Fara í efni
Umræðan

Samvinna eftir skilnað barnanna vegna

Hvað er SES?

Nú er liðið eitt ár síðan velferðarsvið Akureyrarbæjar ákvað að innleiða úrræðið Samvinna eftir skilnað (SES) inn í þjónustu sviðsins og bjóða foreldrum barna á aldrinum 0 til 18 ára upp á sérhæfða skilnaðarráðgjöf. Um er að ræða ráðgjöf, til að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi foreldra sem standa í skilnaði eða hafa gengið í gegnum skilnað og vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Samvinna eftir skilnað (samarbejde efter skilsmisse - SES) var upphaflega þróað í Danmörku og hafa rannsóknir sýnt marktækan mun á líðan þeirra sem taka þátt í verkefninu og þeirra sem ekki gerðu það. Um er að ræða gagnreynt námsefni sem er ætlað að hjálpa foreldrum við að takast á við breytingar og áskoranir sem algengar eru í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita. Fyrir tilstuðlan metnaðarfullra félagsráðgjafa hér á landi, þeirra Gyðu Hjartardóttur og Dr. Sigrúnar Júlíusdóttur, skrifaði Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra, nú mennta- og barnamálaráðherra undir samning við danska fyrirtækið Samarbejde efter Skilsmisse ApS um innleiðingu á úrræðinu Samvinna eftir skilnað. Í kjölfarið hófst vinna við að þýða efnið, bæði fyrir fagfólk og notendur og úr varð stafræni vettvangurinn www.samvinnaeftirskilnad.is sem er aðgengilegur öllum að kostnaðarlausu. Hljómar svolítið of gott til að vera satt, en þetta er staðreynd.

Innleiðingin á Íslandi

Í framhaldinu var ákveðið að tvö sveitarfélög myndu hefja leika og bjóða upp á þessa þjónustu sem einhvers konar tilraunaverkefni. Tókst vel til og sýndi það sig að eftirspurnin var til staðar ásamt því að Gyða Hjartardóttir umsjónar- og ábyrgðaraðili SES á Íslandi hefur stuðlað að því að sveitarfélög landsins geti boðið upp á þjónustuna með því að þjálfa fagfólk.

Undirritaðar fengu starfsleyfi sem SES skilnaðarráðgjafar í byrjun árs 2022 og hafa tekið þátt í innleiðingu verkefnisins á velferðarsviði Akureyrarbæjar við mjög góðar undirtektir. Innleiðingarferlið hófst á því að bjóða helstu innviðum bæjarins, þ.e. lögreglu, heilsugæslu, SAk, sýslumanninum, prestum, skólum og fleirum upp á kynningu á efninu. Talið er mikilvægt að allir þessir aðilar viti af þjónustunni svo þeir geti bent foreldrum á og vísað í þjónustuna.

SES á velferðarsviði Akureyrarbæjar – ráðgjöf og hópnámskeið

Fyrir utan stafræna vettvanginn, sem hefur að geyma námskeið, æfingar og gagnreynt námsefni fyrir foreldra, þá býður velferðarsvið Akureyrarbæjar foreldrum sem telja sig þurfa meiri stuðning eða fræðslu upp á sérhæfða ráðgjöf hjá undirrituðum SES ráðgjöfum og hópnámskeið. Umsókn um ráðgjöf og hópnámskeið er að finna á þjónustugáttinni á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Stefnt er að því að halda hópnámskeið fyrir foreldra tvisvar sinnum á ári en þar verður fjallað ítarlega um áhrif skilnaðar á fjölskylduna. Hvert námskeið skiptist í þrjá áfanga þar sem kennt er einu sinni í viku, þrjár klukkustundir í senn. Næsta námskeið verður haldið dagana 24. apríl og 3. og 8. maí næstkomandi, kl. 16:30. Í fyrstu vikunni verður farið yfir áhrif skilnaðar á foreldra, í annarri vikunni verður farið yfir viðbrögð barna við skilnaði og í þeirri þriðju verður farið yfir samvinnu foreldra við og eftir skilnað. Umsjónarmenn námskeiðsins eru undirritaðar.

SES – barnanna vegna

Að skilja er lífskrísa fyrir bæði foreldra og börn og oft er sagt að ein algengustu áföll barna sé skilnaður. Fólk ræður oft ekki við tilfinningar sínar og þarf því á aðstoð að halda. Því miður geta foreldrar oft átt erfitt með, ómeðvitað, að setja hagsmuni barna sinna framar sínum eigin og láta stjórnast af erfiðum og flóknum tilfinningum. Verkefnið Samvinna eftir skilnað er fyrir börnin okkar.

Við segjum því iðulega „það er ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða heldur það hvernig staðið er að honum gagnvart börnunum“. Námskeiðin á stafræna vettvanginum hafa að geyma ýmis verkfæri sem leiða foreldra í átt að foreldrasamvinnu. Til dæmis hvernig foreldri brýtur upp neikvætt hugsanaflæði, hvernig forðast eigi algengar gryfjur neikvæðra samskipta, æfingar til að beisla reiðina, bæta skilning á sorginni, skilja tilfinningar og viðbrögð barna, sleppa takinu og margt fleira. Það er nefnilega svo merkilegt að þegar foreldrar hætta í parsambandi þá eiga þeir það til að hegða sér áfram í samskiptum eins og þeir séu enn í parsambandinu. Það þarf að segja skilið við parsambandið og búa til nýtt samstarfssamband og hugsa til dæmis um fyrrverandi maka sem samstarfsfélaga, þið eigið jú barn/börn saman og því nauðsynlegt að setja þarfir þeirra í fyrirrúm. Sem dæmi má nefna þegar við erum leið eða reið og ætlum að skrifa fyrrverandi maka okkar skilaboð, að lesa þau þá aftur yfir eins og við værum að senda á samstarfsfélaga okkar. Við höfum séð það að í flestum tilvikum breytast þá skilaboðin. Stór ástæða skilnaða í dag er samskiptaleysi og mismunandi upplifanir okkar af samskiptunum.

Komi til þess að fólk ákveði að skilja, þá er mikils virði að foreldrar geti leitað sér aðstoðar og komi sér saman um að skilja í samvinnu, okkar vegna en sér í lagi barnanna vegna. Það að Akureyrarbær bjóði upp á ráðgjöf og stuðning til að koma í veg fyrir og/eða til að draga úr ágreiningi foreldra sem standa í skilnaði stuðlar að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnanna að leiðarljósi sem er ákaflega dýrmætt og mun skila sér inn í framtíð barna okkar og samfélagsins alls.

Halldóra K. Hauksdóttir er lögmaður og Katrín Reimarsdóttir félagsráðgjafi. Þær eru SES ráðgjafar velferðarsviðs Akureyrarbæjar.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00