Fara í efni
Umræðan

Stóra og tímafreka kattamálið (fárið)

Eins og alþjóð hefur orðið vitni að, þá samþykkti bæjarstjórn Akureyrar nú á dögunum að banna lausagöngu katta í bæjarlandinu frá og með 1. janúar 2025.

Í sjálfu sér hef ég enga sérstaka persónulega skoðun á þessu kattamáli, kettir í sjálfu sér trufla mig ekki neitt lausir sem lokaðir, en get þó í hjarta mínu alveg eins verið fylgjandi þessari samþykkt og segi, og hef þá skoðun, að allir dýraeigendur og þar með taldir kattaeigendur, eiga að bera ábyrgð á sínum dýrum.

Það geri ég sem hestaeigandi sem passa mín hross, og það gera allflestir hundaeigendur líka, sem lúta því banni samkvæmt lögreglusamþykkt Akureyrarbæjar að lausaganga hunda í bæjarlandinu er bönnuð.

Á þessu eru þó undantekningar t.d er lausaganga hunda í hesthúsahverfunum mikið vandamál og þrátt fyrir að bæjaryfirvöld hafi sett upp skilti í hverfunum sem minna á bann við lausagöngu hunda, þá þráskallast nokkrir hundaeigendur, sem eru sannarlega líka hestaeigendur (við vitum hverjir það eru), við að fara eftir þessu. Þeir hinir sömu meira að segja fjarlægja umrædd skilti ítrekað af staurunum.

Í umræðunni um kattamálið í bæjarstjórn þá var það almenn skoðun bæjarfulltrúa að taka þyrfti vel á og leggja áherslu á að fylgja eftir þeim samþykktum sem í gildi eru hjá bæjarstjórn og þá væntanlega um lausagöngu almennt m.a. og þeim orðum fagna ég mikið og trúi að nú verði þá lausagöngu hunda í hesthúsahverfunum og á reiðvegunum útrýmt í eitt skipti fyrir öll enda hefur skapast mikil slysahætta af lausum hundum í hverfunum og á reiðvegunum.

Velti þó fyrir mér, því að nýverið var ákaflega farsælum dýraeftirlitsmanni Akureyrar til fjölda ára, Þengli Stefánssyni, sagt upp störfum og starfið lagt niður, hver muni þá taka við vörslusviptingu hunda nú sem hér eftir og einnig þá vörslusviptingu katta sem verða lausir eftir árið 2025.

Gaman væri að einhver bæjarfulltrúi gæti svarað mér þessu og einnig hver tekur við umkvörtunum um lausagöngu hunda og þá katta þegar og eftir að sú reglugerð hefur öðlast gildi.

Það var þó stórmerkilegt að sjá og fylgjast með þeim tíma og þeim þunga sem bæjarfulltrúar lögðu í þessar umræður á bæjarstjónarfundinum. Ekki endilega sagt í neikvæðri merkingu, því sannarlega á bæjarstjórn að vanda sig með öll mál, heldur hefði mér fundist að mörg mál sem bæjarstjórn Akureyrar fyrr og síð hefur þurft að takast á við hafi ekki fengið eins mikla umfjöllun og þetta kattamál. Svo mörg eru þau orð.

Sigfús Ólafur Helgason er hestamaður á Akureyri.

Menntun eða próf I

Sverrir Páll skrifar
17. október 2024 | kl. 16:00

Hundfúll út í heilbrigðiskerfið

Ólafur Torfason skrifar
17. október 2024 | kl. 15:30

ÁSKORUN — Þingmenn, sýnið kjósendum stórhug

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
17. október 2024 | kl. 12:45

Það er þörf fyrir aukna skaðaminnkun á Akureyri

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
15. október 2024 | kl. 11:30

Varði ekki viðsnúninginn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
15. október 2024 | kl. 11:00

Kennaradeilan haustið 2024

Ólafur Kjartansson skrifar
14. október 2024 | kl. 09:00