Fara í efni
Umræðan

Stöðvum stríðið! – Friðarþorláksmessa

Þórarinn Hjartarson flutti eftirfarandi ávarp  á Ráðhústorgi 23. desember, eftir Friðargöngu frá Samkomuhúsinu að torginu.

_ _ _

Enn einu sinni komum við saman á Þorláksmessu til að mótmæla stríði og kalla eftir friði hér á torginu. Það höfum við gert í 20 ár, óslitið, að frátöldum tveimur kóvídjólum. Við byrjuðum á Þorláksmessu árið 2002 í aðdraganda Íraksstríðsins, óhugnaðurinn lá í loftinu. Tilefni til stríðsmótmæla er ennþá meira og augljósara nú þar sem stríðið hefur færst miklu nær – og miklu stærri átök vofa yfir okkur.

Stríðið í Úkraínu yfirskyggir nú öll önnur stríð. Það er mannúðarkatastrófa af stærstu gerð. Þjáning úkraínsku þjóðarinnar er djúp og og stefnir í að verða löng. Og Úkraínustríðið felur í sér hótun um bein átök helstu kjarnorkuvelda, meiri hótun en nokkru sinni frá seinni heimsstyrjöld.

Hvers eðlis er Úkraínustríðið? Rússland réðist á Úkraínu fyrir 10 mánuðum síðan. Árásarstríð er höfuðglæpur skv. alþjóðalögum, og þennan glæp frömdu Rússar með innrás sinni og verða að axla af henni fulla ábyrgð.

Okkur er sagt að spurningin um ábyrgðina í Úkraínudeilunni sé einföld. Ábyrgðin liggi öll hjá hinum illa og valdasjúka Vladimír Pútín og hans valdaklíku í Moskvu. Stríð Rússa er árásarstríð, stríð Úkraínu frelsisstríð. Punktur.

Er málið svona einfalt? Rússar fremja árásarstríð og þjóðréttarlegan glæp, það er rétt. En svona einfaldlega deilist ábyrgðin samt ekki.

Glæpurinn kom ekki úr lausu lofti. Stríðið á sér rætur og forsögu, það sprettur af togstreitu heimsveldanna, af valdatafli þeirra um áhrifasvæði. Valdatafli sem undanfarin 30 ár, frá lokum kalda stríðsins, hefur fylgt ákveðnum þróunarlínum.

Friðarljós á Ráðhústorgi að kvöldi Þorláksmessu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Lok Kalda stríðsins báru nefnilega ekki með sér jafnvægi í heimsvaldakerfinu, þvert á móti. Við fall Sovétríkjanna tók eftirstandandi risaveldi, Bandaríkin, upp mikla sókn til að tryggja hnattræn völd sín. Nýja strategía þeirra fylgdi sk. Wofowitzkenningu um að tryggja að ekkert nýtt stórveldi gæti risið upp sem ógnað gæti Bandarískum yfirráðum. Bandaríkin efndu síðan til innrása og styrjalda. Ásamt hernaðarblokk sinni NATO hóf það beinar árásir/innrásir í fjarlæg lönd, Júgóslavíu, Afganistan, Írak og Líbíu auk litabyltinga og valdaskiptaaðgerða, einkum á fyrrum áhrifasvæði Sovétríkjanna - allt til að tryggja hin hnattrænu yfirráð.

Í öðru lagi kom hröð útþensla NATO í austur. Síðustu Sovétleiðtogunum voru gefin margvísleg loforð um öryggistryggingar í tengslum við sameiningu Þýskalands og upplausn Warsjárbandalagsins. Eldri Bush Bandaríkjaforseti og James Baker utanríkisráðherra sóru þess eið að NATO væri ekki útvíkkað «eina tommu austar» en Þýskaland. En útvíkkun NATO var haldið áfram í stökkum austur eftir gamla áhrifasvæði Rússlands. Allt austur að landamærum Rússlands sjálfs. Aðeins Hvíta-Rússland og Úkraína voru orðin eftir á milli. Síðast kom andrússneskt valdarán í Úkraínu 2014 sem stjórnað var af CIA og bandaríska sendiráðinu í Kiev. Það var þá sem Úkraínustríðið hófst, 2014 – enn eitt stríðið um hin hnattrænu yfirráð. Og nú höfðu Bandaríkin og NATO komið sér upp stóru vígi nálægt hjarta Rússlands.. Síðan þá hafa hinir voldugu sk „vinir Úkraínu“ í vestrinu vígvætt landið, og þeir hófu skömmu síðar að koma fyrir langdrægum kjarnorkuberandi flaugum bæði í Póllandi og Rúmeníu.

