Fara í efni
Umræðan

Svar við spurningum um hreinsistöð fráveitu

Svar Norðurorku hf. við spurningum Ólafs Kjartanssonar 3. október 2023

Hreinsistöð fráveitunnar var gangsett síðla árs 2020 og var um að ræða stóran og mikilvægan áfanga í umhverfismálum fyrir samfélagið allt við Eyjafjörð. Hreinsistöðin var hönnuð til að uppfylla skilyrði grófhreinsunar og byggð í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Ein af hönnunarforsendum stöðvarinnar var að lágmarka þörf fyrir dælingu með tilheyrandi orkunotkun/sóun og er fráveituvatni í stöðinni því einungis dælt einu sinni í öllu hreinsiferlinu. Frá því að stöðin var tekin í notkun og til síðustu áramóta höfðu alls 89 tonn af rusli verið síuð úr fráveituvatninu sem fer í gegnum stöðina, þar af 37 tonn á síðasta ári, sem annars hefðu borist út í Eyjafjörðinn. Þess má geta að mælingar á eftirlitsþáttum í stöðinni sýna fram á að hreinsun á fráveituvatninu stenst reglugerð um hreinsun, líklega ein fárra á landinu. Reyndar er hreinsun í stöðinni umfram kröfur þar sem kröfur gera ráð fyrir grófhreinsun en stöðin er mjög nálægt því að uppfylla skilyrði 1. stigs hreinsunar.

3. október síðastliðinn birti Ólafur Kjartansson opið bréf til stjórnar Norðurorku hf. á vefmiðlinum akureyri.net undir yfirskriftinni „Viljum við feluleik í kringum framkvæmdir á vegum hins opinbera?“ Stjórn Norðurorku fól undirrituðum að svara bréfi Ólafs.

Ég vil byrja á því að þakka Ólafi fyrir bréfið, það er sjálfsagt að upplýsa um þau atriði sem spurt er um. Eins og fram kemur í skrifum Ólafs þá er hér um að ræða framhald af skrifum frá árinu 2022 en þá var mörgum sambærilegum spurningum Ólafs svarað af hálfu Norðurorku.

Dælubúnaður hreinsistöðvarinnar.

Fyrstu fjórar spurningar Ólafs snúa að magni fráveituvatns sem kemur að hreinsistöðinni. Rennslismælingar fóru fram frá septembermánuði 2014 til október 2015 og voru framkvæmdar af verkfræðistofunni Verkís. Framkvæmdaaðili mælinganna getur best gert grein fyrir aðferð og gæðum mælinganna. En það liggur fyrir að gríðarlega mikil úrkoma var á þeim tíma sem stöðin var gangsett og stöðin getur ekki haft undan slíkum magntoppum. Þess ber að geta að það magn sem kemur að stöðinni er almennt meira en mælingarnar 2014 – 2015 gáfu til kynna. Af því má draga þann lærdóm að mælingar hefðu þurft að fara fram yfir lengra tímabil. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að frá því að þessar rennslismælingar fóru fram hefur Hagahverfið bæst við fráveitukerfið á Akureyri.

Ólafur spyr hvort menn hefðu munað eftir massamun á söltum sjó og ferskvatni. Eins og áður hefur komið fram er stöðin hönnuð þannig að fráveituvatninu er aðeins dælt einu sinni og síðan rennur það út í sjó, þannig sparast mikill orkukostnaður. Samfara þeirri útfærslu eru töluverðir útreikningar m.a. vegna sogáhrifa og massamunar á sjó og ferskvatni. Þeir útreikningar voru rýndir af annarri verkfræðistofu á hönnunarstigi og stóðust fullkomlega.

