Fara í efni
Umræðan

Smá veröld í risaheimi stafrænnar tækni

Stafræn tækni er komin til að vera með sínum kostum og göllum. Það er þó engum blöðum um það að fletta að hún hefur töluverð áhrif á hegðun okkar og andlega líðan. Í gegnum algóritma stýra miðlarnir því sem við sjáum og smám saman verður veröld okkar ótrúlega smá í risaheimi stafrænnar tækni; einhvers konar bergmálshellir. Þetta gæti að einhverju leyti útskýrt aukningu á líkamlegu-, kynferðis- og stafrænu ofbeldi meðal ungmenna ásamt minna þoli en áður gagnvart fjölbreytileika.

Í samantekt, sem unnin er úr gögnum Rannsóknar og Greiningu frá árinu 2021, kemur fram að mikilvægi þess að taka samtalið við börn um stafræn samskipti hefur aldrei verið meiri. Ýmis teikn eru á lofti um skaðlega notkun og má þar nefna andstyggileg skilaboð og sendingar á ögrandi myndum. Sem dæmi segjast rúmlega helmingur stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda nektarmyndir og rúmlega 30% hafa sent slíkar myndir. Auk þess eru sífellt færri sem meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða.

Það hefur verið sýnt fram á fylgni milli aukinnar stafrænnar notkunar ungmenna og hrakandi andlegrar heilsu, en með óhóflegri notkun geta ungmenni átt á hættu að þróa með sér kvíða, þunglyndi og truflun á svefni svo dæmi séu tekin. Þessi stöðugi samanburður, óraunhæfar fyrirmyndir, að gera ekki greinarmun á net- og raunsjálfi, áhrifavaldar sem telja okkur trú um að við þurfum hitt og þetta til að vera hamingjusöm, ofuráhersla á veraldlega hluti og fleiri hlutir spila þar stórt hlutverk.

Ofurseld markaðsöflunum

Að baki stafrænna miðla eru stór fyrirtæki með sérfræðinga á hverju strái sem vita nákvæmlega hvernig á að gera okkur háð þessari tækni og hafa áhrif á neytendahegðun okkar. Þetta þekkjum við fullorðna fólkið líka og ættum því auðveldlega að geta sett okkur í spor barna og ungmenna sem eru að feta sín fyrstu skref í stafrænum heimi. Það þarf að auka fræðslu um óbeina markaðssetningu, vöruinnskot, áhrifavalda-markaðsetningu, hvernig markaðsskilaboð elta okkur á miðlunum og síðast en ekki síst um það hvernig viðskiptamódel samskiptamiðla virka. Auðvitað er óskastaðan sú að foreldrar ræði þessi mál við börnin sín en við, hinn almenni íbúi, erum einnig að fóta okkur í nýjum stafrænum heimi. Þess vegna er mikilvægt að við leggjum sérstaka áherslu á stafrænt læsi barna og ungmenna í nýrri lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar.

Hjá Akureyrarbæ starfa 7 frábærir forvarna- og félagsmálafulltrúar sem sem ná mjög vel til barna og ungmenna sveitarfélagsins. Þeir aðlaga starf sitt hverjum tíma og hafa sem dæmi notað til þess niðurstöður úr rannsóknum á lýðheilsu barna á Akureyri og aðlaga sitt starf að þeim miðlum sem ungmenni styðjast við þá stundina. Nýtum þann mannauð og eflum stafrænt læsi barna og ungmenna.

Mæli sérstaklega með þessari grein Skúla Braga Geirdal sem hefur rannsakað þessi mál betur í gegnum starf sitt sem verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjömiðlanefnd:

https://www.kaffid.is/thrjar-astaedur-fyrir-thvi-ad-born-yngri-en-13-ara-aettu-ekki-ad-vera-a-samfelagsmidlum/?fbclid=IwAR3sqn6szlY59XqXNsZaBKgn94p_Z_HDSqhMgzqsO8k1ASAiBkxnOXeFgdQ

Sunna Hlín Jóhannesdóttir er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00

Frjálslynd Viðreisn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Svik við launafólk: Loforð um samráð brotin með gegndarlausum gjaldskrárhækkunum

Anna Júlíusdóttir skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 14:20