Fara í efni
Umræðan

Samþætting og efling öldrunar- og heimaþjónustu

Hlutfall eldri borgara á Íslandi mun hækka ört á næstu árum gangi mannfjöldaspár eftir. Samkvæmt miðgildi mannfjöldaspár Hagstofu Íslands mun fjölga í aldurshópnum 70- 100 ára um 43% árið 2030 frá því sem nú er og ætla má að sú þróun haldi áfram eftir það. Þessi fjölgun er langt umfram það sem fjölgar í öðrum aldurshópum yfir sama tímabil. Svipaða sögu má segja um fjölgun í elsta aldurshópnum í Evrópu en þó er það svo að hlutfall eldri borgara er víðast hvar hærra í dag en hér á landi.

Þessi fjölgun kallar á stefnumótun í málaflokknum og aukið fjármagn. Sumir tala um tröllvaxna áskorun, að mæta þörfum og fjölgun þessa aldurshóps, en ég lít alls ekki svo á. Þjónusta við eldri borgara hér á landi er víða framsækin og góð en vanfjármögnuð. Öldrunarþjónusta Akureyrar er dæmi um þjónustu þar sem stigin hafa verið framsækin skref til að mæta kröfum samtímans og framtíðarinnar með nýsköpun og fjölbreyttum úrræðum.

Eflum úrræðin

Efling heimaþjónustu, dagþjónustu og heimahjúkrun mun gera eldri borgurum kleift að búa lengur á sínum heimilum og fá viðeigandi þjónustu þar. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að mæta þeirri eftirspurn einstaklingsins en að sama skapi er nauðsynlegt að tryggja fleiri hjúkrunarrými til handa þeim sem ekki geta lengur búið í heimahúsi.

Skortur er á samþættingu þjónustu við elstu aldurshópana. Heimaþjónustan er víðast á vegum sveitarfélaganna, heimahjúkrun á vegum heilbrigðisumdæma og hjúkrunarheimilin ýmist á vegum heilbrigðisstofnana, sveitarfélaga og hlutafélaga. Mismunandi rekstrarform er af hinu góða í þessu samhengi en skortur er á vilja og úrræðum til að samþætta þjónustuna og gera rekstraraðilum kleift að útvíkka starfsemi sína og reka öldrunarþjónustu sem veitir heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagþjónustu og hjúkrunarheimili. Þjónustan, mannauðurinn og þekkingin er öll til staðar á hjúkrunarheimilunum og með aukinni samþættingu væri verið að útvíkka þá starfsemi inn á heimili þjónustuþeganna. Þannig nýtum við þá fjármuni sem fara til málaflokksins betur, veitum betri þjónustu, sinnum einstaklingsmiðuðum þörfum og aukum yfirsýn.

Fjárfestum í velferðartækni

Tækniframfarir hafa átt sér stað í þessum geira sem og öðrum en fjármagnsleysi í málaflokknum gerir rekstraraðilum ókleift að stíga mikilvæg skref í átt að framtíðinni. Með aukinni velferðartækni getum við veitt elsta aldurshópnum aukna þjónustu heima fyrir, með minni tilkostnaði og gert þeim kleift að búa lengur heima en ella. Við erum skammt á veg komin í fjarþjónustu og mikilvægt er að gefa þar í því fjarhjúkrun, fjarlækningar, dagþjónusta og aukin endurhæfing heima fyrir er nauðsynlegur þáttur í því að mæta auknum fjölda aldraðra og veita þeim viðunandi þjónustu.

Í dag skortir samtal og úrræðaleysi einkennir málaflokkinn sem sýnir sig best í því að aðilar sem koma að rekstri hjúkrunarheimila hafa verið að skila rekstrinum til ríkisins sem ber ábyrgðina. Ég hef fulla trú á þeim sem taka við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar og hjúkrunarheimila Fjarðabyggðar en það er engu að síður sorglegt að þeirri þjónustu sem veitt hefur verið og mannauðnum sé teflt í tvísýnu. Nauðsynlegt er að fara í endurskipulagningu á málaflokknum, fjármagna hann með sanngjörnum hætti og gera rekstraraðilum kleift að sinna gæðastarfi, velferðartækni og fjölbreyttri þjónustu til að mæta verkefnum framtíðarinnar.

Ragnar Sigurðsson er bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, fyrrverandi stjórnarmaður í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15