Í næstu fjórum spurningum er spurt um forsendur sem liggja að baki hæðarsetningu stöðvarinnar. Ekkert bendir til þess að stöðin sjálf sé ekki í réttri hæð en hreinsibúnaður stöðvarinnar hefði þurft að standa hærra en hann gerir. Það hefur áður komið fram, m.a. í viðtali við forvera minn og einnig í svari hans við spurningum Ólafs á þessum miðli í apríl 2022. Tvennt veldur því að búnaðurinn hefði þurft að standa hærra en hann gerir. Annars vegar er það svo að aðalútrásin er á meira dýpi en dýptarmælingar gáfu til kynna og hins vegar virðast sjávarhæðartölur Siglingastofnunar, sem á þeim tíma fór með opinberar upplýsingar um sjávarhæð, ekki hafa verið nægjanlega nákvæmar. Eftir á að hyggja hefði það verið skynsamlegt að framkvæma sjálfstæðar mælingar á þessum forsendum sem hér um ræðir frekar en að styðjast við þau gögn sem gert var.

Þegar Norðurorka svaraði fyrri fyrirspurn Ólafs í apríl 2022 var útrennsli um álagsútrás ekki mælt, hvorki í magni né tíma. Enn er magnið ekki mælt en grófar mælingar á þeim tíma sem rennur út um álagsútrás hafa verið framkvæmdar frá og með aprílmánuði 2023. Mikilvægt er að hafa í huga að mælingarnar sýna ekki hvort rennsli um álagsútrás stóð yfir í einhverjar klukkustundir hvern dag eða allan sólarhringinn en þær gefa þó einhverja vísbendingu. Á þeim sjö mánuðum sem mælingarnar hafa farið fram rann fráveituvatn, einhvern hluta dags, um álagsútrás að meðaltali fimm daga í mánuði, minnst í maí en mest í september. Þannig að þrátt fyrir að ekki séu komnar mælingar yfir heilt ár þá ná þær yfir tímabil vorleysinga og haustlægða.

Haraldur Tryggvason fræðir grunnskólabörn um starfsemi hreinsistöðvarinnar.

Frá því að Norðurorka svaraði spurningum Ólafs í apríl 2022 hefur spjald á milli tanka aðalútrásar og álagsútrásar verið hækkað um 15 sentimetra. Það hefur skilað góðum árangri og dregið verulega úr rennsli úr aðalútrás yfir í álagsútrás. Ekki er fýsilegt að hækka spjaldið umfram það sem gert hefur verið þar sem það myndi rýra gæði hreinsunar fráveituvatns.

Það er mikilvægt að halda því til haga að það fráveituvatn sem fer út um álagsútrásina er hreinsað rétt eins og það sem fer út um aðalútrásina og einungis hluti af rennslinu fer um álagsútrásina hverju sinni. Báðar útrásir uppfylla skilyrði fráveitureglugerðar og það að skólpið sé losað í viðtaka á tveimur stöðum við mikið rennsli eykur enn frekar þynningu í viðtakanum.

Varðandi spurningar um mat á kostnaði við að hækka búnað hreinsistöðvarinnar og tímasettar áætlanir um framkvæmdir er því til að svara að þegar stöðin var hönnuð var gert ráð fyrir því að búnaðurinn í stöðinni yrði hækkaður eftir um það bil 15 ár frá upphafi reksturs stöðvarinnar, til að bregðast við hækkandi sjávarborði og til að endurnýja búnað. Einnig var breyting áætluð ef hreinsa þyrfti fráveituvatnið enn frekar áður en að endurnýjun kæmi eða að sjávarborð hefði hækkað þannig að bregðast þyrfti við því. Ekki hefur verið lagt mat á það hvað kostar að hækka búnaðinn í stöðinni. Það liggur í loftinu að gerð verður krafa um 2. stigs hreinsun á fráveituvatni í byggðakjarna af þeirri stærð sem Akureyri er og þá munum við þurfa að byggja við stöðina, til að koma fyrir nýjum búnaði til frekari hreinsunar. Þá er eðlilegt að endurskoða núverandi búnað, endurnýja og bæta úr því sem þarf.

