Fara í efni
Umræðan

Seglin við Pollinn - Opið bréf til bæjarstjórnar Akureyrar

Tilefni þessara bréfaskrifa er fyrirhuguð íbúakosning um uppbyggingaráform á svokölluðum Gránufélagsreit, en tilgangur skrifanna er tvíþættur; að hvetja bæjarstjórn til að breyta valkostum í íbúakosningunni, því úr því verið er að ómaka Akureyringa til að taka þátt í íbúakosningu, er rétt að þeir fái að velja um kosti sem leiði til niðurstöðu og hins vegar að greina betur frá þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki tillögunni, Seglin við Pollinn.

  • Athugið! Neðst í greininni eru myndir af nýjustu hugmyndum Zeppelin arkitekta, þeim sem Orri ræðir hér um.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur svo skipað málum að ekki verður betur séð en að íbúakosningin muni leiða til þess að ekkert verði af framkvæmdum á reitnum um næstu framtíð. Þeir þrír valkostir sem lagðir eru fram í íbúakosningunni eru þess eðlis að byggingafyrirtækið SS Byggir, sem hefur undanfarin fimm ár unnið að skipulagningu reitsins, hefur lýst því yfir að fyrirtækið muni hætta við framkvæmdir á reitnum, enda gangi þær ekki upp fjárhagslega. Ofangreint ráðslag hefur vakið kátínu gárunga, en er óviðunandi að öðru leyti. Bæjarstjórn verður að gyrða sig í brók og leyfa Akureyringum að kjósa um skýra kosti, svo löngu tímabær uppbygging Gránufélagsreits geti hafist. Reyndar er ólíklegt að kosningin leiði til nokkurs, enda valkostir svo margir að hver mun túlka niðurstöðuna með sínu nefi – og til hvers voru þá refirnir skornir?

Zeppelin arkitektar hafa frá miðju ári 2017, að undirlagi SS Byggis, unnið að hugmyndum að uppbyggingu reitsins og kynnt þrjár ólíkar tillögur fyrir skipulagsráði. Að baki allra tillagnanna liggur sú hugmynd að tengja útlit og lögun fyrirhugaðra bygginga við ímynd verslunar og siglinga.

Í fyrstu tillögunni var unnið með form og liti farþegaskipa fyrri tíma, í annarri tillögunni var tekið mið af vöruhúsum á hafnarbökkum, en nú tíðkast víða að gömlum vöruhúsum sé gefið nýtt hlutverk og oft með góðum árangri, og í þriðju tillögunni, sem hlotið hefur vinnuheitið Seglin við Pollinn, var unnið með sögu Gránufélagsins. Sú tillaga er nærtækust enda myndu fyrirhugaðar byggingar rísa aftan við Gránufélagshúsið.

Þriðja tillagan, sem byggir á skútuútgerð Gránufélagsins, var kynnt á fjölmennum borgarafundi í Hofi. Fjórar hvítar og misháar byggingar sem minna á segl vísa til fjögurra seglskútna Gránufélagsins: Gránu, Hertu, Rósu og Njáls. Byggingarnar myndu bera nafn skútnanna.

Lítið hefur borið á umræðu um sögulega tengingu tillögunnar við Gránufélagið og er það miður, því saga félagsins er stórmerk í íslenskri verslunarsögu og rækilega samtvinnuð sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Enn síður hefur verið fjallað um byggingarnar sem eitt af hliðunum inn til Akureyrar. Tugþúsundir ferðamanna á farþegaskipum fara um höfnina á hverju ári og horfa yfir og ganga framhjá Gránufélagshúsinu með illa hirt svæði í bakgrunni. Borgarhlið hafa ætið verið vegleg, hvort heldur sem þau eru hluti af borgarmúrum fyrri alda eða sem lestastöðvar eða flugvellir, enda fyrsti viðkomustaður ferðamanna, anddyri borga og bæja.

Hæð bygginganna sem kynntar voru í Hofi mættu mikilli mótstöðu sumra, en þær voru átta til ellefu hæða. Því ákvað skipulagsráð að lækka hámarkshæð bygginganna niður í tuttugu og fimm metra yfir sjávarmáli (samkvæmt útreikningum undirritaðs jafngildir það sjö og hálfri hæð). Það þýddi að sneitt væri ofan af seglunum og þau gerð kollhúfuleg, en þó virtist niðurstaða vera í sjónmáli. Þá gerist það í erfiðu Covid árferði að meirihluti bæjarstjórnar leitaði eftir liðsinni minnihlutans til að stýra bænum. Ákveðið var að setja málið í íbúakosningu og bæjarstjórn setti auk þess fram tillögu um að lækka húsin enn frekar. Hús sem standa myndu næst Gránufélagshúsinu yrðu fjórar hæðir, en þau sem fjær stæðu yrðu sex hæðir. Þar með yrði hugmyndin Seglin við Pollinn fyrir bí, enda standa felld segl ekki undir nafni tillögunnar.