Útþenslustefna hernaðarbandalagsins mikla inn á áhrifasvæði gamla óvinarins og innikróun hans er ekki háttarlag þess sem óskar eftir friði. Þvert á móti er það háttarlag þess sem beinlínis óskar eftir stríði. Þar kom að Rússland svaraði með árás, út frá þeirri hernaðaraðferð að sókn sé besta vörnin. NATO-innikróunin RÉTTLÆTTI EKKI árás Rússa en hún gerði hana sennilega og raunar fyrirsjáanlega þar sem Rússar hafa öldum saman mætt allri ásælni úr vestri með kjafti og klóm. Það er mikil áróðursblekking að segja að NATO-innikróunin hafi ekkert með stríðið í Úkraínu að gera. NATO-blokkin, með valdapól sinn í Washington, er megingerandi í þessu stríðsferli frá upphafi til enda og ekki sem boðberi friðar. Það sýnir sig að útvíkkun NATO í Austur-Evrópu er ekkert annað en katastrófa fyrir þetta svæði

Þetta var um rætur stríðsins. Hvað um hreyfiöfl stríðsins sjálfs? Þorri Úkraínumanna fordæmir stríð Rússa, enda er það löglaust árásarstríð. En frá fyrsta degi innrásarinnar blasti við þeim sem vilja sjá að þetta var ekki einfaldlega stríð stóra Rússlands við litlu Úkraínu. Heldur var þetta fyrst og fremst stríð Bandaríkjanna og NATO við Rússa gegnum STAÐGENGINLINN Úkraínu. Þetta viðurkenna bandarísk yfirvöld í öðru orðinu. Leon Panetta fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna segir: „Það er staðgengilsstríð við Rússland hvort sem við segjum það eða ekki. Það er það sem í reynd á sér stað. Og af þeirri ástæðu verðum við að vera viss um að við veitum eins mikið af vopnum og mögulegt er... Ekki vera í vafa, diplómatík er gagnslaus nema við höfum áhrif. Og aðferðin til að hafa áhrif er að fara inn og drepa Rússa. Það er það sem Úkraínumenn verða að gera. Við verðum að halda áfram hernaðaraðstoðinni... Af því þetta er valdatafl.» (tilvitn. lýkur)

Úkraínustríðið eins og Panetta réttilega greinir það er sem sagt „valdatafl“ heimsvelda. Baráttufólk fyrir friði má hvorugan aðilann styðja í slíku landvinningataafli. Það er grundvallaratriði. Það einkennir þó þetta „valdatafl“ að annar aðilinn er í sóknarstöðu en hinn í varnarstöðu og „taflið“ fer fram nánast í bakgarði þess síðarnefnda. Og þess grimmara verður stríðið.

Þórarinn Hjartarson flytur ávarpið á Ráðhústorgi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Núverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Loyd Austin, segir aðspurður um markmið Bandaríkjanna í Úkraínustríðinu: «Við viljum sjá Rússland veikjast það mikið að það geti ekki gert þess konar hluti sem það hefur gert við Úkraínu.» (tilvitnun lýkur) ÞAÐ er hið raunverulega stríðsmarkmið í Washington – og raunverulegi tilgangur með stríðsaðstoðinni við Úkraínu. Séð frá Washington snýst stríðið ekki um frelsun Úkraínu heldur um VEIKINGU RÚSSLANDS.

Þar sem staðgengilsstríðinu við Rússland er stjórnað frá Washington mótast aðstoðin við Úkraínu af þessum tilgangi: að veikja Rússland. Aðstoð Bandaríkjanna og NATO er enda fyrst og fremst hernaðarleg, og felst í því að dæla landið fullt af vopnum. Sá stuðningur er ekkert smár. Á árinu 2022 hafa Bandaríkin ein fjárfest hærri upphæðir í stríðinu í Úkraínu en eru á öllum fjárlögum rússneska hersins á einu ári. Það munar um minna. Og hverjir fá þessa peninga? Ekki Úkraína heldur BANDARÍSKIR VOPNAFRAMLEIÐENDUR. Hermálabatteríið, hinn margfrægi Military Industrial Complex græðir á tá og fingri og er sterkasti mótorinn sem knýr Úkraínustríðið.