Ólafur spyr hvort verkfræðistofurnar hafi gengist við ábyrgð á mistökum sínum og þá með hvaða hætti. Fyrrverandi formaður stjórnar Norðurorku hf. svaraði sambærilegri spurningu árið 2022. Norðurorka gerði verkfræðistofunni Eflu, sem hannaði stöðina, formlega ljóst á fyrstu stigum málsins að ákveðið misræmi væri hvað hæðarsetningu búnaðar varðar. Það mál hefur ekki verið tekið lengra. Fyrir liggur að það var ekki á ábyrgð Eflu að endi útrásarrörsins er á meira dýpi en áætlað var og deila má um hver ber ábyrgð á nákvæmni sjávarhæðartalna opinberra aðila sem stuðst var við í hönnuninni.

Hvað varðar loftræstikerfi stöðvarinnar er því miður of algengt að misræmi sé milli hönnunar og raunútkomu, sérstaklega í stærri kerfum. Ofangreint hefur ekki komið inn á borð stjórnar og hefur vafalítið verið leyst af reynslumiklu fagfólki eins og Ólafi. Af þessu má draga þann lærdóm að rýna teikningar með fagfólki á hönnunarstigi og ætla gott rými undir tæknibúnað s.s. loftræstikerfi.

Stóra verkefni okkar er áfram að draga úr magni regn- og ofanvatns inn í fráveitukerfið með því að tvöfalda fráveitukerfið í eldri bæjarhlutum og leiða ofanvatn bæjarins til sjávar án viðkomu í fráveitukerfinu. Það mun í framtíðinni létta mikið álagi af hreinsistöðinni. Það verkefni mun taka áratugi og verður að stærstum hluta unnið samfara endurnýjun gatna í bænum.

Að endingu spyr Ólafur um það hvenær farið verði í það að ganga frá girðingu sjávarmegin við hreinsistöðina í samræmi við gildandi deiliskipulag. Því er til að svara að gott samtal hefur verið á milli Norðurorku og Akureyrarbæjar um það atriði og hefur Norðurorka látið teikna tillögu að göngustíg með sjávarsíðunni og útsýnispall á norð- austur horn grjótgarðsins. Þegar og ef hannaður verður göngustígur þarna mun ekki standa á Norðurorku að færa girðinguna og koma að verkefninu með Akureyrarbæ. Þess má geta að Norðurorka hefur eyrnamerkt fjármagn í slíkt verkefni í framkvæmdaáætlun sinni fyrir næsta ár.

Ágæti hreinsistöðvarinnar hefur sannað sig og við erum ákaflega stolt af stöðinni. Því að auk þess að koma í veg fyrir að tugir tonna af rusli berist út í Eyjafjörðinn hefur tilkoma hreinsistöðvarinnar einnig leitt til þess að dregið hefur úr gerlamengun meðfram strandlengjunni á Akureyri. Frá árinu 2005 hafa reglulega verið tekin gerlasýni meðfram strandlengjunni til að fylgjast með hreinleika sjávar við strandlengjuna m.t.t. saurkólímengunar. Sýni eru tekin á 16 stöðum, a.m.k. fjórum sinnum á ári af starfsfólki Norðurorku og/eða Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og hægt er að nálgast upplýsingar um mælingarnar og niðurstöður þeirra á heimasíðu Norðurorku.

Eins og áður segir var ein af grunnforsendum sem Norðurorka setti við hönnun hreinsistöðvarinnar að lágmarka orkusóun í hreinsunarferlinu m.a. með því að lágmarka dælingu. Fyrirmynd af því var ekki til annars staðar og þurfti að hanna frá grunni. Hér er því um nýsköpun að ræða sem enn er að slíta barnsskónum. Við erum enn að læra á rekstur stöðvarinnar og prófa okkur áfram. En það er óumdeilt að stöðin sinnir hlutverki sínu með miklum sóma og umfram kröfur og væntingar.

F.h. stjórnar Norðurorku hf.

Eyþór Björnsson er forstjóri Norðurorku

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00