Fara í efni
Umræðan

Seglin við Pollinn - Af staðaranda, athafnaskáldum og rómantíkusum

Síðastliðinn föstudag skrifaði ég opið bréf til bæjarstjórnar Akureyrar. Í bréfinu hvatti ég bæjarstjórn til að endurskoða þá kosti sem í boði verða í fyrirhugaðri íbúakosningu um uppbyggingu Gránufélagsreitsins. Jafnframt greindi ég frá hugmyndafræðinni á bak við tillöguna Seglin við Pollinn, sem við hjá Zeppelin höfum unnið að undanfarin ár. Tillagan Seglin við Pollinn er vísun í skútur Gránufélagsins; Gránu, Hertu, Rósu og Njál og aðrar skútur fyrri alda á Pollinum.

Eins og við var að búast vakti bréfið og meðfylgjandi myndir af tillögunni misjöfn viðbrögð og bersýnilega skiptast menn í sveitir í afstöðu sinni. Enginn úr bæjarstjórn hefur haft samband við höfund tillögunnar, kannski vegna þess að stutt er síðan bréfið var skrifað og bæjarstjórnarmenn vafalítið uppteknir í öðru.

Einhverjir hafa haft á orði að seglin séu ekki í takti við aðra byggð á Oddeyrinni, að staðarandans sé ekki gætt. En hver er hann þessi margumtalaði staðarandi Oddeyrarinnar sem ber að gæta; er hann áþreifanlegur, skiljanlegur og auðsær, eða er hann eingöngu tískuorð í skipulagsmálum?

Í leit að staðarandanum skoðaði ég svæðið sem hverfist um Gránufélagshúsið, hús sem byggt er á einhverjum mestu krepputímum Íslandssögunnar. Nokkru austar er Oddeyrarbryggja, þar sem risastór farþegaskip leggja að og gnæfa yfir næsta umhverfi. Á hafnarbakkanum er Oddeyrarskáli, stór steinsteypukumbaldi, og gámasvæði þar norðan við. Norðan og austan við Gránufélagshúsið eru illa hirt hús og geymslusvæði. Hvernig ætli staðarandanum líði í þessu umhverfi? Vestan við er annað svæði og manneskjulegra, gamli íbúðahlutinn á Oddeyrinni. Þar býr annar andi, sjarmerandi, enda er gaman að ganga þar um og sjálfsagt líka að búa þar.

Sjötíu til hundrað metrar skilja svæðin tvö að, Hjalteyrargata er á milli og röð nýlegra tveggja hæða húsa. Óhætt er að segja að Seglin við Pollin yrðu svo langt frá gömlu íbúðabyggðinni á Oddeyrinni að þau myndu ekki yfirgnæfa hana á nokkurn hátt. Reyndar eru skoðanir manna í þessu efni skiptar, en mín er sú að bæir séu eins og landslag, ósköp sviplitlir séu þeir flatir.

Í ljósi þessa tætingslega umhverfis sem lýst er hér að framan, fannst okkur hjá Zeppelin arkitektum heillavænlegast í tillögusmíðinni, að horfa til fleiri atriða en bygginganna sem fyrir eru á fleti. Staðarandinn hlyti að hverfast um annað og meira. Við horfðum til atorkusemi stofnanda Gránufélagsins og ævintýraljóma seglskipa fyrri tíma. Við ímynduðum okkur hversu fallegur Pollurinn hefði verið og iðað af lífi með skútna fjöld og hvort ekki væri tilvalið að gefa þeim stað að nýju. Með því mætti leysa staðarandann úr þeim viðjum sem hann augljóslega hefur verið í áratugum saman.

Við skoðuðum sögu Gránufélagsins. Þar stóð í stafni Tryggvi Gunnarsson einn öflugasti sonur Eyjafjarðar. Hann hafði mörg járn í eldinum, var bóndi er hann stofnaði verslunarfélagið Gránufélagið og var kaupstjóri þess á árunum 1871-93, samtímis því að vera alþingismaður á árunum 1869-85. Hann var bankastjóri Landsbankans frá 1893-1909 og sat lengi í bæjarstjórn Reykjavíkur. Tryggvi var virtur athafnamaður og á Gránufélagsárunum brúaði hann Ölfusá. Bygging Ölfusárbrúar var stærsta samgöngumannvirki sem ráðist hafði verið í á Íslandi og fyrirséð var að brúarsmíðin yrði óhemju dýr. Málið þvældist fyrir mönnum uns Tryggvi tók af skarið og gerði hagstætt tilboð í verkið. Brúin var 100 metra löng hengibrú, byggð eftir nýjustu tækni og dugði til 1944, eða þar til ný brú var tekin í notkun. Á tímabili leit út fyrir að stöðva þyrfti framkvæmdir vegna fjárskorts, en Tryggvi lánaði það sem upp á vantaði. Ekkert mátti stöðva slíkt þjóðþrifamál, en treglega gekk að innheimta skuldina.

Ofangreint má hafa í huga þegar því er haldið fram að Seglin við Pollinn séu ekki í takti við staðarandann og muni yfirskyggja gömlu Gránufélagshúsin. Húsin voru byggð af vanefnum, en af kröftugum athafnamanni með framtíðarsýn, sem áttaði sig á því að til að byggja upp nútímasamfélag þyrfti að byggja eftir nýjustu tækni og í takti við þarfir tímans. Ég tel víst að maðurinn sem ítrekað tók af skarið, stofnaði Gránufélagið og byggði Ölfusárbrú, myndi ekki takmarka tuttugustu og fyrstu aldar uppbyggingu Oddeyrarinnar við gamla timburbyggingu frá ofanverðri nítjándu öld. Tryggvi er hluti af staðarandanum, en hefur fallið í gleymskunnar dá.

Frá bernsku létu mér bylgjan og skipin
eins blítt og grasið og jörðin.
Allt er mér kært, er setti svipinn
á sveitina mína og fjörðinn.
En seglin minntu í sunnanblænum
á svífandi þandar fanir,
er flugu þeir út með fjöllum grænum,
fjarðarins hvítu svanir.

Svo kvað annar góður sonur Eyjafjarðar, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Seglskip á leið út Eyjafjörð voru honum yrkisefni í ljóðinu Hvítu skipin.

Seglin við Pollinn er rómantísk sýn á skútuöld og starfsemi Gránufélagsins, vísun í sögu staðar og þeirra sem hann byggðu og höfðu mikil og óumdeilanleg áhrif á íslenskt samfélag. Við hjá Zeppelin arkitektum trúum því að slík söguleg skírskotun skjóti styrkum stoðum undir hugmyndir okkar og auðveldi þróun þeirra og framkvæmd. Markmiðið verður skýrara og kúrsinn strax réttur, ef rökhugsunin ber mann af leið. Ekki hefur farið mikið fyrir rómantík í skipulagsmálum hér á Íslandi, en þó eru þess nokkur dæmi. Bílisminn velti henni úr sessi, en ný lífsviðhorf og tækni munu leiða hana til öndvegis að nýju. Þá verður vonandi vilji til að byggja umgjörð um fagurt mannlíf.

Orri Árnason er arkitekt hjá hjá Zeppelin arkitektum.

Smelltu hér til að lesa fyrri grein Orra Árnasonar.

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00