Þessi stefna um „veikingu Rússlands“ gengur út á það að FRAMLENGJA stríðið eins og kostur er. Hún gengur ennfremur út á að halda því fram að Úkraína geti unnið stríðið við Rússa, Úkraína sé stöðugt að vinna og þess vegna eigi heldur alls ekki að semja við Pútín. Á fyrstu vikum stríðsins heyrðist stundum um samningsvilja frá bæði Úkraínu og Rússlandi: Zelensky forseti sagðist þá vera þá var tilbúinn að ræða framtíðarstöðu Krím og Donbassvæðisins og fleiri málamiðlanir. En skömmu síðar kom Boris Johnson til Kiev með þau skilaboð frá «sameinuðu Vestrinu» til Úkraínumanna að «jafnvel þótt þeir væru tilbúnir að undirrita eitthvert samkomulag um tryggingar við Pútín værum við það ekki...“ Línan frá vestri var sem sagt óbreytt, að yfir höfuð mætti ekki semja við Pútín. Í framhaldi af því fór Zelenski að tala eins og vestrænu bakmenn hans, nefnilega að hann ætlaði sér að sigrast á Rússlandi hernaðarlega. Síðast í fyrradag í Washington sagðist Zelensky munu vinna „fullan sigur“ á Rússum fái hanna bara bara nóg af vopnum.

Áðurnefndur Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og æðsta vald í stríðinu við Rússland, dró bandarísku strategíuna saman í eina setningu þegar hann sagði: «Úkraínumenn eru fyrirmynd fyrir hinn frjálsa heim, þeir geta unnið stríðið við Rússland og skulu fá allt það sem þeir biðja um af vopnum.”

Stríðsáróðurinn um að Úkraína geti unnið Rússland er lífshættuleg blekking sem þjónar fyrst og fremst einum tilgangi: að framlengja stríðið, auka dauðann og eyðilegginguna í Úkraínu. Sú framlenging getur mögulega orðið til að veikja Rússland en til þesss verður Úkraína örugglega að fórna sjálfri sér. Þeir sem standa á bak við þessa strategíu gefa nefnilega djöfulinn í Úkraínu. Sá „fulli sigur“ á Rússum sem Zelensky og bakmenn hans í Washington tala um er aðeins hugsanlegur í allsherjarstríði Bandaríkjanna gegn kjarnorkuvæddu Rússlandi. En þá tortímist Úkraína líka í þeim gjörningaleik – og mjög margt annað tortímist um leið.

Hvað leggur Ísland til þessara mála? Ísland hefur enga utanríkisstefnu. Ísland er bara NATO-land, punktur. Hoppar þegar Washington eða Bussel segja «hoppa!» Ísland hefur stutt hvert einasta stríð Bandaríkjanna frá árinu 1990. Ísland styður líka þennan síðasta stríðsrekstur. Ísland hefur lagt fram flugvélar fyrir stríðsaðstoðina til Úkraínu. Og hvað er það nú aðallega sem íslenskar flugvélar færa Úkraínumönnum?. Jú, það eru vopn. Vopn sem þjóna þeim megintilgangi að framlengja kvöl og pínu Úkraínu – og að auka líkurnar á því að stríðið þróist yfir í kjarnorkustríð. Á alþjóðavettvangi tala svo íslensk stjórnvöld fyrir útvíkkun NATO m.a. á Norðurlöndum, skv. þeirri kenningu að það sem tryggi best öryggið í Evrópu og friðsamlega sambúð þjóðanna sé útvíkkun NATO og aukinn vígbúnaður.

Við lifum í andrúmslofti vestrænna stríðsæsinga og stríðsáróðurs sem íslensk stjórnvöld og fjölmiðlar bergmála samviskusmlega. Kjörorðið „Vinnum stríðið!“ er slíkur stríðsáróður. Við verðum að sjá í gegnum hann. Kjörorð raunverulegra friðarhreyfinga er hins vegar „Stöðvum stríðið!“ Krafa okkar er um vopnahlé og samninga áður en stríðið drepur milljónir. Krafan er að stöðva vopnasendingar til Úkraínu. Krafan er vopnahlé og samningar áður en stríðið þróast út í þriðju heimsstyrjöldina og jafnvel kjarnorkustríð. Útþensla og vígbúnaður NATO í austri er ekki lausnin á vanda Úkraínu heldur helsti vandinn.

Vestræn stjórnmálaelíta virðist vera óvenjulega sameinuð í stríðsstefnu sinni. Sú íslenska þar með. Baráttan fyrir friði verður að koma frá grasrótinni. Í þetta sinn er ómótmælanlegt að stríðið kemur okkur við. Í nafni mannkynsins: Stöðvum stríðið!

Þórarinn Hjartarson er sagnfræðingur og stálsmiður

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00

Frjálslynd Viðreisn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Svik við launafólk: Loforð um samráð brotin með gegndarlausum gjaldskrárhækkunum

Anna Júlíusdóttir skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 14:20