Eins og greint er frá hér að ofan hefur SS Byggir, sem hefur haft veg og vanda að þróun reitsins, opinberlega lýst því yfir að byggingafyrirtækið muni ekki fara í framkvæmdir byggðar á þeim kostum sem í boði verða í íbúakosningunni, enda séu þær óhagkvæmar. Sú yfirlýsing er í takti við afstöðu SS Byggis allt frá upphafi skipulagsvinnunnar, en hún er sú að umhverfið norðan og austan við reitinn sé svo fráhrindandi að erfitt yrði að selja íbúðir á reitnum, nema úr þeim væri gott útsýni og því væri nauðsynlegt að byggja upp í loftið. Áratuga farsæl reynsla SS Byggis af byggingu íbúðarhúsnæðis á Akureyri gefur þessari skoðun vigt sem erfitt er að líta framhjá.

Í ljósi þess að nú styttist í íbúakosningu og í þeirri von að Akureyringum verði gefið færi á að kjósa um valkost sem leiðir til uppbyggingar á reitnum, ákváðum við hjá Zeppelin arkitektum að vinna nýja tillögu þar sem farin væri millileið í hæð bygginganna, Tillagan sem kynnt var á borgarfundinum í Hofi var átta, níu og ellefu hæða, en í nýrri tillögu verða byggingarnar sjö, átta og níu hæðir. Ólíkar hæðir bygginganna vísa í ólíkar stærðir skútnanna fjögurra og klasinn verður dínamískari og áhugaverðari á að líta. Jafnframt skýrðum við, eða drógum betur fram form seglanna. Það var gert með því að raða sólstofum upp eftir stölluðum veröndum bygginganna.

Það er sanngirnis- og réttlætismál og eðlileg krafa þeirra sem að málinu hafa unnið undanfarin ár og kostað til tugum milljóna, að úr því að ákveðið hefur verið að kjósa um skipulag reitsins, þá megi Akureyringar kjósa um skýra valkosti. Annars vegar tillögu SS Byggis, með ofangreindum breytingum, sem koma til móts við samþykktir skipulagsráðs og myndu leiða til að loks yrði farið í að byggja á Gránufélagsreitnum og hins vegar þá kosti sem bæjarstjórn leggur til, en byggingafyrirtækið treystir sér ekki til að byggja samkvæmt. Mega Akureyringar kjósa á milli skýrra kosta, tillögu um byggingar með sögulega skírskotun, sem forms síns vegna vitna um merka sögu og veglegt hlið að Akureyri, eða kjósa þeir óbreytt ástand?

Það er einsdæmi hér á Íslandi og þó víðar væri leitað, að lögð sé fram tillaga að klasa íbúðabygginga sem er ígildi minnismerkis. Í þessu tilfelli hvorki meira né minna en um baráttu fyrir frjálsri verslun og sjálfstæði þjóðarinnar. Með slíkan efnivið má svo sannarlega vinna og það væri dapurlegt ef slíkt tækifæri færi forgörðum.

En sögulegar skírskotanir tillögunnar Seglin við Pollinn eru fleiri. Í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar er stefnt að því út um allan heim að gera manngert umhverfi grænna og manneskjulegra, m.a. með því að klæða byggingar með gróðri, á þökum og veröndum og upp með veggjum. Á Akureyri er elsti og stærsti lystigarður landsins og því fannst okkur hjá Zeppelin arkitektum við hæfi að leggja það til að hinni grænu stefnu yrði fylgt í byggingu Seglanna við Pollinn, með fallegum garði fyrir miðju, sem teygir sig upp eftir seglunum.

Það væri óskandi að táknmyndir Gránu, Rósu, Hertu og Njáls megi sjást við Pollinn, að nýju. Þær gætu orðið fyrsta skref í myndun nýs og spennandi bæjarhluta, þar sem verða bjartar og eftirsóttar íbúðir með miklu útsýni.

Kosningar þar sem margir kostir eru í boði munu mjög ólíklega leiða til haldbærrar niðurstöðu og þeir valkostir sem lagt er upp með í fyrirhuguðum íbúakosningum leiða til engrar uppbyggingar á Gránufélagsreitnum í næstu framtíð. Því skorar undirritaður á bæjarstjórn að gera Akureyringum kleift að kjósa um tillögu sem leiði til löngu tímabærrar uppbyggingar á reitnum. Að kjósa eingöngu um Seglin við Pollinn, hvort menn vilji þau eða ekki. Verði niðurstaðan sú að menn kjósi Seglin við Pollinn má brjótast úr viðjum kyrrstöðu, en annars þarf að leita annarra leiða. Það yrði verkefni bæjarstjórna framtíðarinnar.

Virðingarfyllst,

Orri Árnason, hjá Zeppelin arkitektum

Séð frá Polli.Séð úr suðri, Gránufélagshús í forgrunni.

Segl og Gránufélagshús, torg og göngugata á milli.

Séð frá garði, segl rísa allt um kring.

Gróður teygir sig upp eftir seglum.

Horft frá suðvestri, yfir torg og göngugötu.

Horft yfir segl og garð.

Séð frá Polli, frá suðvestri.

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00