Fara í efni
Umræðan

Skömm Vesturlanda, óréttlæti og óendanleg sorg

Ekkert er sorglegra en ástandið í Palestínu. Að hópur manna taki sig saman og drepi 1.400 almenna borgara er hryllilegt. Þar af nokkur hundurð börn. Það er hörmulegt. Það er skelfilegur glæpur. Því er svarað með því að sprengja nokkur þúsund börn í tætlur og svelta þau hin sem ekki eru drepin strax. Er það þá ekki margfalt hryllilegri glæpur? Er það ekki enn sorglegra? Eða skiptir máli af hvaða þjóðerni mannslífin eru? Hvert erum við þá komin?

Alla jafna hafa átök í Palestínu leitt af sér að tíu Palestínumenn eru drepnir á móti einum Ísraelsmanni. Það þýðir að líkur eru á að 14.000 Palestínumenn verði drepnir að lágmarki í þessum átökum. Sumir óttast að þetta hlutfall verði hins vegar miklu hærra en tíu að þessu sinni.

Gaza svæðið er risastórar fangabúðir, fólkið þar er lokað inni og „fangaverðirnir“ stjórna því hvort þar sé rafmagn eða ekki og hvort þar fari inn matur, lyf eða hvað annað lífsnauðsynlegt. Nú eru líkur á því að lífið í fangabúðunum verði gert enn ömurlegra, jafnvel að íbúar á Gaza verði reknir af norðurhlutanum og fangabúðirnar verði minnkaðar verulegar en fangarnir verði álíka margir. Hvað svo? Hvað er næsta skref? Útrýming? Hver er annars munur á útrýmingu þjóðar og að halda henni fanginni í sífellt minni fangabúðum í stigvaxandi þjáningu? Hliðstæðan við gettó nasista verður sífellt ágengari.

Þetta hefði ekki þurft að fara svona. Það var aldrei meiningin að þetta færi svona. Það var aldrei meiningin þegar Ísraelsríki var stofnað að annar hópurinn ræki hinn af heimilum sínum og landi í eitt horn landsvæðisins og hneppti hann þar í fangabúðir. Samt leyfðum við því að gerast. Palestínumenn eru í hlutverki Úkraínu, Ísrael í hlutverki Rússa. Fórnarlamb útrýmingarbúða er orðið að böðli.

Hvernig til tókst með stofnun Ísraelsríkis er skömm Vesturlanda. Hvernig Vesturlönd hafa horft aðgerðalaus á yfirganginn hefur orðið uppspretta óendanlegrar sorgar sem hefur haft hræðilegar afleiðingar ekki bara fyrir þá sem hafa verið drepnir eða kúgaðir og niðurlægðir heldur líka fyrir okkur á Vesturlöndum og raunar heiminn allan.

Reynt er að þagga niður gagnrýnisraddir. Rússar sveltu nokkrar milljónir Úkraínumanna til dauða fyrir tæpum 100 árum og notuðu það bragð að stimpla þá sem nasista sem komust frá Úkraínu og lýstu ástandinu. Æ síðan hafa allir Úkraínumenn sem ekki hafa viljað lúta Rússum verið stimplaðir af þeim sem nasistar. Þetta var snjallt bragð hjá Rússum, með nasistastimplinum var hægt að gera lítið úr gagnrýnisröddum, hver tekur mark á nasista? Á sama hátt er reynt að stimpla þá sem gagnrýna kúgun Palestínumanna sem Gyðingahatara. Og er Gyðingahatari ekki einhverskonar nasisti? Hver vill vera stimplaður sem nasisti? Snjallt.

Engin von virðist til að sorgin sem tengist ástandinu í Palestínu eigi sér nokkurn endi. Ef norðurhluti Gaza verður hreinsaður af Palestínumönnum (þjóðernishreinsaður) er ólíklegt að nokkur leiðtogi Vesturlanda geri neitt. Líklegast er að þeir horfi aðgerðarlausir á, flestir þegjandi, sumir muldrandi í skömm sinni að Ísrael hafi rétt til að verja sig. Forsætisráðherra Íslands mun ekki gera neitt, utanríkisráðherra Íslands mun ekki gera neitt, formaður utanríkismálanefndar mun ekki gera neitt. Kannski segja eitthvað en samþykkja með aðgerðaleysi eins og allir hinir. Enda vilja þau ekki vera stimpluð sem Gyðingahatarar.

Gagnrýnendum er og verður refsað. Síðustu fréttir herma að fótboltamaður í Þýskalandi hafi verið rekinn úr liði sínu fyrir að standa með þeim kúguðu. Ráðist var að aðalritara Sameinuðu þjóðanna fyrir að segja augljósar staðreyndir um áratuga hernám.

Hvernig eigum við á Vesturlöndum að telja heimsbyggðinni trú um að við stöndum fyrir réttlæti, mannréttindum og réttinum til lífs á meðan við styðjum þjóðernishreinsanir og kúgun í Palestínu? Og höfum gert áratugum saman? Af hverju ættu lönd heimsins að leita til okkar? Af hverju ættu þau að líta á okkur sem fyrirmynd? Er ekki alveg eins skynsamlegt fyrir þessar þjóðir að halla sér að Kínverjum og Rússum þegar þær sjá hvernig við Vesturlandabúar styðjum miskunnarleysi, þjáningar og nístingskalt óréttlæti? Er meðferðin á Palestínumönnum ekki svipuð og þegar Vesturlandabúar komu til Ameríku og annað hvort drápu heimamenn eða ráku þá af löndum sínum og smöluðu á afmörkuð svæði, gjarnan ógjöful, þar sem þeir máttu dúsa á meðan hvíti maðurinn sat að kræsingunum sem hann hafði stolið. Erum við ekki bara enn sjálfhverfi, grimmi hvíti maðurinn sem lætur sér þjáningar annarra í léttu rúmi liggja svo fremi sem aðrir eru fórnarlömbin? Er nokkur furða að önnur lönd spyrji sig þessara spurninga? Er nokkur furða að þau trúi ekki fagurgala okkar um eigið ágæti og mannréttindaást.

Stuðningur Vesturlanda við óréttlætið í Palestínu á líklega stóran þátt í óvild múslímaheimsins í garð Vesturlanda. Sú óvild hefur eitrað samskipti þjóða í áratugi, veikt stöðu Vesturlanda og kostað okkur jarðarbúa óhemju mikið. Ekki bara efnahagslega og félagslega heldur líka í mannslífum. Með hörmulegum mistökum höfum við skaðað okkur sjálf og grafið undan okkar eigin gildum.

En hvað getur maður þá gert til að afbera þetta? Hvað getur einn Vesturlandabúi í köldu landi í norðurhöfum gert? Harla lítið því miður. Í besta falli að bíta saman tönnum, loka augunum og reyna af öllu afli að hugsa um eitthvað annað. Á meðan rennur blóð þeirra sem unnu sér það til saka að hafa búið mann fram af manni á landi sem aðrir komu og tóku ófrjálsri hendi.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við Háskólann á Akureyri

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30