Fara í efni
Umræðan

Sverrir, Sólgarður og Saurbær

Er metnaður stjórnenda Eyjafjarðarsveitar fokinn út í veður og vind?

Er það vilji þeirra, að selja húsið ofan af Smámunasafni Sverris Hermannssonar og pakka safninu niður í geymslu? Hafa þeir ekki metnað til að standa við það sem fyrri stjórnendur sveitarfélagsins lofuðu Sverri, þegar þeir þáðu safnið að gjöf. Safn sem hann var búinn að efna í með hirðusemi nær allt sitt líf. Safn sem hann helgaði alla krafta sína við flokkun og standsetningu í mörg ár eftir að hann hætti smíðum. Safn sem segir margar sögur þegar að er gáð og á sér enga hliðstæðu á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað.

Svona vildi Guðjón Samúelsson sjá húsin í Saurbæ, reisuleg með burstum samkvæmt gamla stílnum. Einhver granni mun hafa haft á orði við sr. Gunnar, að kýrnar virtust fremur smávaxnar. Prestur svaraði því til, að það væri svo hátt til lofts og vítt til veggja í fjósinu, að kýrnar sýndust minni en þær væru í raun. - Þær verða þá ekki stórar þegar þær koma út undir heiðan himinn, svaraði granninn.

Sverrir Hermannsson sagðist vera sérvitur, var stoltur af því og taldi það kost.

Sverrir henti aldrei neinu, hann var sérvitur, taldi það kost, og var stoltur af þeim eiginleika. Safnið staðfestir sérviskuna, en úr því má einnig lesa sögu þjóðar á nýliðinni öld. Stjórnendum Eyjafjarðarsveitar væri nær að hefja markvissa uppbyggingu safnsins með því að nýta þau smíðatól og tæki, sem fylgdu gjöfinni á sínum tíma, en eru í geymslu. Þar á meðal eru stórar og vandaðar trésmíðavélar, sem mætti nýta til að skapa eigulega nytjahluti. Það mætti líka skapa í Sólgarði aðstöðu fyrir handverksfólk og handverksmarkaði til að blása meira lífi í umgjörð safnsins. Það mætti líka horfa til þess að gera á Saurbæjartorfunni heilt safnasetur, því þar er nú þegar vísir að búsögusafni.

Gamli bærinn í Saurbæ, sem nývígðum presti þótti ekki sérlega fýsilegur til búsetu.

Saurbær á sér merkilega sögu. Þar var löngum stórbýli og prestsetur. Þar var nafli Saurbæjarhrepps. Talið er að Auðunn nokkur, sonur Þórólfs „smjörs“, hafi búið þar fyrstur manna, en kona hans var dóttir Helga magra. Þegar sr. Gunnar Benediktsson kom þangað nývígður prestur var þar heldur hrörlegur torfbær, sem presthjónunum fannst ekki sérlega aðlaðandi. Gerðu þó gott úr öllu, en Gunnar barðist fyrir að fá heimild til að byggja nýtt íbúðarhús á staðnum. Það skilaði árangri og húsameistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni, var falið að teikna húsið ásamt áföstu fjósi. Til eru tvær teikningar merktar honum, önnur frá 1927, en hin frá 1929. Þær sýna reisulegt hús í gamla burstabæjarstílnum. Á eldri teikningunni eru teiknaðar tvær burstir á hvoru húsi fyrir sig, en á yngri teikningunni, sem að líkindum hefur orðið fyrir valinu, eru tvær burstir á íbúðarhúsinu og þrjár á fjósinu.

Bæjarhúsin í Saurbæ þótti setja niður og verða kollhúfuleg eftir að burstirnar voru brotnar niður eftir brunann.

Hafist var handa við að byggja húsið, en fjárveitingar ríkisins voru ekki í takt við þann hraða sem Gunnar vildi hafa við bygginguna. Fyrir vikið fór úttektarheimild Gunnars hjá KEA oft yfir rauða strikið, en við því var ekki amast. Upp komst húsið og þótti reisulegt. Gunnar varð síðar að yfirgefa brauð sitt og og láta af prestskap. Þá var hann skuldum vafinn vegna framkvæmda á prestsetrinu, en vinir hans í prestakallinu hlupu undir bagga. Ekki kom prestur í Saurbæ til búsetu þar eftir Gunnar, en engu að síður var rekið þar stórbú um tíma á síðustu öld. Í lok janúar 1945 kom upp eldur á efri hæð íbúðarhússins og skemmdist hún mikið. Þegar húsið var endurbyggt eftir það voru burstirnar brotnar niður og sett valmaþak á húsið. Eftir það þykir húsið fremur kollhúfulegt. Fjósið slapp hins vegar við eldinn, en einhverra hluta vegna voru aldrei settar á það burstir þær sem áttu að vera, samkvæmt teikningunni.

