálum og stuðla að betri nýtingu rýmis í miðbænum til lengri tíma litið. Byggjum upp sólríkan spennandi miðbæ þar sem mannlífið blómstrar.
Halla Björk Reynisdóttir er bæjarfulltrúi L-listans og formaður skipulagsráðs


Að velja sér börn

Ríkisábyrgð á 1.490 milljarða króna?

Álfar og huldufólk styðja umhverfisvernd

Kæra Sambíó
