Skóflustunga að framtíðinni
Í byrjun árs var staðfest að íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði um 416 eða 2,2% árið 2021 sem er umfram landsmeðaltal. Fáeinum dögum síðar var tekin fyrsta skóflustunga að nýju 700-800 manna hverfi sem hlotið hefur nafnið Holtahverfi og á sama tíma er verið að skipuleggja annað nýtt hverfi, Móahverfi, þar sem verða hátt í 1.000 nýjar íbúðir. Gera má ráð fyrir að um 3.000 manns geti sest að í þessum tveimur nýju hverfum og búið sér heimili.
Bæjarbragurinn á Akureyri um þessar mundir er til marks um óbilandi bjartsýni og mikla trú fólks á framtíð sveitarfélagsins. Segja má að hér endurspeglist sú þróun sem átt hefur sér stað á suðvesturhorni landsins þótt vöxturinn sé smærri í sniðum. Akureyri er langfjölmennasta þéttbýlið utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar og vöxtur og viðgangur bæjarins smitar út frá sér, líkt og vöxtur Reykjavíkur gerir. Þannig hefur orðið veruleg fjölgun í þeim sveitarfélögum sem liggja næst Akureyri. Árið 2021 fjölgaði til að mynda um 50 manns í Hörgársveit (7,7%), 21 í Eyjafjarðarsveit (1,9%) og 8 í Svalbarðsstrandarhreppi (1,8%). Nýir íbúar þessara sveitarfélaga sækja þjónustu til Akureyrar þar sem öll grunngerð samfélagsins er eins og best verður á kosið. Smám saman verður hér til kraftmikið þéttbýlissvæði umhverfis svæðisborgina Akureyri við Eyjafjörð.
Blómlegt menningarlíf
Þótt árið 2021 hafi að ýmsu leyti verið okkur öllum þungt í skauti vegna þráláts heimsfaraldurs þá hefur ýmsu verið áorkað hér á Akureyri og bæjaryfirvöld hafa látið hendur standa fram úr ermum. Á síðasta ári opnuðum við glæsilegan nýjan leikskóla, Klappir við Glerárskóla, lokið var við fyrri hluta umfangsmikilla endurbóta á Lundarskóla, byrjað var að skrá eins árs börn í leikskóla, við tókum í notkun nýtt aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva, lögðum ljósleiðara yfir sundið til Hríseyjar, og skipulögðum nýju hverfin sem áður er getið. Hér eru aðeins nefnd nokkur atriði sem þó varpa skýru ljósi á þann mikla kraft sem býr í sveitarfélaginu okkar.
Akureyri er gott samfélag sem gerir fólki kleift að þroska hæfileika sína og ná skrefinu lengra. Hér er stutt á milli staða og fólk hefur nægan tíma til að njóta alls þess sem í boði er. Menningarlífið er blómlegt og íþróttafólkið okkar nær aðdáunarverðum árangri á ýmsum sviðum, enda aðstaða til íþróttaiðkunar til fyrirmyndar og fram undan umtalsverð uppbygging á því sviði. Bærinn stækkar og íbúum fjölgar. Fasteignir seljast hratt og fyrirtækjum vex fiskur um hrygg og þeim fjölgar.
Að öllu samanlögðu hlýtur umtalsverð fjölgun íbúa á Akureyri að vera til vitnis um að hér er gott að vera og hér vill fólk búa.
Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri á Akureyri