Fara í efni
Umræðan

Stórt tækifæri í loftslagsvænum fjárfestingum

Hvetjandi var að heyra Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, tilkynna það verðuga markmið um að dregið yrði úr losun gróðurhúsalofttegunda þar í landi um helming fyrir 2030. Á alþjóðlegri ráðstefnu um loftslagsmál sem forsetinn átti frumkvæði að lögðu 40 þjóðarleiðtogar áherslu á mikilvægi þess að bregðast við loftslagsvánni og lofuðu aðgerðum.

Fyrr höfðu leiðtogar Evrópusambandsins samþykkt að Evrópa myndi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 55 % nærri 2030, miðað við árið 1990. Ísland og Noregur miða að sama marki.

Grænir orkugjafar og verðmætasköpun

Takmörkun gróðurhúsalofttegunda er öðrum þræði umræða um orkumál. Vilji Ísland taka þátt í þessum markmiðum er nærtækast að stuðla að framþróun og nýtingu grænna orkugjafa. Ég er sannfærður um að við Íslendingar eigum stór tækifæri sem felast í loftslagsvænum fjárfestingum er miða að kolefnishlutleysi, og nýtingu grænna orkugjafa til verðmætasköpunar með framleiðslu vetnis sem byggingarefni fyrir rafeldsneyti, til að mynda metan, metanól og ammoníak eða annað eldsneyti.

Sífellt fleiri þróa leiðir til geymslu á orku og breyta henni síðan í færanlega orku. Evrópuþjóðir hafa lagt fram metnaðarfullar áætlanir á þessu sviði. Þannig var nýlega spáð að Þjóðverjar muni nýta 50.000-80.000 megavött til vetnisvæðingar í samgöngum fyrir árið 2050. Til samanburðar þá er Kárahnjúkavirkjun 690 megavött.

Frændur okkar Danir sjá hér tækifæri og ætla sér stóran hlut í grænum umskiptum. Þeir hyggjast ganga lengra en flestir og ætla að draga úr heildar kolefnislosun um 70 prósent árið 2030, sé miðað við 1990. Þeir munu byggja að fullu á endurnýjanlegri orku einkum vindorku. Danir leggja mikla áherslu á þróun tækni til framleiðslu og nýtingar á rafeldsneyti, með sérstaka áherslu á vetni.

Umhverfismarkmð kalla á virkjun orku

Það er því ljóst að alþjóðleg eftirspurn eftir vetni eykst. Landsvirkjun hefur sagt að útflutningur vetnis geti orðið umfangsmikil útflutningsgrein í nánustu framtíð. Þannig yrði framleitt vetni og umbreytt í raforku og aðra orkugjafa fyrir samgönguiðnaðinn. Fram hafa komið hugmyndir um mikla framleiðslu á fljótandi vetni og vetnisbera við Finnafjörð. Það gæti orðið verkefni hér á landi upp á tugi eða hundruð milljarða króna.

Fyrir liggja metnaðarfull markmið stjórnvalda um svokölluð orkuskipti í vegasamgöngum á Íslandi. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, hafa bent á að núverandi áætlanir um orkuskipti kalli á 300 MW viðbótarframleiðslu á rafmagni fyrir árið 2030. Það samsvarar 10 prósent aukinni framleiðslugetu en nú er til staðar í landinu sé önnur notkun óbreytt. Vilji menn setja allan bílaflotann á rafeldsneyti þurfi um 600 MW, sem er tæplega vinnslugeta Fljótsdalsstöðvar. Að skipta alfarið öllu jarðefnaeldsneyti út í vegasamgöngum, innanlandsflugi og haftengdri starfsemi kallar á um 1.200 MW í viðbótarorku. — Það er því ljóst að umhverfismarkmiðin kalla á virkjun orku.

Slíkar áætlanir sem krefjast aukinnar orkuframleiðslu, liggja ekki síst í nýtingu vindorku. Í marslok síðastliðnum sendi verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar frá sér samantekt. Þar segir: „Íslendingar standa á tímamótum varðandi nýtingu orkuauðlinda því virkjun vindorku er að hefjast af fullum krafti. Þótt vindurinn sé óþrjótandi er land undir vindorkuver það ekki. Landið er hin takmarkaða auðlind,“ segir í samantektinni. Verkefnisstjórninni bárust 34 kostir um vindorkuver en fimm þeirra fylgdu gögn til að taka þá til mats. Mikill fjöldi vindorkukosta bíður því næstu verkefnisstjórnar.

Af þessum 34 vindorkukostum sem verkefnisstjórnin nefnir eru 13 á norðausturhorni landsins með alls 1.559 MW í uppsettu afli:

Grafík: Morgunblaðið

Ólíklegt verður að telja að öll þessi verkefni muni ná fram að ganga. Að auki þarf að byggja upp mun traustara flutningskerfi raforku og aðra innviði á norðausturhorninu. En sé raunverulegur vilji til loftslagsvænna fjárfestinga og nýtingar grænna orkugjafa til verðmætasköpunar er ljóst að umtalsverðar framkvæmdir verða í virkjun vindorku á Norðausturlandi. Þar liggur stórt og ónytjað tækifæri fyrir landsbyggðina og Ísland allt.

Njáll Trausti Friðbertsson er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00