Það mætti gera gamla íbúðarhúsið og fjósið upp og færa þau hús í það reisulega form, sem Guðjón Samúelsson teiknaði á sínum tíma. Síðan mætti koma þar upp lifandi safni um það gróskumikla bændasamfélag sem var í Eyjafirði um og upp úr miðri síðustu öld. Torfbæjatímabilinu eru gerð verðug skil á söfnum víða um land, en það er hvergi hægt að sjá lifandi sögu þeirra búskaparhátta sem við tóku eftir torfbæina. Þarna mætti skapa dæmigerðan sveitabæ liðinnar aldar með búpeningi, úrvinnslu afurða þeirra, heyskap og öðru tilheyrandi. Búsögusafnið kæmi þar vel inn í myndina, því tækin þar eru flest nothæf, t.d. gamlar dráttarvélar og heyvinnslutæki. Með ótrúlegum dugnaði og vinnugleði, án launa, hefur Búsögufólkinu tekist að koma í veg fyrir algjöra niðurlægingu Saurbæjar. Kirkjan, stærsta varðveitta torfkirkjan á Íslandi, yrði svo eins og kóróna á þessu safnasetri. Þarna gæti verið fjöldi fólks við störf yfir sumarið. Við mjaltir, úrvinnslu mjólkurafurða með gamla laginu, heyskap og önnur störf sem einkenndu sveitalífið hér áður fyrr. Það er enn til fólk sem kann til verka og getur kennt þeim sem yngri eru. Að sjálfsögðu yrðu allir klæddir samkvæmt venju fyrri tíma. Rómantíkin yrði líka með í för, ástir kvikna í heysátunni, Kalli á nikkunni verður ekki langt undan og við brúsapallinn bíður hún enn eftir Bjössa á mjólkurbílnum!

Félagar í Búsögu hafa reynt að snyrta til á Saurbæjartorfunni gegn því að hafa þar aðstöðu fyrir muni safnsins.

Slíkt safnasetur gæti laðað að sér óteljandi ferðamenn, sem gætu gætt sér á framleiðslunni, keypt osta, skyr, rjómaís, lambakjöt, nautakjöt og handverk, svo eitthvað sé nefnt. Þeir gætu líka haft gaman af að grípa í verkin með gamla laginu. Það mætti líka bæta þarna við fræðasetri með vinnuaðstöðu fyrir bókamenn, rithöfunda og grúskara. Kjarninn í því gæti verið dýrmætt bókasafn, sem hægt væri að skapa með söfnum sem til eru í Eyjafirði. Á búinu yrðu að sjálfsögðu hestar, sem gefur möguleika á hestaleigu og hestaferðum um fjörðinn fagra. Það mætti líka koma upp geitastofni og vinnslu úr þeirra afurðum. Þar að auki er mikil skógrækt í grenndinni, sem gefur tækifæri til vinnslu skógarafurða. Það eru ótal möguleikar.

Gömul mynd af Saurbæjarkirkju, sem yrði eins og kóróna á safnasetri í Saurbæ.

Ég veit að Ríkissjóður á Saurbæ og þeir sem með þau mál hafa farið þar á bæ hafa víst verið tregir í taumi. Þar á bæ vísa menn hver á annan og enginn pólitíkus hefur enn haft þor til að höggva á þann hnút. Fyrir vikið hafa mannvirki í Saurbæ látið verulega á sjá, en áhugamenn um búsögusafnið hafa bjargað því sem bjargað verður. Án þeirra aðkomu væru byggingarnar löngu ónýtar. En tog milli sveitarfélags og ríkis má ekki verða til að koma í veg fyrir merkilega menningaruppbyggingu á staðnum. Ég hvet stjórnendur Eyjafjarðarsveitar til að hætta að gæla við þær krónur, sem þeir gætu hugsanlega náð inn í hungraðan sveitarsjóð með því að selja félagsheimili hreppanna gömlu. Metnaðarfullu Freyvangsleikhúsi var nærri hent út á tún á vordögum, þegar til stóð að selja Freyvang. Samningar náðust þó á síðustu stundu um að eftirláta leikfélaginu þetta sögufræga félagsheimili, en sá samningur gildir aðeins í tvö ár.

