Fara í efni
Umræðan

Skilurðu raunverulega hvað þarf að byggja mikið?

Á síðasta ári fjölgaði landsmönnum um 3% og var það mesta mannfjölgun í landinu í meira en hundrað ár. Á þessu ári sem er að líða eru líkur á að mannfjölgunin verði hart nær sú sama. Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir það fyrir Ísland að hér verði 3% mannfjölgun ár eftir ár? Í stuttu máli þýðir það að mannfjöldinn tvöfaldast á 23 árum. Til að koma þessum mannfjölda fyrir þyrfti því að byggja jafn mikið á næstu 23 árum og allt húsnæði sem nú er til á Íslandi, en það tók um 100 ár að byggja það.

Ef við tvöföldum mannfjöldann eins og hann er nú þá yrðu 40.000 íbúar á Akureyri, 5.000 á Húsavík, 5.000 á Sauðárkróki, 3.000 á Dalvík og svo frv.

Nú er kannski ekki beint líklegt að mannfjölgunin verði 3% næstu áratugi. En það verður að teljast líklegt að hún verði 2%. Það þýðir að mannfjöldinn tvöfaldist á 35 árum. Það er með öðrum orðum líklegt að á næstu 35 árum þurfum við að byggja jafn mikið íbúðarhúsnæði og nú er til í landinu. Það er ærið verkefni þótt það sé auðveldara en á 23 árum.

En er þetta eitthvert ástand sem gengur yfir og við förum aftur niður í 1% fjölgun eða neðar? Lítum á lífskjörin sem Ísland hefur að bjóða.

Landsframleiðslan á mann, leiðrétt fyrir verðlagi á vörum og þjónustu í hverju landi (PPP) áætluð fyrir árið 2023 af AGS er eftirfarandi (í USD, tekið af Wikipedia)):

  • Ísland 69.800

Hvernig er þessi tala samanborin við stærstu löndin á Evrópska efnahagssvæðinu? En eins og þið vitið þá getur hver sem er á þessu svæði sest að á Íslandi án hindrunar.

  • Þýskaland 66.000
  • Frakkland 58.800
  • Ítalía 54.300

En það eru líka á Evrópska efnahagssvæðinu stór lönd með minni verðmætasköpun:

  • Pólland 45.500
  • Rúmenía 41.000
  • Búlgaría 33.800

Það er því líklegt að það verði áfram freistandi fyrir Evrópubúa að setjast að á Íslandi þrátt fyrir leiðinlegasta veður í álfunni. En kuldi er betri en óbærilegur hiti.

Fyrir utan hið Evrópska efnahagssvæði eru síðan allir milljarðarnir af fólki í heiminum, ætli það verði einhver ásókn í þeirra röðum að flytja til Íslands? Skoðum sömu tölur í stærstu löndum Afríku og Asíu auk lands í Suður-Ameríku þaðan sem fjöldi fólks hefur sótt til Ísland:

  • Nígería 6.100
  • Indland 9.200
  • Venusúela 8.000

Við þetta má bæta að launamunur er lítill á Íslandi, hér eru lægstu laun einhver þau hæstu í heimi þannig að almenningur nýtur hér ríkidæmis landsins betur en víða annarsstaðar. Af þessu má álykta að engar líkur séu á öðru en að áfram verði ásókn utan úr heimi að setjast að á Íslandi.

En hvað með að lukkan yfirgefi okkur og lífskjörin versni í samanburði við önnur lönd? Mun mannfjölgun á Íslandi þá ekki stöðvast og jafnvel snúast við í fækkun? Er því ekki betra að fara varlega í húsbyggingum? Lítum á helstu útflutningsverðmæti Íslands í þessu tilliti.

Við framleiðum raforku og seljum, engar líkur eru á að sú útflutningsvara lækki í verði í heimi sem þarf að hætta brennslu jarðefnaeldsneytis. Vindorkan er enn óbeisluð en þar getum við framleitt margfalt þá raforku sem við nú framleiðum með vatnsafli og jarðhita. Við veiðum sjávarfang og seljum. Vissulega gætu orðið þar miklar breytingar með hlýnandi höfum en ákaflega ólíklegt er að við strendur Íslands verði ekki stofnar sem arðvænlegt verður að veiða þótt þeir verði að einhverju leyti aðrir en nú. Við seljum þjónustu við ferðamenn. Gæti Ísland dottið úr tísku og ferðaþjónustan þannig brugðist okkur? Það er ekki líklegt í ljósi þess að hver jarðarbúi ferðast meira og meira. Fólkið sem hefur mesta frelsið til að ferðast er fólk 65 ára og eldra. Fjöldi þess er nú um 800 milljónir í heiminum. Um 2050 verður fjöldi þess um 1,6 milljarður og mun hafa meiri fjárráð, betri heilsu og meiri tungumálakunnáttu en nú. Ferðaþjónusta á heimsvísu mun því vaxa gífurlega. Jafnvel þótt tískustraumar í áfangastöðum ferðamanna breytist er vandséð annað en ferðaþjónustan muni áfram skila sínu á Íslandi. Við seljum eldisfisk. Það er náttúruvænsta leiðin til að framleiða hold til manneldis. Til að framleiða eitt kg af eldisfiski þarf ekki nema brot af því fóðri sem þarf til að framleiða eitt kg af kjöti. Framtíð fiskeldis er því björt, sérstaklega á landi.

Af framansögðu má draga þá ályktun að afar litlar líkur séu á þverrandi efnahag sem minnki áhuga fólks á búsetu á Íslandi.

Tvöföldun á 30-40 árum er því líkleg þróun sem við verðum að horfast í augu við. Við þurfum að gera ráð fyrir að á Akureyri þurfi að byggja 10 þúsund íbúðir á næstu 30-40 árum svo dæmi sé tekið. Í því felst auðvitað tækifæri en líka hætta á klúðri.

Auðvitað ætti að nota tækifærið til að jafna búsetu í landinu og stuðla að meiri fjölgun utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess. En það atriði verðskuldar kannski aðra grein.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við Háskólann á Akureyri

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30