Við brúsapallinn bíður hún enn ...

Hugsið stærra og hærra, kæru stjórnendur Eyjafjarðarsveitar. Skapið jarðveg fyrir gróskumikla og nærandi menningarstarfsemi í þessum húsum. Það skilar ávöxtum til framtíðar, sem verða margfalt dýrmætari og næringarríkari en þær rkónur, sem hugsanlega má nurla inn í sveitarsjóð með því að selja þessi hús hæstbjóðenda. Ykkur er ætlað að byggja upp, en ekki að brjóta niður og svíkja gefin loforð forvera ykkar í sveitarstjórninni.

Ég vil hins vegar taka það fram, að ég held að það sé ekki til gæfu að stjórn safnaseturs í Saurbæ yrði í höndum sveitarstjórnar, þótt það sé hennar verk að móta stefnuna í upphafi. Það hefur sýnt sig að söfn í tengslum við sveitarfélög skortir oft kraft og áræði til metnaðarfullra afreka. Sýndi sig best þegar stjórnendur Akureyrarbæjar gugnuðu á að reka Sigurhæðir, hús og safn sem metnaðarfullir Akureyringar komu á legg og ráku með ærnum tilkostnaði í áraraðir og gáfu síðan Akureyrarbæ. Þannig vildu þeir heiðra minningu sr. Matthíasar Jochumssonar, eins mesta hugsuðar og mannvinar, sem gist hefur Akureyrarbæ. Næst verður Davíðshús sennilega sett í sölu.

Búsögufólkið hefur bjargað húsakosti í Saurbæ frá því að grotna niður, en mannvirki þar eru í eigu ríkisins.

Farsælla hefur reynst að stofna sjálfstæð sjálfseignarfélög um söfnin til að fanga þann drifkraft, sem hægt er að virkja í hugsjónafólki. Það gaf til dæmis góða raun á Siglufirði, þar sem áhugamenn og konur komu með áræði af stað vísi að „Síldarminjasafni“. Þeir höfðu hugmyndir og þor til að gera það sem þeim datt í hug, án þess að þurfa að spyrja misvitra sveitarstjórnarmenn um leyfi. Safnið vakti athygli, dafnaði og dró að sér gesti; varð eitt eftirsóttasta safn landsins. Segull fyrir Siglufjörð. Ármenn þess höfðu líka getu og styrk til að banka á dyr ríkisvaldsins eftir stuðningi. Þeir fengu oftar en ekki áheyrn og ásættanlegar lyktir. Þeim hefur til dæmis tekist að endurbyggja á Siglufirði veglegt hús úr viðum þeirrar byggingar, sem eitt sinn stóð á Oddeyri og var nefnt „Gæruhús“. Á sama tíma grotnar Wathne-húsið niður á Akureyri, hús sem eitt sinn stóð skammt frá Gæruhúsinu, og bíður þar eigin jarðarfarar.

En fyrsta skrefið varðandi Saurbæjarsetrið er að stjórnendur Eyjafjarðarsveitar snúi frá villu síns vegar og hætti við að selja Sólgarð. Næsta skref er að stofna félag um rekstur safnaseturs, ná síðan samningum við ríkið um Saurbæ. Þriðja skrefið gæti verið að afhenda nýja félaginu mannvirkin á staðnum, með skilyrðum um uppbyggingu safnaseturs þar, en gangi það ekki eftir falli allar eignirnar aftur til sveitarfélagsins. Takist að koma þarna á fót umfangsmiklu safnasetri mun það skila tekjum til sveitarfélagsins í fyllingu tímans.Til þess að þetta geti gengið upp þarf að vekja upp og virkja áhugasamt kraftaverkafólk í Eyjafirði. Ég veit að slíkt fólk er til. En það örlar á því í eðli Eyfirðinga, að láta reka á reiðanum, en grípa ekki til áranna fyrr en á ögurstundu, eða þegar það er orðið of seint. Ekki láta það gerast varðandi Saurbæ og Sólgarð.

Skrifað af ást til Eyjafjarðarsveitar og virðingu fyrir minningu Sverris Hermannssonar.

Gísli Sigurgeirsson er fyrrverandi fréttamaður.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00